Mánudagur, 27. október 2008
Pistill
Þennan pistil skrifaði ég fyrir SUF í síðustu viku. Ákvað að birta hann líka hér.
Á rölti mínu í fyrradag tók ég sérstaklega vel eftir öllum litríku laufblöðunum sem þöktu gangstéttina. Svo þykkt var lagið að það var eins og að ganga á teppi. Í öllum haustsins litum lágu þau. Þessi lauf sem boða koma vetrarins. Þau hafa lokið sínu hlutverki. Sú samfélagsgerð sem þróast hefur á Íslandi síðustu árin er kannski ekki ósvipuð þessum laufum. Hún er fallin til jarðar og hefur lokið sínu hlutverki. Eftir þetta sviptingarmikla haust og erfiðan óumflýjanlegan vetur þá mun vora á ný. Rétt eins og brumið kemur á ný með nýjum laufum þá mun gróska verða á Íslandi á næstu misserum og úr henni springa ný lauf, nýrrar samfélagsgerðar.
Mikið hefur farið fyrir björgunaraðgerðum að undanförnu til þess að bjarga því sem bjargað verður. Sitt sýnist hverjum: Norðmenn, Rússar, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, tafarlaus innganga í ESB og svona má áfram telja. Allir þessir möguleikar hafa sína kosti og sína galla. Ekki ætla ég að leggja mat á hver eða hverjir þeirra eru bestir að svo stöddu. Til þess skortir mig góðar upplýsingar til að taka upplýsta ákvörðun eins og reyndar þorra þjóðarinnar. Ég tel þjóð sem telur ekki fleiri hausa en íslenska þjóðin gerir eiga að fá að úrskurða um slíkt sjálf þar sem svo mikið er í húfi og sú ákvörðun sem tekin verður mun hafa afdrifaríkar afleiðingar bæði fyrir núverandi landsmenn og ófædda þjóð okkar. Sagan er skrifuð í dag.
Það sem ég vil leggja til málanna í þessum pistli er það að eitt er að leita aðstoðar utan frá svona rétt eins og að setja upp stillasa til að lagfæra laskað hús eftir storm en hitt er að vinna markvisst að því að styrkja stoðir hússins innan frá. Sá þáttur má alls ekki gleymast. Það er óhjákvæmileg afleiðing slíkra hamfara sem dunið hafa yfir okkur að gildi og viðhorf ættu að breytast? Eða hvað?
Í Kastljósinu að kvöldi hins 20. október voru teknar saman gamlar fréttir um neysluæði Íslendinga. Það var vægast sagt skuggalegt að horfa á hvernig neyslan hefur tröllriðið samfélaginu undanfarin tíu ár. Svo hratt hafa hlutirnir gerst að maður er nánast búinn að gleyma hvernig þetta var fyrir aðeins tíu árum síðan. Þá tók maður eftir því ef glæsikerra keyrði um götuna, þá þótti mjög merkilegt að eiga tjaldvagn, þá var það viðburður að fara í utanlandsferð, þá voru jólagjafirnar hóflegri, þá voru börnin úti að leika sér í stað þess að liggja yfir nýjustu tölvuleikjunum, þá þótti það afrek að eiga bíl fyrstu árin eftir að maður fékk bílpróf og voru það yfirleitt mjög gamlir bílar, þá átti fólk ekki einkaþotur eða hús hér og þar um heiminn. Svona mætti lengi halda áfram. Svona upplifi ég þetta. Ég tel langflesta hafa tekið þátt í þessari neyslu á einn eða annan hátt og bankana hafa stuðlað að þessu og óhóflegri skuldasöfnun. Ég tel bilið á milli hópa fólks í þjóðfélaginu hafa verið orðið ólýsanlega breitt.
En hvað gerist þegar þetta neyslumynstur hefur keyrt um koll og glæsihöllin hrunið? Þá er að hefjast handa og byggja upp á nýtt. Reynslunni ríkari.
Á næstu misserum verður að mínu mati mikið frumkvöðlastarf og mikil innspýting í alla nýsköpun. Núna hefur skapast svigrúm fyrir ný viðhorf og nýja sýn. Ég tel almenningsvitundina og samvinnuhugsjónina verða meira áberandi. Núna þarf að stokka spilin upp á nýtt. Ég tel að það eigi að ganga lengra en gert hefur verið og þjóðnýta kvótann. Einnig þarf að binda hann viðeigandi svæði þannig að ekki verði hægt að fara með hann og skilja sjávarpláss landsbyggðarinnar eftir lepjandi dauðann úr skel. Það þarf að efla okkar grunn atvinnuvegi, meðal annars landbúnaðinn. Við eigum tvær stórar matarkistur, sjóinn og landið okkar. Það hefur verið áberandi í umræðu um samgöngumál að oft er rætt um að breikka vegi og byggja nýjar brýr. Nánast hefur verið gert ráð fyrir því að hvert mannsbarn keyri um á einkabíl. Þetta á ekki lengur við. Núna þurfum við að efla samgöngukerfið þannig að hver sem er geti komist hvert sem er á raunhæfum tíma og fyrir raunhæfan kostnað. Ég sé fyrir mér samgöngumiðstöð og tölvukerfi sem tengja saman alla samgöngumöguleikana á öllu landinu (strætisvagna, rútur, flug, ferjur og gönguvegalengd). Á ekki stærra svæði en höfuðborgarsvæðinu ætti að vera nóg að hafa eina miðstöð sem myndi þjóna öllu svæðinu í stað þess að hafa mörg ólík kerfi í gangi. Ég held að við munum alltaf eiga einkabíla en þeim muni fækka. Við þurfum að byggja samgöngukerfið upp að skandínavískum eða evrópskum sið í stað þess að hafa það að hætti Bandaríkjamanna þar sem einkabíllinn leikur stærsta hlutverkið. Meðal annars þarf að stórefla hjólreiðastíga.
Á næstu árum verður félagslegt hlutverk samfélagsins mjög mikilvægt. Ég tel það jákvætt að fyrirhuguð sé yfirfærsla málefna fatlaðra og aldraðra á næstu árum og þannig verði nærþjónusta efld og sveitarstjórnarstigið. Við munum bera þyngri klyfjar en ella og námsmenn til dæmis munu sumir koma heim úr námi með helmingi þyngri námslán á bakinu. Allt slíkt hefur áhrif á samfélagið næstu ár. Því þarf að styðja vel við bakið á þeim hópi þar sem mesta þörfin er á eins og barnafjölskyldum. Ekki má gleyma öldruðu fólki sem jafnvel hefur tapað ævilöngum sparnaði. Það verður að rétta af.
Verkefnin eru ærin. Ef vel er haldið á spilunum og vel stokkað þá er tækifærið núna til þess að treysta innviðina sem riðuðu til falls í því kauphlaupi sem ástundað hefur verið síðustu ár. Við getum komið út úr þessum hamförum með öflugri innri stoðir og heilbrigðari sýn og viðhorf. Það er ekki hægt að kaupa sig út úr þessari blindgötu með hjálp annarra og ætla sér svo að halda uppteknum hætti. Þá lendum við aftur á skeri fyrr eða síðar þrátt fyrir að eiga stórar gullkistur.
Kristbjörg Þórisdóttir.
Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Facebook
Athugasemdir
Ohh kæra vinkona þú ert bara gullmoli. Þetta er svo flottur pistill hjá þér. Ég er þér hjartanlega sammála. Getur þú ekki bara tekið við stjórninni???
Risaknús á þig elskan mín! Þurfum nú að fara að heyrast símleiðis..orðið alltof langt síðan síðast. Sonurinn er nú farin að sofna á skikkanlegum tímum þannig að ég fer að bjalla á þig elskan!
Þú léttir kvíðahnútinn í maganum mínum með þessum flotta pistli.
risaknússss
Þín vinkona
Linda
Linda (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 22:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.