Minnisstæður mánudagur

Ég fylgdist með fréttum í gær og beið þeirra með eftirvæntingu. Ekkert kom á daginn og fór ég því að sofa með þá von að vakna við nýja dögun í íslensku efnahagslífi. Ekkert var að frétta heldur í morgun þegar ég fór í skólann og ekki varð ég vör við neina dögun.

Í kvöld þegar ég kom svo heim þá frétti ég að hálfgerðar hamfarir hefðu átt sér stað í íslensku efnahagslífi í dag. Hamfarir eru ágætis orð því þær lýsa atburði sem kollvarpar öllu og hlutirnir verða aldrei eins.

Þessi mánudagur ætlar að verða minnisstæður.

Það er hálf undarlegt að hlusta á hæstvirtan forsætisráðherra ávarpa þjóð sína og maður gerir sér ekki fyllilega grein fyrir umfangi orða hans. Fréttin er ekki öll sögð. Maður veit í raun og veru ekki fullkomlega hvað hún felur í sér. Það kemur í ljós á næstu dögum. En það var átakanlegt að heyra hann lýsa því hvernig við þyrftum að styðja hvert annað á þessum tímum og við þau orð varð mér betur ljóst að um hamfarir væri að ræða. Mun alvarlegri hluti en manni hafði virst af fjölmiðlum fyrri daga. Við þessar hugleiðingar um hrun án þess að geta áttað mig alveg á áhrifum og fullri stöðu mála þá fékk ég kökk í hálsinn.

En við slík tíðindi þá þarf maður að draga djúpt andann, hreinsa hugann og skýra hugsunina. Þetta gæti verið mun verra. Hér er ekki um náttúruhamfarir að ræða. Við höfum ekki misst líf. Aðgerðir þær sem verið er að ráðast í eiga að tryggja fólki öryggi í sínu daglega lífi. Samfélag okkar þarf að halda áfram að rúlla þrátt fyrir hræðilegt ástand á efnahagsmörkuðum heimsins og ríkisstjórn sem vaknaði upp af þyrnirósarsvefni þegar hana hafði rekið alveg að fossinum og við það að steypast niður í djúpan hyl.

Núna eru allir að gera sitt besta og róa af öllu mögulegu og ómögulegu afli. Hugur minn er hjá öllum ekki síst stjórnmálamönnum sem í umboði sínu bera þungann og hitann af málum dagsins. Þeir eiga hrós skilið fyrir að leggja sig fram og ég hef trú á að menn vilji þjóð sinni allt það besta. En það er hins vegar deginum ljósara að af slíku ári og fyrri árum getum við lært margt.

Við munum þess vegna koma út úr þessari kröppu lægð reynslunni ríkari og með báða fætur á jörðinni.

Þegar ég hafði dregið andann og reynt að flokka hugsanirnar í höfðinu á mér og átta mig á einhverri mynd af þessu öllu saman þá fékk ég mér íslenska síld sem ég keypti í búð hér um daginn. Mig þyrsti í að finna bragð af landinu mínu. Landinu mínu sem ég finn alltaf betur og betur hversu sterkar taugar liggja til. Landinu sem er einstakt og þjóðinni sem er stórust og sterkust í heimi! Það er eitthvað sérstakt efni í okkur Íslendingum og ég ætla ekki að gleyma því núna þegar auðveldara er að leggjast í neikvæðni og svartsýni. Ég er námsmaður erlendis (og það er ekki nein draumastaða í dag...) en ég ætla ekki að flýja land. Plönin mín eru að koma heim að námi loknu og taka þátt í þeirri uppbyggingu sem bíður okkar að betra samfélagi. Grasið er grænast á Íslandi. Það er klárt mál í mínum huga þrátt fyrir að fennt hafi yfir græna grasið í bili.

Sendi mínar bestu kveðjur til allra Íslendinga. Saman getum við þetta og ekki nóg með það heldur munum við einungis eflast við þessa raun sem aðrar sem dunið hafa á þjóð okkar og slíkt harðfenni fær okkur til að muna hvað skiptir okkur raunverulega máli í lífinu. Ekkert er svo slæmt að það boði ekki eitthvað gott. Nú fáum við tækifæri til þess að gera jákvæðar breytingar á málum sem laga hefði þurft til í fyrir nokkuð löngu síðan.


mbl.is Verður að lögum í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband