Föstudagur, 19. desember 2008
Jólin eru dýrmætur tími
Senn líður að jólum og upphafi nýs árs. Jólin eru dýrmætur tími þar sem fjölskyldur eiga góða stund saman, vinir hittast og flestir fá tækifæri til hvíldar og endurnæringar.Það er gott að leiða hugann að því áður en jólin koma hvernig maður fái sem mest út úr jólahátíðinni.
Hvaða fólk hefur fylgt manni og verið manni dýrmætt þetta ár og hvernig vil ég gleðja það og sýna því þakklæti? Hvaða fólk vil ég hitta um jólin og hvernig ætla ég að verja tíma mínum? Hvað er það sem er mér dýrmætast? Vil ég búa til snjóhús með barninu mínu og hafa ómældan tíma til þess? Vil ég fara í göngutúr með fjölskyldunni? Vil ég liggja í dekurbaði tímunum saman? Vil ég sitja við kertaljós og lesa góða bók eða spila með félögunum?
Allt er þetta ákaflega persónubundið og gott að leiða hugann að þessu áður en jólin koma því annars er hætt við því að jólin séu farin áður en maður veit af og tíminn hafi farið í hluti sem skipta mann minna máli.
Hver einustu jól eru einstök. Á hverjum jólum verða til nýjar minningar sem verða geymdar um ókomin ár. Á hverju augnabliki höfum við tækifæri til þess að njóta jólanna og vera góð við hvert annað. Það getur skipt meira máli að sækja teppi til þess að vefja ástvin sinn inn í þegar honum er kalt en gefa honum rándýra gjöf. Falleg hugsun skákar ætíð efnislegum hlut. Það er ekki hægt að kaupa góðsemi, ást og vináttu en hana er hægt að sýna og hana eigum við öll innra með okkur í ómældu magni. Það er orka sem við getum virkjað á hverju einasta augnabliki ef við stýrum huga okkar rétt. Þannig sköpum við okkur einstök jól og búum til dýrmætar minningar.
Gleðileg jól og farsælt nýtt ár!
Höfundur er nemi.
(pistull birtur í dag í Mosfellsfréttum www.mosfellsfrettir.is)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:29 | Facebook
Athugasemdir
Elsku frænka, gleðileg jól og hafðu það sem best á komandi ári. Skilaðu kveðju til systra þinna.
Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 22.12.2008 kl. 22:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.