Laugardagur, 3. maí 2008
Góður miðstjórnarfundur!
Við framsóknarmenn áttum reglulega góðan miðstjórnarfund í dag.
Guðni Ágústsson, formaður flokksins, sló taktinn með upphafsræðu sinni í byrjun fundar og var ræða hans sérlega góð og eigi hann þökk fyrir. Hann styrkti sig verulega í sessi að mínu mati við þessa góðu ræðu.
Áhugaverð erindi voru flutt um efnahagsmál og voru þau ásamt umræðu um Evrópumál og flokkinn sjálfan áberandi í umræðu fundarmanna. Það eru mjög váleg tíðindi sem okkur berast um efnahagsmál og hefur það úrslitaáhrif fyrir hvert mannsbarn hvaða skref ríkisstjórnin mun taka á næstu dögum og vikum. Nú þarf ríkisstjórnin að lenda og enda för sína um háloftin og taka á honum stóra sínum áður en enn meiri skaði verður en orðinn er!
Kjaraskerðing fólksins og fyrirtækjanna í landinu er staðreynd sem verður ekki umflúin. Það þarf að bregðast við til þess að hún verði sem minnst og komi ekki verst niður á þeim sem síst skyldi. Ég upplifi stemminguna á stjórnarheimilinu álíka og á heimili þar sem um mjög djúpstæð vandamál er að etja og í stað þess að setjast niður við eldhúsborðið og taka á málum þá forða fjölskyldumeðlimir sér í allar áttir af heimilinu og halda að þannig leysist málin af sjálfu sér! Það gerist bara ekki þannig! Við engin viðbrögð vex einungis vandamálið! Hér á ekki við setningin fræga úr Löggulífi þar sem dómsmálaráðherra sagði: "Sá sem gerir ekki neitt gerir enga vitleysu". Efnahagsmálin eru þess eðlis að sá sem gerir ekki neitt gerir tóma vitleysu!
Það er ekki laust við það að maður verði ansi þungt hugsi hreinlega eftir þær fréttir og upplýsingar sem manni hafa verið að berast síðustu vikur um efnahagsmál þjóðarinnar.
En, við erum ekki Íslendingar fyrir ekki neitt. Við erum harðger þjóð sem getur staðið af sér flest óveður og komið undan því kokreist og einungis sterkari. Þessu þarf ríkisstjórnin að átta sig á.
Evrópumálin fengu mikilvægan sess á fundinum í dag og það sem mestu máli skiptir er það að enginn stjórnmálamaður eða flokkur mun taka þá ákvörðun endanlega. Það þarf þjóðin að gera. Það er okkur hollt að hefja umræðu um stöðu okkar innan lands sem og í samstarfi við aðrar þjóðir í heimi þar sem hraðar breytingar eru og ný tækifæri opnast á hverjum degi. Við þurfum að ræða málin, skoða ólík sjónarmið og komast að niðurstöðu sem þjóð um það hvaða leið við teljum að okkur farnist best á. Innan langflestra flokka eru skiptar skoðanir um Evrópumálin og það er mikilvægt að innan stjórnmálaflokka rúmist ólíkar skoðanir. Það var frábært að upplifa það í dag hvernig við náðum að vinna og ræða um þessi mál og hversu góð sátt náðist og góður samhugur er almennt í flokknum.
Ég er stolt af því að vera framsóknarkona og varð enn stoltari í dag. Ég fann það enn betur en nokkru sinni fyrr hversu góða samleið ég á með flokknum mínum og gildum hans.
Nú þarf þjóðarsátt og góða framtíðarsýn og þá eru okkur allir vegir færir á okkar ágæta landi.
Þarf að breyta stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:33 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nú dónaleg athugasemd hjá þér Ragnar Örn. Allt er vænt sem vel er grænt og það á aldrei að lemja minnimáttar. Ekki heldur liggjandi lík. Við framsóknarfólk verðum að standa saman því annars missum við völd og áhrif.
Björn Heiðdal, 4.5.2008 kl. 05:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.