Föstudagur, 10. október 2008
Allt það besta í lífinu er ókeypis!
Það veitir ekki af að horfa á jákvæðu hliðarnar þessa stundina og reyna að ná fókus á heildarmyndina. Peningar eru langt frá því að vera það mikilvægasta í lífinu fyrir utan það að vera tákn fyrir það að eiga í sig og á. Það er fyrst og fremst hlutverk þeirra og það hlutverk þarf að vera í lagi. Að öðru leyti geta þeir ekki keypt hamingju fyrir okkur. Þennan pistil skrifaði ég á síðu ungra framsóknarmanna í vikunni http://www.suf.is/
Allt það besta í lífinu er ókeypis
Allt síðastliðið ár hafa óveðursskýin verið að hrannast upp í kringum okkur Íslendinga sem eigum eitt fallegasta land í heimi og erum ein auðugasta þjóð heims. Fyrir því eru margar ástæður, meðal annars: átta- og aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda og Seðlabanka til þess að bregðast við erfiðum aðstæðum, órói og hamfarir í alþjóðlegum fjármálakerfum og niðursveifla eftir mikla uppsveiflu. Ástandið er grafalvarlegt og í hugum sumra blasir jafnvel við atvinnuleysi, gjaldþrot og svartnætti. Kvöldið sem forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína og markaði þannig upphaf haustþings fór að snjóa úr óveðurskýjunum og íslenskt efnahagslíf fennti nánast í kaf. Í slíku árferði er erfitt fyrir hjól atvinnulífsins að snúast vegna frosts og allur hiti fer smám saman úr kerfinu. Það dregur úr öllum umsvifum sem hefur svo margfeldiáhrif og eykur enn fremur á kuldann í samfélaginu. Ég gæti skrifað langan pistil um þetta ástand og rætt tillögur að aðgerðum. Hins vegar eru margir að skrifa og skrafa um það þessa dagana og ég ætla að setja upp önnur gleraugu til þess að skoða málið. Ég ætla að skoða ástandið frá sjónarhóli þjóðarsálarinnar og þrátt fyrir að það hafi verið erfitt þá ætla ég að setja upp bjartsýnisgleraugun í þessum pistli og sjá sólina að lokum bræða snjóinn. Slíkt viðhorf er algjör nauðsyn í þeim dimma dal sem við erum að fara í gegnum sem þjóð þessa dagana.
Núna þurfum við að staldra aðeins við og draga djúpt andann. Til þess að komast í gegnum skaflana þurfum við að vera vel búin. Eitt beittasta verkfæri okkar er hugarfarið og viðhorf til ástandsins. Með réttu hugarfari fáum við kraft til þess að takast á við þau krefjandi verkefni sem blasa við. Með sífelldri neikvæðri umræðu og svartsýni þá sitjum við föst og spólum okkur dýpra ofan í hjólfarið. Það er nú þannig að öll él birtir upp um síðir. Þegar það gerist þá verður birtan einhvern veginn bjartari og tærari en manni fannst hún áður vera og umhverfið fallegra. Maður fer allt í einu að sjá hluti sem maður var fyrir löngu síðan hættur að sjá. Snjóinn mun leysa og það mun vora og birta upp á Íslandi á ný. Það er bara tímaspursmál hvenær og þar höfum við sem þjóð heilmikil áhrif á gangverk náttúrunnar. Við erum sterk þjóð með sterka sál sem erum vön að standa af okkur illviðri og rammgerða náttúru með sínum ófyrirsjáanlegu hamförum.
Með jákvæðnisgleraugun á nefinu þá sér maður ýmislegt áhugavert. Til dæmis það að allt það besta í lífinu er ókeypis! Það er gott veganesti í þá för sem bíður okkar næstu mánuði. Við höfum ýmislegt að ylja okkur við á leiðinni. Sumir hafa farið heilan hring allt frá gríðarlegum auðæfum til bláfátæktar til þess að átta sig á þessari staðreynd. Sönn ást er eitt það eftirsóknarverðasta í lífinu og slíkt þrá allir, bæði að gefa hana og þiggja hana. Hún er ókeypis. Hamingjan fæst hvorki keypt fyrir krónu eða evru. Það skiptir engu máli hvað maður á margar glæsikerrur, stórar hallir eða fer í margar veislur þar sem borðin svigna undan veigunum, maður upplifir ekki sanna hamingju við það. Að elskast með ástinni sinni með góðu og innilegu kynlífi er gjaldfrítt. Að eiga sanna vináttu er ókeypis og að sýna öðru fólki umhyggju. Það kostar ekki neitt að njóta einstaks augnabliks sem maður sjálfur velur úr. Það getur verið til dæmis að standa á toppi fjalls og teiga tært vatn um leið og horft er á undurfagurt útsýnið, að ganga berfættur um á ströndinni og daðra við sjóinn, að horfa á fegurð rósanna í garðinum, að heyra barn hlæja innilega, að taka utan um góðan vin eða elskhuga, að leyfa vindinum að leika um sig og sólinni að kyssa sig, að dansa og syngja eins og manni lystir og horfa á Norðurljósin alla nóttina. Eitt það mikilvægasta er að deila þessu með þeim sem skipta mann mestu máli í lífinu og skapa minningar. Það er ekki hægt að kaupa minningar, maður verður að skapa þær sjálfur og enginn getur tekið þær eignarnámi. Maður má aldrei nokkurn tímann gleyma því að líf okkar hér á jörðinni er stórkostleg gjöf, þvílíkt tækifæri og ævintýri frá upphafi til enda og þessa gjöf eigum við að þakka á hverjum degi. Sum okkar fá aðeins stuttan tíma hér og því ber manni skylda til að taka lífinu sjálfu aldrei sem sjálfsögðum hlut. Að vera heilsuhraustur og eiga góða að er það mikilvægasta af öllu. Maður á að setja sjálfan sig í fyrsta sæti og heilsuna, svo fjölskylduna og vinnuna í það þriðja.
Fyrir nokkrum árum síðan ferðaðist ég í rúmlega þrjá mánuði um Asíu. Það sem ég mun aldrei gleyma er að upplifa alla þá hamingju, orku, gleði og bros sem ég sá skína úr ótalmörgum andlitum. Þarna sá ég fólk sem átti ekkert efnislegt en átti samt allan heiminn í hendi sér. Þetta var fólk sem kunni að meta einfaldleika lífsins og kunni að njóta þess sem skiptir máli sem er náttúran, hvert annað og lífið sjálft, órafjarri hlutabréfamörkuðum eða ofneyslu hins útþanda Vestræna samfélags.
Við erum hins vegar Íslendingar. Við erum þjóð sem vaxið hefur upp úr sárafátækt. Á meðan Danir voru að byggja dómkirkjur þá bjuggum við í moldarkofum. Við áttum ekki einu sinni okkar eigið sjálfstæði. Það vakti athygli mína í ræðu forseta vor, Ólafs Ragnars Grímssonar, við þingsetningu þegar hann minnti fólk á að halda 17. júní og 1. desember hátíðlega. Fagna þeim mikla sigri sem við höfum unnið. Fagna sjálfstæði okkar sem við erum farin að taka sem gefnum hlut í dag. Við megum aldrei gleyma rótum okkar og því sem forverar okkar hafa lagt á sig til að koma okkur þangað sem við erum í dag. Við þurfum að standa dyggan vörð um það sem hefur áunnist og heiðra framtíðina. Ég held að snjórinn sem umlykur okkur núna muni kenna okkur mikið og við eigum að nýta þennan vetur og efnahagshamfarir dagsins í dag til þess að læra og eflast. Við getum orðið mun sterkari þjóð þegar vorið kemur og við náum jafnvægi á ný. Þjóð sem er reynslunni ríkari og tekur ekki velsæld og ríkidæmi sem sjálfsögðum hlut en hefur líka fengið tækifæri til þess að endurskoða gildismat sitt og leggja nýjar áherslur. Við fórum fram úr okkur, fengum hálfgerðan sólsting í góðærinu en erum nú að horfast í augu við napran veruleikann og þurfum að vinna okkur upp við nýjar og breyttar aðstæður. Við erum sem betur fer snillingar í því að bregðast hratt við á sveigjanlegan hátt með alla okkar harðgerðu frumkvöðla og erum reynslunni ríkari í dag en í gær.
Hvað er það sem mun svo skipta mestu máli kvöldið sem maður kveður þetta líf og rifjar upp ævintýrið sem lífið bauð upp á og les í huganum ævisöguna sem maður skrifaði sjálfur jafnóðum á leiðinni? Hefði maður viljað eyða meiri tíma í það að sitja á skrifstofunni og vinna fyrir hlutum sem maður hélt að maður yrði að eignast til þess að ganga í augun á fólki sem skipti mann hvort eð er engu máli eða er það að hafa notið hvers einasta augnabliks, einfaldleika lífsins og metið það sem stórkostlega gjöf í faðmi fólks sem skipti okkur öllu máli? Að hafa notið alls þess sem er ókeypis í lífinu en samt það verðmætasta af öllu.
Sjáum sólina á bakvið skýin, bræðum snjóinn, brunum upp úr hjólfarinu og sköpum okkur bjarta framtíð sem sterk þjóð með heilbrigð viðhorf og leggjumst öll á árarnar til þess að koma þjóðarskútunni áfram. Það er heillavænlegra en að slegist sé á henni á meðan hún rekur stjórnlaust áfram eins og sumir áhrifamenn þjóðfélagsins hafa stundað undanfarið. Við berum öll sameiginlga ábyrgð á okkar velferð. Njótum alls þess besta í lífinu. Við höfum öll efni á því ef við ræktum hugarfarið og temjum okkur jákvæð viðhorf. Við erum Silfurþjóðin, smáþjóðin sem sigraði stórþjóðirnar með glæstri för á Ólympíuleikana. Rifjum upp andann sem sveif yfir vötnum í ágúst síðastliðnum þegar hetjurnar okkar komu heim. Við erum stærsta þjóð heims og getum allt sem við ætlum okkur. Þessa raun munum við komast í gegnum og við munum hljóta að launum gríðarlegan lærdóm og uppstokkun á okkar lífsgildum og framtíðarsýn.
Ekki bara hryðjuverkalög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.