Nýr dagur

Það er kominn nýr dagur...

Rykið er ekki sest eftir hamfarir gærdagsins og enn er maður að reyna að átta sig á og skilja hvað kemur í ljós þegar rykið hefur sest.

Það er ákaflega mikilvægt að við stöndum öll saman næstu daga, vikur og mánuði og séum bjartsýn á framhaldið. Það er einnig mikilvægt að styðja við bakið á okkar kjörnu fulltrúum sem núna reyna eftir fremsta megni að halda hjólum þjóðfélagsins gangandi með handafli. Nú þurfa Geir H. Haarde, ríkisstjórnin og Alþingi stuðning okkar allra til þess að sem best takist til við endurreisn komandi tíma. Fylkjum okkur að baki þeim. Eyðum orkunni okkar vel og vandlega. Í stað þess að eyða henni í það að finna sökudólga til að hengja á torgum skulum við nota orkuna í að koma öllu á góða siglingu. Þá fyrst er svigrúm til að fara að líta ofan í kjölinn. Því betur sem við stöndum saman á næstunni því meiri möguleikar eru á að lágmarka þann skaða sem orðið hefur. Hér er um heilsu okkar sem þjóðar að tefla og framtíð okkar í öllu tilliti. Við munum koma standandi út úr þessum hremmingum og miklu sterkari. Það má líka ekki gleyma því að nánast hvert einasta mannsbarn hefur tekið þátt í veislunni að einu eða öðru leyti og notið hagsældarinnar og því eðlilegt að allir hjálpist að við að rétta okkur á ný og axla þannig sameiginlega ábyrgð á stöðu mála.

Í dag eru menn að vinna vinnuna sína af öllum krafti við að koma öllu á rétt ról. Það hefði auðvitað verið heillavænlegra ef ráðist hefði verið í kraftmiklar aðgerðir strax síðasta sumar og dregið hefði verið verulega saman í fjárlögum síðasta árs (en þau voru hækkuð um 20% í staðinn). Það hefði verið æskilegt að hlustað hefði verið á margítrekuð varnaðarorð ýmissa sérfróðra aðila, stofnana og okkar framsóknarmanna. Þá hefðum við getað verið búin að byggja upp öfluga flóðgarða til að taka á móti þeirri öldu sem skall á Íslandsströndum síðustu daga.

Það er að mörgu að huga á næstunni. Í fyrsta lagi þarf að huga að fólkinu og heimilunum í landinu. Ég þakka fyrir það að Íbúðalánasjóður, stofnun okkar framsóknarmanna, skuli vera til í dag. Það var gott að við skyldum verja hann með kjafti og klóm síðustu ár. Jóhanna mun án efa standa sig með stakri prýði og leggja allt sitt undir til þess að aðstoða alla eftir bestu getu. Enda er hún einn besti stjórnmálamaður sem Ísland hefur alið og nú nýtast hæfileikar hennar vel. það þarf einnig að aðstoða þá sem lenda í andlegu niðurbroti og það er verið að gera með því að efla geðdeild og heilsugæslur. Það er vel og af því má reyndar læra að dags daglega ætti að veita miklu meira afli í geðrækt og forvarnir til þess að efla krafta þjóðarinnar og fyrirbyggja veikindi og niðurbrot. Til dæmis með því að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga.

Einnig er annað atriði sem er ákaflega mikilvægt og það eru atvinnuvegir landsins. Ef heimilin eru frumurnar í líkamanum Íslandi þá eru atvinnuvegirnir blóðið. Án þeirra geta frumurnar ekki haldið lífi. Það verður að blása súrefni inn í atvinnulífið til þess að hjólin haldi áfram að rúlla og talsvert þarf að gefa inn til að ná okkur upp úr því mikla hjólfari sem við sitjum í. Hér er mikilvægt að horfa til grunnstoðanna. Við þurfum að efla fiskvinnsluna okkar og þar koma hugmyndir okkar framsóknarmanna inn um að auka þorskveiðiheimildir. Þessi hugmynd var lögð fram fyrir alllöngu síðan þegar komu fram teikn á lofti fyrir um einu og hálfu ári síðan um aðsteðjandi vanda. Því miður var ekki hlustað á þær og það er svolítið seint að fara núna að eyða tíma í vísindarannsóknir þegar við þurfum fisk í vinnslu og skapa meiri verðmæti ...helst í gær! Við þurfum að vera vel á verði gagnvart því að takmarka atvinnuleysi eins og mögulegt er því það er eitur í blóð okkar ef mikið atvinnuleysi verður. Við framsóknarmenn leggjum einna mesta áherslu á atvinnuuppbyggingu í okkar stefnu, af henni vöxt sem stendur undir velferð og að víðtæk samvinna ríki í þjóðfélaginu um grunnstoðir samfélagsins. Við stóðum við loforð okkar um 12 þúsund ný störf 1995 þegar ríkti mikið atvinnuleysi og munum að sjálfsögðu stefna að því á næstu árum að stuðla að uppbyggingu nýrra starfa á þegar hriktir í stoðum atvinnumála í landinu. Með allar auðlindir okkar, náttúruauðlindir og mannauð er slíkt vel raunhæft markmið.

Einnig þarf að huga sérlega vel að landbúnaðinum. Staðan er sú að mjög margir bændur róa lífróður. Margir hafa verið að stækka t.d. fjósin sín og tekið lán í erlendri mynt til þess. Á sama tíma hefur olía hækkað upp úr öllu valdi og öll aðföng (fóður, áburður oþh.). Bændurnir og sjómennirnir eru matarkistan okkar. Við eigum að leggja allt okkar undir í að efla þá atvinnuvegi og eigin framleiðslu í stað þess að þurfa að flytja inn afurðir við flöktandi gengi. Þá sameinum við mörg markmið í einu og höldum landinu öllu í blómlegri byggð, eflum atvinnuvegi og sjálfsþurftarbúskap okkar sem þjóðar.

Við framsóknarmenn viljum skynsamlega nýtingu auðlinda. Það þarf þó að ríkja sátt um það hvaða auðlindir eigi að nýta og hverjar eigi að friða. Sú umhverfisverndarumræða sem verið hefur undanfarið vegna fyrirhugaðra álvera er af hinu góða. Hún upplýsir líka ólíkar hliðar og sjónarmið. Í alþjóðasamhengi má segja að það sé umhverfisvænt að byggja álver á Íslandi þar sem þannig sé álið framleitt með endurnýtanlegri umhverfisvænni orku í stað kola. Álið verður að framleiða þar sem t.d. flest farartæki eru byggð úr áli og því mikilvægt að þau séu byggð úr léttum málmum til þess að þau brenni minna eldsneyti. Þrátt fyrir gagnrýni sem skollið hefur á fyrri ríkisstjórn vegna uppbyggingar álvera þá er raunin sú að Kárahnjúkavirkjun er eitt ljós í myrkrinu í dag vegna þeirra tekna sem hún skapar og heimamenn bæði á Bakka og í Helguvík sækja fast að því að þær tvær framkvæmdir verði keyrðar í gegn. Ekki hefur það náðst m.a. vegna ósamstæðni ríkisstjórnar en nú tel ég að menn muni ekki hiksta heldur keyra slíkt í gegn. Það er ein leið til að veita súrefni inn í kerfið. Allt slíkt hefur margfeldiáhrif á kerfið í jákvæða átt. Ég held að enginn Íslendingur vilji álver á hvert horn landsins en við þurfum engu að síður að byggja upp þessi tvö og beina sjónum okkar svo áfram að uppbyggingu iðnaðar eins og til dæmis gagnavera, kísilhreinsiverksmiðju, flytja út vatnið okkar og svona má telja upp fleiri hugmyndir.

Bankarnir okkar og fjármálakerfið hefur vaxið okkur yfir höfuð. Sumir myndu segja núna að einkavæðing bankanna hefði verið mistök. Bankarnir hafa skilað okkur inn gríðarlegum tekjum á síðustu árum og verið sterkur atvinnuvegur í landinu. Þeir eru ein ástæða þess að ríkissjóður varð skuldlaus sem er nánast einsdæmi. Ég held að engan hafi órað fyrir því að þeir yrðu svona stórir. Það er betra að læra af fortíðinni en dæma hana. Æskilegt er að fjármálakerfi það sem lítur að viðskiptabönkum og svo á hinn bóginn fjárfestingabankar eigi að vera alveg aðskildir. Við getum sem þjóð staðið að baki viðskiptabönkum okkar en þeir sem vilja taka áhættu í fjárfestingum verða að hafa veð sín á öðrum miðum ef umfangið verður svona stórt. Það er ekki hægt að taka áhættu með sjóði heillar þjóðar.

Þrátt fyrir allt þá heldur hið hversdagslega líf áfram. Við eigum enn bæði peningana okkar og skuldir í bankanum en margir hafa þó tapað miklu. Það er mikilvægt að halda áfram eftir bestu getu og það viðhorf sem maður hefur í farteskinu skiptir einna mestu máli. Jákvætt viðhorf og bjartsýni hefur sjaldnar verið mikilvægara á Íslandi en í dag. Við eigum ótrúlega öflugt fólk, mikið hugvit, mikinn dugnað, gríðarlegan kraft og orku. Þessi framsýni og jákvæðni er okkar stærsti styrkleiki en getur reynst okkur veikleiki þar sem við förum stundum full geyst og óvarlega. Þess vegna eigum við að líta á atburði síðustu daga sem ríkan lærdóm til þess að læra að halda styrkleikahliðinni af öllum íslenska kraftinum frekar uppi og ganga hægt en vasklega um gleðinnar dyr.

Ég heyrði þá umræðu í Silfri Egils síðustu helgi að ungt fólk væri að hugsa sér í umvörpum að flýja land. Ég á bágt með að trúa því að ungt fólk á Íslandi sé svo grunnhyggið að stökkva þangað sem það telur grasið vera grænna. Einhver sagði að hjónabönd væru í blíðu og stríðu. Er það ekki eins með þjóðina og landið okkar? Er einhver sem virkilega vill bara taka þátt í veislunni og vera í blíðu en er svo tilbúinn að stökkva frá um leið og "Bára er komin í bleyti og mayonnesan orðin gul...". Ég held að flestir séu tilbúnir að þjóna landi sínu og þjóð bæði í blíðu og í stríðu. Með því að upplifa svona tíma þá mun unga fólkið sem kannski hefur aðeins misst sýn og gildismat læra að meta blíðu tímana á alveg nýjan hátt og taka slíkum tímum sem við höfum lifað á ekki sem sjálfsögðum hlut. Þeim mun sætari verður svo sigurinn þegar við rísum á ný sem sú öfluga þjóð sem við erum.


mbl.is Vísindin ráða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband