Hvað líður aðgengi almennings að sálfræðingum hæstvirtur ráðherra heilbrigðismála?

Þetta er ágætt framtak í heilbrigðisráðuneytinu því ekki er seinna vænna en í gær að fjárfesta í framtíðinni og auka arðsemi þjóðarinnar með því að stuðla að bættri heilsu hennar og þar af leiðandi betri virkni á atvinnumarkaðnum.

það eru flestir á því máli að hver króna sem sett er í forvarnir á öllum sviðum og verkefnum sem auka líkamlegt og andlegt atgervi skili sér margfalt tilbaka. Það er oft erfitt að mæla slíkt. Árangurinn getur falist í betri frammistöðu í starfi, færri veikindadögum og minni líkum á langtíma veikindum, bættu fjölskyldulífi sem hefur jákvæð áhrif á börnin sem þurfa þá minni stuðning í skóla og svona má skoða þennan jákvæða spíral lengi og á marga ólíka vegu. Spírallinn getur eins auðveldlega orðið neikvæður þar sem foreldri líður illa, frammistaða í vinnu versnar, hann veikist andlega eða líkamlega og fer í veikindaleyfi, slíkt hefur áhrif á alla fjölskylduna og svo framvegis...

Það væri samt gott að fá nánari útlistun á því hvernig á að framkvæma heilsustefnuna því stundum geta hinar góðu stefnur orðið að marklausum pappír ofan í skúffu ef ekki eru skýrar leiðir að þeim markmiðum sem á að ná sem eru skýrar og tímasettar með ákveðna ábyrgðaraðila.

Ég tel vera mjög mikilvægan þátt í heilsustefnu að auka aðgengi almennings að sálfræðingum. Það er sérstaklega mikilvægt í því umróti sem á sér stað í þjóðfélaginu og áhrifum þess sem munu koma fram á næstu fimm árum að minnsta kosti.

Það hefur því miður verið ríkjandi stefna á Íslandi að fólk sem tekst á við andleg veikindi eða raskanir eins og til dæmis þunglyndi og kvíða er vísað til lækna sem hafa tilhneigingu til þess að skrifa upp á lyf oftar en ekki og ekki er aðgengi að nógu fjölbreyttum meðferðum. Sálfræðingar eru sérmenntaðir í því að veita margar ólíkar meðferðir sem hafa gefið mjög góðan langtímaárangur og minni líkur á hrösun en lyfjameðferð gerir. Hins vegar er tilfellið oft að best sé að samtvinna slíka vinnu. Fyrir mjög marga er ekki möguleiki á vali um bestu mögulegu meðferðina þar sem þjónusta sálfræðinga er ekki niðurgreidd og því kostar einn tími hjá sálfræðingi talsvert fé sem er langt í frá á færi allra að greiða. Þetta er bæði að mínu mati mismunun á aðgengi að sérfræðingum sem og mismunun á starfsstéttum.

Það er bæði betra fyrir einstaklinginn og ódýrara fyrir samfélagið að fólk fái strax rétta klæðskerasniðna meðferð. Það er til dæmis svekkjandi fyrir samfélagið að standa straum af lyfjum sem eru ekki einu sinni tekin en slíkt er nokkuð algengt. Því þarf að hafa alla möguleika opna sem hjálpa hverjum og einum að líða betur og ná hámarksárangri í leik og starfi.

Í Bretlandi á sér stað mikil aðgerð sem felur það í sér að breska ríkið lagði fram 173 milljón pund til þess að greiða aðgengi að sálfræðingum og þjálfa upp sálfræðinga í hugrænni atferlismeðferð. 800 þúsund manns fá meðferð. Ef 400 þúsund þeirra, helmingur, sýnir fram á skilgreindan árangur þá mun breska ríkið setja slíkt á föst fjárlög eða greiða um 330 milljón pund á ári í verkefnið ef ég man rétt af ráðstefnunni sem þetta var kynnt á. Þetta miðast við meðferðir sem sýna fram á árangur og því munu fleiri meðferðarform einnig vera tekin inn í þetta.

Það væri mjög spennandi að fara af stað með slíkt á Íslandi. Að Ríkið greiddi niður meðferðir sem sýna fram á árangur (reyndar greiðir samfélagið margar læknisfræðimeðferðir sem sýna ekki fram á árangur í öllum tilfellum, bara sumum). Það er mun ódýrara með tilliti til þess að hver 100 þúsund kall sem nýttur er í slíkt skilar sér tilbaka til samfélagsins sem 240 þúsund kall (þetta kom líka fram á ráðstefnunni). Auðvitað verður að taka þessar niðurstöður með fyrirvara. Hins vegar eftir að hafa unnið sem stjórnandi þá tel ég þessar tölur ekki fjarri lagi. Það kostar mjög mikið fyrir Ríkið eða einkafyrirtæki þegar greiða þarf hvoru tveggja veikindalaun sem og að fylla upp í stöðuna tímabundið. Það er einnig mikið af kostnaði við þetta sem ekki er hægt að mæla t.d. áhrifum á aðra starfsmenn, líðan viðkomandi og áhrif á fjölskyldu hans. Það er því til MIKILS AÐ VINNA.

Tími Jóhönnu er kominn :) en hvað um sálfræðinga? Hvenær kemur tími sálfræðinga?


mbl.is Ný heilsustefna heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Ráðherrar þessarar og fyrri ríkisstjórna hafa löngum sýnt áhugaleysi á líðan fólks. 

Baldur Gautur Baldursson, 18.11.2008 kl. 17:00

2 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Góður pistill. Þetta væri svo þarft. Áfram Kristbjörg!

Einar Sigurbergur Arason, 18.11.2008 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband