Haust...

Laufin fara að falla af trjánum og það er að koma haust.

Að mér læðist sá grunur að haustið og veturinn verði þyngri en oft áður. Það hefur verið þungt yfir efnahagsmálum landans um nokkurt skeið og nú fer sennilega að rigna úr skýjunum. Að minnsta kosti hjá sumum. Eins dauði er oft annars brauð. En í heildina þarf þjóðin að setja höfuðið undir sig og komast í gegnum það tímabil sem hafið er og koma standandi út úr því. Öll él birtir upp um síðir og þá er oft ákveðinn ferskleiki sem fylgir nýju vori.

Ég fylgdist með Silfri Egils í dag eins og svo oft áður. Þáttur sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér þykir þó Egill aðeins þurfa að vara sig á því að vera hlutlaus varðandi ákveðin mál eins og Evrópuumræðuna. Þar skín í gegn hvaða afstöðu hann hefur og manni virðast spurningarnar verða stundum full leiðandi og umræðan ekki þjóna þeim tilgangi að vera upplýsandi. Það er jú það sem landinn þarf á næstu árum. Ég tel leið okkar framsóknarmanna skynsamlega. Í okkar flokki eru skiptar skoðanir eins og í flestum hinna. Við þurfum að vera sammála að vera ósammála, standa fyrir upplýsandi umræðu á báða vegu og þjóðin á alltaf lokasvar. Það þarf að spyrja þjóðina hvort hefja eigi aðildarviðræður og hún þarf svo að taka ákvörðun þegar allar upplýsingar liggja á borðinu. Fyrir utan þetta ferli þarf ýmiss konar undirbúning. Því tel ég skynsamlegt eins og Guðni Ágústsson formaður flokksins kom inn á og fleiri að fara þessa leið en einbeita sér engu að síður að því sem dynur á okkur nú. Við þurfum að setja okkur ákveðin markmið sem þjóð en til þess að komast af stað þurfum við að ná tökum á efnahagsmálunum sjálf fyrst. Annars förum við of geyst, á röngum forsendum, með hálfgerða flóttatilfinningu og sært stolt.

Ríkisstjórninni hefur ekki tekist að eiga við óveðrið í efnahagsmálum þann tíma sem hún hefur setið. Hún hefur lagt á flótta í önnur mál, alþjóðamál en misst jarðtengingu við þjóðina á meðan. Það vissi ekki á gott þegar fjárlög voru lögð fram í fyrra með 20% aukningu á milli ára og spennandi verður að sjá hvaða fjárlög liggja fyrir núna. Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd og í stað þess að taka henni á uppbyggilegan hátt og sem skilaboðum til að ná betri tengslum við þjóðina hefur hún kosið að fara í vörn.

Til þess að leiða þjóðina í gegnum þau áföll sem á okkur hafa dunið þarf sterk bein, skýra stefnu og festu og góð tengsl við fólkið í landinu. Það þarf að ná fram þjóðarsátt. Það þarf að fá alla til þess að vinna saman því við byggjum á traustum grunni og í raun hefur þjóðin sem slík ágætt af að hægja á sér, við höfum farið ansi hratt á undanförnum misserum. Og það þarf að huga að þeim sem virkilega finna fyrir kreppu. Þá á ég við þá sem búa við verstu kjörin. Skóinn kreppir því miður verst að þar sem síst skyldi.

Við þurfum að ná jafnvægi í þjóðarsálinni frá þeirri ríkjandi sjálfstæðisstefnu um það að ríkir eigi að verða ríkari og hver sjái um sig í það flatlendi þar sem enginn má skara fram úr sem of öfgakennd vinstristefna boðar. Ég tel okkur framsóknarmenn hafa þetta jafnvægi og sjálf aðhyllist ég það. Þar sem mikið er lagt upp úr háu atvinnustigi sem stendur undir öflugu heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi fyrir alla.

Ég vona svo innilega að haustið verði mildara en spáin segir og við komum sem best undan vetri.


mbl.is Ekki rétt að tala um kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband