Sælla er að gefa en þiggja

Á mánudagskvöldið tók ég ásamt nokkrum félögum úr SUF og tveimur þingmönnum flokksins þátt í því að undirbúa jólaúthlutun Mæðrastyrksnefndar. Þetta var gefandi og skemmtilegt starf í góðum hópi. Ásamt okkur voru þarna samankomnir fleiri fulltrúar ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna.

Mæðrastyrksnefnd var stofnuð hinn 20. apríl 1928 í kjölfar hörmulegs sjóslyss þegar togarinn Jón forseti strandaði og 15 manns drukknuðu. Nefndin var stofnuð með því markmiði að koma ekkjum og föðurlausum börnum til hjálpar í kjölfar þessa voveiflega atburðar. Árið 1939 var nefndin endurskipulögð og gerð að sjálfstæðri stofnun. Mæðrastyrksnefnd er samstarfsverkefni 8 kvenfélaga og er formaður hennar Ragnhildur G. Guðmundsdóttir og varaformaður Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir. Mæðrastyrksnefnd leikur stórt hlutverk allan ársins hring í því að koma þeim sem minnst hafa í íslensku samfélagi til stuðnings í hverri viku og nýtur hún stuðnings fyrirtækja og einkaaðila. Úthlutun fer fram á hverjum miðvikudegi frá kl. 14-17. Mæðrastyrksnefnd er til húsa að Hátúni 12b og fer úthlutun þar fram. Frekari upplýsingar má nálgast á vefsíðunni: http://www.maedur.is/

Sérstök jólaúthlutun er í samstarfi Mæðrastyrksnefndar, Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossins. Við jólaúthlutunina fær fólk ekki aðeins mat til hátíðanna heldur einnig gjafir, svo sem leikföng og fleira til að gleðja börnin. Gjafirnar koma að stórum hluta frá fyrirtækjum en einnig frá einstaklingum sem hafa sett þær undir jólatré í verslunarmiðstöðvum. Jólaúthlutunin byrjar 15. desember en þá verður hafist handa við að senda varning til fólks á landsbyggðinni. Fólk á höfuðborgarsvæðinu sækir jólaglaðninginn hins vegar í Borgartún 25, á þeim tíma sem tilgreindur hefur verið í umsókn.

Fulltrúar Mæðrastyrksnefndar sögðu okkur frá því að það væri talsvert betri þátttaka sjálfboðaliða í þessu mikilvæga starfi nú en oft áður. Von er til þess að jólapokarnir verði myndarlegir í ár þar sem fyrirtæki og einstaklingar hafa verið duglegir að leggja sitt af mörkum. Það veit á gott. Það gefur til kynna að fólk sýni í framkvæmd þá stefnubreytingu sem er að verða á samfélaginu og að til þess að standa við bakið á þeim sem verst hafa það geta margar hendur lagt sitt að mörkum. Þannig verður starfið allt auðveldara.

Einhvers staðar er sagt að sælla sé að gefa en þiggja. Að mínu viti er sá boðskapur grundvallaratriði í lífi hvers manns. Stærsta gjöfin sem maður gefur sjálfum sér er að hjálpa öðrum. Kjörorð þetta hefur sjaldan átt eins vel við og um þessar mundir.

Njótið þess um hátíðina og á nýju ári að gefa af ykkur á hverjum degi. Gjafirnar geta verið af öllum stærðum og gerðum hvort sem um ræðir bros til náungans, faðmlag, klapp á bakið, hrós, vinnuframlag, eða efnisleg gjöf. Allir eiga af hlaðborði mögulegra gjafa að velja og auðvelt er að finna gjöf sem hentar hverjum og einum við mismunandi tilefni.

Gleðilega hátíð og farsælt komandi ár. Megir þú njóta ljóss og friðar um jólin á nýju ári.

Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.

(pistill birtur á www.suf.is).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er einmitt að fara og fá hjálp mæðrastyrksnefnd og þökk til þeirra sem styrkja og hjálpa til með að aðstoða okkur sem eru að lenda undir núna í þjóðfélaginu.

Ég hef af vísu alltaf lagt mitt af mörkum til að syrkja  þegar ég hef getað og mun halda því áfram en núna þarf ég að vera þiggjandi ásamt fleirum.

þyggjandi (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband