Lýst er eftir mönnum

Ég held að það verði bara að lýsa eftir nokkrum mönnum sem hafa verið áberandi vægast sagt í íslensku viðskiptalífi en hafa horfið nánast sporlaust síðustu viku, bara eins og jörðin hafi gleypt þá. Þeir klæðast rándýrum fötum, fljúga um á einkaþotum, keyra um á tugmilljóna jeppum eða sportbílum og eiga nokkur heimili hér og þar um heiminn! Það væri nú alveg ágætt að hafa þá með í uppbyggingunni sem bíður framundan og eðlilegt að þeir taki ábyrgð í réttu hlutfalli við sinn hlut í hruni íslenska efnahagslífsins.

Stærstur hluti þjóðarinnar tók glaður þátt í veislunni með kaupum á skuldahölum aftan í bílana og fleira slíkt og ekki voru margir sem gerðu athugasemdir á meðan kýrnar mjólkuðu langt umfram væntingar og kvóta þannig að þjóðin varð allt í einu risastór. Vandamálið er bara það að líklega áttu hinir miklu stórbændur ekki neitt í kúnum þegar upp er staðið! Einnig virðist ekki hafa verið mikið eftirlit með einu eða neinu á meðan þjóðin var skuldsett 12 falt. Hvernig gat þetta gerst???

Ég held að það hafi bara fáir velt því mikið fyrir sér hvaðan allir þessir góðu peningar kæmu og hvað gerðist ef kýrnar hryndu niður ein af annarri ... á meðan allir fengu góðan sopa af mjólkinni. Ég held að sumir hafi talið þessa miklu útrás í raun bera ábyrgð á sjálfri sér eða að það væru einhverjar stofnanir úti í löndum sem gerðu það. Svo gott var það nú ekki. Alltaf var talað um það að stækka og stækka gjaldeyrisvarasjóðinn í stað þess að tala um að minnka kannski aðeins umsvif eða aðskilja þetta ábyrgð þjóðarinnar sem nægir alveg að standa undir sínum grunnstoðum.

Jón Ásgeir má þó eiga það að hafa kjark í sér til þess að mæta og fá yfir sig reiði sem beinist í garð mun fleiri aðila en hans. Ég hef aldrei séð Egil Helgason jafn reiðan í þætti og í dag. Hann átti mjög erfitt með að hemja reiðina og það skil ég vel.

Þessi síðasta vika hefur verið með ólíkindum. Svolítið eins og lélegur dramaþáttur. Martröð sem maður væri alveg til í að vakna upp af. Hvenær tekur þetta eiginlega enda og hversu hátt verður fallið okkar þegar upp er staðið. Það er bara ekki komið í ljós.

Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig íslensk stjórnvöld spila úr þeirri stöðu sem uppi er núna. Hversu hlutlaust verður skipað í nýjar nefndir og ráð og hver fær það mikla vald að ákveða hvaða fyrirtæki fá lífæð og  hver ekki. Þegar kemur svo að því að útdeila verðmætum á ný þá reynir mikið á heiðarleika stjórnmálamanna til þess að taka ALLTAF hagsmuni þjóðarinnar fram yfir allt annað. Það á að velja hæfasta fólkið í hverja stöðu, fólk sem hefur sérþekkingu, menntun og reynslu í hvern stól en ekki fara eftir flokkslínum í þeim efnum. Það er eflaust mikið til af mjög hæfu fólki sem á að horfa til sem kemur hvergi nálægt nokkrum flokki. Nú held ég að þjóðin vilji sjá faglegar ráðningar en ekki pólitískar ráðningar og það þarf að gera grein fyrir hverri ráðningu með hagsmuni þjóðarinnar í huga.

Það er risastórt verkefni sem bíður allrar þjóðarinnar. Þess vegna þarf að nýta alla aðila og við þurfum að standa saman eins klisjukennt og það hljómar kannski. En ég er sammála Jóhönnu í því sem er mikill klettur í ólgusjó margra um þessar mundir. Þjóðin er heppin að eiga hana og mættu margir stjórnmálamenn taka hana til fyrirmyndar. Hún missir aldrei sjónar á því markmiði sínu að vinna eins vel og mögulegt er fyrir íslenska þjóð. Stjórnmálamenn sem gengnir voru svo langt í græðgisvæðingunni að vera á góðri leið með að setja Íbúðalánasjóð á uppboð líka!


mbl.is Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband