Þriðjudagur, 23. september 2008
Búið að opna lestarstöðina og blása af hættuástand
Eftir góða leit án þess að nokkur sprengja fyndist var lestarstöðin opnuð á ný.
Nálæg hús voru rýmd meðal annars Stiftstidende sem hefðu nú heldur kosið að hafa möguleika á því að skrifa um fréttina en taka beinan þátt í atburðinum að þeirra sögn.
Þetta hafði í för með sér mikil óþægindi fyrir farþega þar sem engar lestir fengu leyfi til að fara í gegnum Aarhus og var t.d. lestinni til Köben snúið við í Skanderborg í staðinn. Einhverjir urðu því miður strandaglópar fyrir vikið. Rútur komu í stað lesta í einhverjum tilfellum.
Ég óttast að hér sé verið að undirbúa einhvers konar hryðjuverk vegna birtinganna og svo endurbirtinga á Múhameð spámanni en hef nú mun meiri áhyggjur af því að skotmarkið verði Kastrup eða Hovedbanegaard í Köben.
Það þýðir hins vegar ekki annað en halda sínu daglega lífi áfram þrátt fyrir slíkar vangaveltur. Maður verður bara að hugsa þannig að ef maður sé svo óheppinn að vera á röngum stað á röngum tíma þá sé tíminn manns bara búinn. Það má ekki hætta að lifa lífinu fyrir vikið því líkurnar á að lenda í einverju slíku eru svo litlar. Þetta hugsaði ég einmitt þegar ég hlustaði á Obama í Berlín í júlí þar sem ég stóð pikkföst í 200 þúsund manna mannþröng.
Ég er einmitt að fara í smá vinnutengda ferð á morgun þvert yfir Danmörku og ætla ekki að láta slíka ógn stöðva mig nú eða síðar.
En mikið er maður nú þakklátur fyrir að vera Íslendingur sem þarf sjaldnast að óttast um hryðjuverk eða önnur voðaverk á hernaðargrundvelli. Vonandi náum við að halda þeim friði sem við búum við til allrar framtíðar. Það er dýrmætara en orð fá lýst að lifa í friði og spekt án mikilla ógna um líf manns. Sú ógn að gjaldmiðillinn sé í vandræðum bliknar við þá ógn sem margar þjóðir búa við á hverjum degi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.