Að vera inni í bekk eða utan bekkjar

Það hefur löngum verið mikið rætt og ritað um hvernig best sé að skipuleggja skólastarf til þess að koma til móts við sem flesta nemendur. Þeir eru jú allir mjög ólíkir og einstakir.

Almennt er fylgt stefnunni um "Skóla án aðgreiningar". Það má hins vegar spyrja sig hversu mikið þeirri stefnu er fylgt eða hvort hún sé meira í orði en á borði.

Það getur gerst að skólafólk freistist til þess að fjarlægja þann sem veldur óróa í bekknum sem lausn við vandanum. Það er ekki lausn sem rannsakendur telja vera besta. Flestar greinar sem ég hef lesið eru á því máli að forðast eigi sérúrræði þar til allt annað sé komið í þrot. Hins vegar verður að virða óskir foreldra eða nemandans sjálfs (ef þeir óska eftir slíku úrræði). Ég var einmitt í alveg frábærum fyrirlestri núna á mánudaginn hjá konu sem hreinlega geislaði af starfsgleði, hugsjón og ástríðu fyrir starfinu sínu en hún starfar sem sálfræðingur fyrir börn með alvarleg hegðunarfrávik. Hún talaði mjög mikið á móti aðgreiningu og sérúrræðum og sagði að slíkt gæfi slökustu niðurstöðurnar í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið. Hún var frábær í því að lýsa því hvernig hægt er að vinna með barninu, foreldrum, skóla og öðru neti að því að finna út hvað það er sem er að valda vandræðum, grípa inn í áður en það gerist og nýta sér tækni atferlisgreiningar til að breyta hegðun. Hún lagði gríðarlega áherslu á að finna það jákvæða og styrkja það með réttri umbun.

Sumt skólafólk talar um að það sé ekki raunhæft að fylgja skóla án aðgreiningar eftir í raunveruleikanum. Ég tel slík rök eiga rétt á sér. Orsökin tel ég liggja í því að það vantar meiri faglegan stuðning inn í skólana til þess að takast á við ólíkar þarfir nemenda og styðja það starfsfólk sem vinnur vinnuna dags daglega (kennara, stuðningsfulltrúa ofl.). Þannig á að vera hægt að skapa öllum pláss í skólastofunni. Það þurfa að starfa virk fagteymi við hvern skóla sem samanstanda meðal annars af sálfræðingum og þroskaþjálfum sem hafa mikla reynslu af atferlisgreiningu sem geta komið inn sem leiðbeinendur og stuðningsaðilar.

Það er til dæmis klassískt hjá okkur mannfólkinu að gleyma að hrósa börnum þegar vel gengur en það á alltaf að leita að og grípa öll þau tækifæri sem hægt er að veita jákvæða athygli út á. Oft er sú stund einmitt stundin sem sá fullorðni andvarpar yfir því að loksins skuli vera friður! En svo um leið og eitthvað byrjar að ókyrrast þá er viðkomandi fljótur að veita því athygli. Slík viðbrögð eru mjög eðlileg en þau hafa einungis þau áhrif að draga úr því að barnið sitji hljótt og stórauka þá hegðun að byrja að trufla friðinn þar sem barnið lærir fljótt að þannig fær það langþráða athygli frá hinum fullorðna.  Mörg svona mynstur er erfitt að sjá þegar maður er alltaf í aðstæðunum en mikilvægt fyrir fagfólk með sérþekkingu á atferlisgreiningu að koma inn í og leiðrétta.

Ég persónulega er hlynnt því að alltaf sé um fjölbreytt úrræði að ræða og fólk eigi val. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að best sé að gefa öllum kost á því að feta hinn almenna veg. Ef ákveðnum aðilum er kippt út og settir saman er ekki hægt að ætlast til þess að slíkir nemendur hafi hugmynd um eða geti lært að vera "venjulegir" í svo óvenjulegum aðstæðum. Það er einnig mikilvægt fyrir hinn almenna nemanda (og ekki síst strax í leikskólanum) að læra það að öll erum við ólík með mismunandi styrkleika og veikleika og fara með þá vitneskju í farteskinu út í lífið sem umburðarlyndari og víðsýnni einstaklingur. Ef Árósarháskóli væri t.d. einungis skipaður nemendum sem væru fótbrotnir þá væri það mjög ríkjandi viðfangsefni í leik og starfi og litaði allt annað. Ég tel það sama eiga við um hegðunartruflanir. Börn sem eru mörg saman í hóp með sérþarfir missa af því að læra það almenna og þannig er strax búið að dæma þau úr leik að vissu leyti og erfitt að snúa af þeirri braut síðar.

Mín niðurstaða er því sú að stuðningurinn eigi að langmestu leyti að fara fram innan bekkjar en til þess að hann virki þarf að vera um vel útfærð fagleg vinnubrögð og teymisvinnu allra viðkomandi aðila að ræða. Það þarf að nýta módel sem sýnt hafa fram á árangur í rannsóknum og meta þarf reglulega faglega hæfni þeirra sem veita stuðninginn og einnig þarf að klæðskerasníða stuðninginn við hvern nemanda svo hann dafni sem best.


mbl.is Fjórðungur nema fær stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Þetta er rétt hjá þér, en það sem vantar allavega þar sem ég þekki til í skólum á Íslandi er fagfólk og peningar. Ég vinn í mjög fámennum skóla sem stuðningsfulltrúi og leiðbeinandi. Það þyrfti í sumum tilfellum einn starfsmann á nemanda, ef vel ætti að vera en ekki virðast peningar til fyrir því og ekki lítur út fyrir að það verði á næstunni.

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 3.10.2008 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband