Íslenska byltingin! Frelsi-jafnrétti-bræðralag

Ég fylgdist í allan gærdag með þeim atburðum sem áttu sér stað á Íslandi. Fyrst með þinginu og svo með borgarafundinum.

Ég sveiflaðist á milli ólíkra tilfinninga við það að fylgjast með þessu öllu. Mér þótti reyndar leikurinn á stundum ansi ójafn þar sem stjórnarliðum var stillt hreinlega upp við vegg af hlutdrægum fundarstjóra. Hins vegar má segja að þjóðin eigi þetta inni hjá þeim sem hafa hingað til getað falið sig frá almenningi með ýmsum ráðum. Ég vil nú hrósa þeim sem mættu á sviðið. Það hefur ekki verið auðvelt og sýnir að enn er eitthvað þor og vilji eftir í þessu fólki.

Á þessum fundi var vilji fundarmanna mjög skýr. Fólk vill róttækar breytingar sem jaðra nánast við íslenska byltingu. Það vill að mínu mati að nánast öll stjórnvöld og embætti verði stokkuð upp, rannsakað verði ofan í kjölinn hvað gerðist og menn sóttir til saka eftir því og svo verði spilin gefin upp á nýtt eftir nýjum og skýrum leikreglum.

Ég er sammála fólkinu. Það er með ólíkindum hvernig hefur vaxið upp á Íslandi ríkismannastétt á methraða. Hún hefur vaxið upp að stórum hluta á kostnað fólksins. Hún hefur tekið sér auð sem hún á ekkert í. Auð sem þjóðin á. Þessi stétt heldur jafnvel enn áfram og tekur sér að láni fjármagn sem mun eins og annað lenda á íslensku þjóðinni að borga til þess að versla sér eitt og annað nytsamlegt eins og til dæmis fjölmiðla til þess að geta stýrt umræðunni sér í hag.

Íslendingar hafa fallið í sama pytt og dýrin í Animal Farm George Orwell gerðu. Þeir komu sér undan valdi Dana og urðu sjálfstæðir eins og dýrin komu sér undan valdi bóndans. Það leiddi hins vegar til þess að svínin þeas. sum dýrin skipuðu sig aðeins betri en hin dýrin. Þetta minnir mig nú alltaf á einkaþotuflug... afsakið!

Í svona litlu þjóðfélagi eins og Íslandi á slíkt að vera óþarfi því við eigum öll að geta haft það gott. Það þarf enginn að reyna að kaupa allan heiminn. Fólk þarf að temja sér hógværð, nægjusemi og samvinnuandann. Við ættum vegna sérstöðu okkar að geta byggt upp algjört fyrirmyndarþjóðfélag þar sem við erum frjáls bæði undan Dönum og sjálfskipuðum kóngum Íslands.

Við eigum að geta viðhaft jafnrétti þar sem fólk á raunverulega jöfn tækifæri til þess að blómstra óháð búsetu, kyni, efnahag, fötlun, trú, kynþætti, uppruna eða öðru. Við eigum að mynda bræðralag. Bræðralag um að vera Íslendingar og bræðralag um að vinna saman að því sem við getum ekki gert ein hver í sínu horni. Það á til dæmis við um að halda uppi öflugu menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi. Við þurfum að tryggja hvert annað og góða afkomu heildarinnar en ekki góða afkomu útvaldra eins og gert hefur verið.

Við eigum að byggja upp samvinnufélög sem snúast ekki um að mergsjúga hvert annað í gróða heldur snúast um sameiginlegan hag okkar allra. Enginn er eyland. Við eigum að vinna saman að því að standa vörð um grundvallargildin í okkar þjóðfélagi. Réttarríkið og siðferðilega mannlega breytni.

Ég er ánægð með það að í þessum erfiðleikum þá er þjóðin að vakna og kynnast á nýjan leik. Svolítið eins og hjón sem voru farin að taka hvoru öðru sem óbreytanlegu húsgagni. Það samband sem við áttum við hvert annað var orðið sjálfsagt. Fólk var svo upptekið af því að vinna og taka þátt í efnishyggjuhlaupinu og aðrir að berjast í bökkum að það náði ekki að horfa fram á veginn eða til þess sem var að gerast undir fögru yfirborði stjórnvalda. Núna hafa þessi nýástföngnu hjón áttað sig á mikilvægi hvors annars og mikilvægi samstöðunnar. Það verður því vonandi gleðilegur endir á harmsögu okkar eins og í bíómyndunum þar sem fólk sér hvert annað í nýju ljósi í kjölfar hamfara.

Gleðin snýst um það að þegar rykið er sest verðum við frjálsari, jafnari og samhentari. Við munum hins vegar þurfa að gjalda þetta frelsi dýrum dómi. En við förum ekki tómhent úr þessu þó við munum bera byrðar. Við förum með hendur fullar af reynslu, samvinnu og höfum leyst úr viðjum orku sem við vissum ekki að við ættum til. Við erum kjörkuð og dugleg og við erum þjóð sem getum unnið okkur sjálf út úr þessu með handafli. Það getum við ef við stöndum saman. Við eigum hvunndagshetjur á hverju horni eins og þær sem töluðu í gær (t.d. Margréti Pétursdóttur). Fólk sem ekki hefur verið í Kastljósi fjölmiðla á hverju kvöldi en býr yfir mikilli getu og töfrum. Við eigum nægan efnivið til þess að baka hið nýja Ísland.

Áfram Ísland fyrir Íslendinga :).

Þetta verður víst síðasti pistillinn í bili.


mbl.is Tæp 70% vilja flýta kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband