Samgöngumál

Ég var á góðum fundi í kvöld með framsóknarfólki um samgöngumál. Fundurinn var haldinn að frumkvæði framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi og var haldinn í Hafnarfirði.

Framsögumenn fundarins voru Guðni Ágústsson formaður flokksins og fulltrúi í samgöngunefnd þingsins, Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi í Kópavogi og Óskar Bergsson borgarfulltrúi í Reykjavík.

Einnig voru margir aðrir sem fóru í pontu og lýstu skoðunum og sjónarmiðum sínum.

Mér þótti þetta áhugaverður og fróðlegur fundur. Þarna er um þungavigtarmál að ræða þar sem sífelldar breytingar eiga sér stað innan þessa málaflokks.

Ég hef kynnst vel samgöngukerfinu í Árósum sem er mjög ólíkt því íslenska og þykir fróðlegt að bera þau saman. Vissulega er margt afar ólíkt á milli Árósa og höfuðborgarsvæðisins en einnig eru atriði sem eru sameiginleg. Úti hefur mér þótt lítið mál að fara allra minna ferða á hjóli og nota almenningssamgöngur þegar hjólið á ekki við. Í Danmörku er þjónustan afar skilvirk og notendavæn að mínu mati. Maður slær bara inn í forrit hvert maður ætlar og fær þá upp ýmsa möguleika (strætó, lest, rútu ofl.) og góða lýsingu á hvernig maður geti notað þessa ferðamáta og tillögu að ferðaplani. Þetta er mjög þægilegt. Einnig er t.d. mun ódýrara í strætó en tíu ferða klippikort kostar 115 dkr. Ef maður fer aftur í vagn innan tveggja tíma er það gjaldfrítt. Hjólið reyni ég að nota við flest tækifæri og tekur smá tíma að venjast því að hjóla en þegar það er orðinn vani þá er það mjög hressandi á alla vegu og ágætt á tímum hækkandi eldsneytis að brenna sínu eigin Smile. Þannig styrkir maður sig líkamlega sem og andlega.

Hér heima er staðreyndin sú að langflestir keyra um á einkabílnum með tilheyrandi umferðarteppum og mengun í borginni. Sjaldnast eru aðskildir hjólreiðastígar og ég hef heyrt það frá fólki sem hefur viljað nýta þann ferðamáta að á köflum sé það nánast í lífshættu þar sem það þurfi að vera innan um umferðina eða fara mjög miklar krókaleiðir. Strætisvagnar keyra hér tómir um og þurft hefur að leggja niður leiðir þar sem ódýrara hefði verið að keyra þá fáu sem nota þær um í leigubíl! Úti keyra flestir vagnar smekkfullir frá morgni til kvölds og það sama á við um lestirnar. Þær eru oftast þétt settnar og nóg fjör er á hjólreiðastígunum.

Á næstu tugum ára munum við þurfa að endurskoða samgöngur okkar verulega. Með gríðarlegri hækkun á eldsneytisverði spái ég því að ekki verði lengur um nokkra bíla í hverri fjölskyldu að ræða og ekki verði jeppi að meðaltali í hverri fjölskyldu. Við munum þurfa heildarlausnir til þess að geta boðið öllum upp á góðar samgöngur og ólík kerfi þurfa að vinna saman sem ein heild. Samgöngur út á land og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Nýjar lausnir koma með nýjum tímum eins og t.d. lestir og samgöngutæki sem ganga fyrir vistvænum orkugjöfum.

Ég tel því að við þurfum að stíga á bremsuna að þessu leyti eins og svo mörgu öðru á næstunni. Það er að segja við þurfum að hægja á okkur bókstaflega. Endurhugsa samfélag okkar þannig að möguleiki verði á því að nýta almenningssamgöngur og skipulag samfélagsins sé þannig að það sé raunhæfur möguleiki að sinna börnum, stunda atvinnu og annað án þess að hver einasti landsmaður þurfi að keyra um á einkabíl og helst upphækkuðum glæsijeppa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband