Mánudagur, 12. janúar 2009
Háttur íslenskra stjórnvalda
Mín upplifun er sú að það sé ekki einungis varðandi hátterni Breta gagnvart okkur sem íslensk stjórnvöld taka kolranga ákvörðun og draga lappirnar. Ég er nú sennilega ekki ein um þá skoðun og því miður nánast hvert mannsbarn á þeirri skoðun.
Það hefur verið sorglega algengt að krónunni hafi verið kastað fyrir aurinn í ákvarðanatöku íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna. Alltof oft eru ákvarðanir teknar sem kosta þjóðarbúið miklu meira en þörf hefði verið á hefðu málin verið ígrunduð vel og unnin faglega.
Það er dapurt að efnahagsbrotadeild skuli fá klink til umráða við það að gera upp eitt stærsta sakamál sem komið hefur upp á seinni tímum. Ég tel vinnuaðferðir þær sem ákveðnir aðilar hafa stundað hér í viðskiptum og afleiðingar þeirra vera eitt stórt sakamál sem gera þarf upp. Hér er um gríðarlegt fjármagn að tefla sem athafnamenn ýmsir hafa haft rösklega 3 mánuði til þess að fela á eyjum og annars staðar í útlöndum. Ætli þetta endi eins og með gullkistuna hans Egils á bakvið fossinn sem aldrei fannst? Egill faldi hana þó á sínu eigin landi!
Ég myndi vilja sjá stóreflingu þeirra embætta og starfsmanna sem koma að rannsókn þessa flókna máls og ég tel það frumskilyrði að henni sé stýrt af erlendum óháðum aðilum.
Það er hneisa að á þeim tíma sem velferðarkerfið mun fá á sig brotsjó fólks í ýmiss konar vanda skuli vera vegið að því með ómaklegum hætti með niðurskurði sem beitt er með sérlega undarlegum leiðum og virðist sem ekki sé farið eftir neinni heildar- eða framtíðarsýn við beitingu þess hnífs. Það mun einungis leiða til þess að innviðir þess munu bresta smám saman því nógu þröngur var stakkur þess sniðinn í blessuðu góðærinu (sem var reyndar að hluta til fengið að láni... en látum það liggja milli hluta). þetta allt mun leiða til miklu meiri kostnaðar til framtíðar því verkefni þessa kerfis hverfa ekki heldur magnast upp við slíkan brotsjó. Kerfið drukknar ef þungi þess eykst án þess að nokkru sé bætt við flotmöguleika þess.
Það hefur því miður verið stefna íslenskra stjórnvalda að hugsa allt of mikið eftir á! Það er eins og yfirsýn vanti oft og sú vel þekkta hugmyndafræði að leggja inn fyrir góðum hlutum er oft fjarri lagi á þeim bænum.
Ef fjármagn yrði sett í forvarnir af ýmsu tagi myndi það skila sér í sparnaði í öllu velferðarkerfinu. Það má reyndar hrósa Guðlaugi fyrir að hafa komið því inn að fólk geti fengið ávísað hreyfingu og tel ég það spor í rétta átt. Ég vil sjá mun meira af þess háttar verkefnum eins og til dæmis að þjónusta sálfræðinga verði tekin inn í almennt heilbrigðiskerfi því það er forvörn að auka aðgengi fólks að sálfræðingum áður en málin versna það mikið að viðkomandi þurfi að leggjast inn á geðdeild, geti ekki unnið eða þurfi lyfjameðferð. Forvarnir í ýmsum vímuefnamálum verða seint vanmetnar enda bæði um fjárhagslegan sem og mikinn persónulegan hag almennings að tefla.
Lengi vel hefur ríkið ekki séð sér fært að gefa starfsfólki sínu jólagjafir á mörgum stofnunum sínum eða nýta aðrar leiðir til umbunar fyrir vel unnin störf. Þetta tel ég mjög sérstakt því einkafyrirtækin hafa keppst um að gera vel við sitt fólk og vita vel að það er eitt það allra mikilvægasta af öllu að vökva vel þann góða mannauð sem það hefur. Hvert stöðugildi sem rúllar af óhæfu, óánægðu starfsfólki er rándýrt! Stundum velti ég því fyrir mér hvort íslensk stjórnvöld séu ekki kunnug fræðum vinnusálfræðinnar? Ég spái því að milljón sem sett er í umbun fyrir gott starfsfólk skili sér í 10 milljóna sparnaði á móti.
Staða okkar er slæm. Það vitum við öll og ég verð að viðurkenna það að ég fékk óþægilega tilfinningu síðustu daga mína á Íslandi yfir stöðu mála. Ég er mjög áhyggjufull fyrir hönd landsmanna og þjóðarinnar en ætla samt að vera bjartsýn og halda í vonina. Henni má maður aldrei tapa. Það þarf mikið Grettistak til að koma hjólum okkar aftur af stað. Það þarf annað slíkt tak til þess að koma gleðinni, jákvæðninni og voninni aftur að hjá íslenskri þjóð.
Þar sem ég fór um mátti merkja áhyggjur fólks yfir allri þeirri óvissu sem vofir yfir okkur á sama hátt og óveðursský efnahagsmála vofðu yfir löngu fyrir hrunið eins og framsóknarmenn bentu réttilega á á þingi. Það þarf stórtækar aðgerðir til þess að rétta íslenska þjóð af NÚNA og til þess þarf þjóðin sterka leiðtoga en ekki fólk sem veit ekkert hvert það er að stefna og segir eitt í dag en annað á morgun. Hvað þarf að gera? Það er langur listi og hér bara nokkur atriði sem ég tel mikilvæg:
- Rannsókn og uppgjör á hruninu og öllu sem lýtur að þeim atburði. Fara yfir regluverk, lög og ábyrgð allra viðkomandi aðila.
- Áætlun um það að leggja sérstaka áherslu á innspýtingu í útflutnings atvinnugreinar okkar, verðmætasköpun sem og alla aðra mögulega atvinnuvegi og fá eðlilegt jafnvægi efnahags með því að koma erlendu fjármagni úr landi sem kemur ójafnvægi á kerfið (t.d. Jöklabréfin).
- Áætlun um það að standa sterklega vörð um velferðarkerfið til þess að ekki hljótist meiri skaði af sem verður enn dýrari þegar til lengri tíma er litið við það að mylja innviði þess niður svo það standi ekki undir sér.
- Einnig þarf að leggjast vandlega yfir það að byggja upp NÝTT OG BETRA SAMFÉLAG þegar neyðaraðgerðir eru komnar vel af stað. Þar skulum við nota þann lærdóm sem við höfum öðlast til þess að endurmeta allt regluverk, tengsl valdastofnana samfélagsins og setja okkur leikreglur sem halda í því litla samfélagi sem við búum svo allir eigi þess kost að sitja í sama báti.
Það vekur undrun mína að fyrir nokkrum mánuðum lögðu allir áherslu á það að innganga í ESB væri ekki á dagskrá fyrr en jafnvægi væri komið á í efnahagslífi þjóðarinnar. Núna virðast sumir hafa gleymt þessu, eða hvað? Ég tel að við eigum að fara í aðildarviðræður við ESB og kanna hvaða leiðir liggja þar og hvað er á borði en ég tel það ekki vera stóra málið í dag.
Þetta er eins og að vera í stórri íslenskri fjölskyldu þar sem alvarlegt fjölskylduvandamál er í gangi vegna alkóhólisma og ætla að leysa málið með því að fara með alla fjölskylduna undir verndarvæng ættmenna í Evrópu. Fyrst þarf fjölskyldan að leysa sín mál og byggja upp traust og nýtt kerfi áður en leysa á málin annars staðar!
Ég tel stóra málið því í dag vera þá GRÍÐARLEGU UPPSTOKKUN sem þarf að verða á öllu leikkerfi okkar og leikmönnum í íslensku stjórnkerfi. Það var rotið kerfi sem hrundi en upp úr því á að geta sprottið öflugt, framúrskarandi samfélag öllum til handa. Það sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa gert síðan allt hrundi er að sitja ofan á rotnum haugnum og róta í honum í stað þess að opna fyrir þann möguleika að hugsa málin alveg upp á nýtt. Það gerist ekki með sama fólki í öllum stöðum sem vinna eftir sömu rotnu leikreglunum.
"There is a crack in everything and that is where the light comes in". Þessa fleygu setningu heyrði ég í dag. Það voru margar sprungur í íslensku stjórnkerfi og margt í háttum þar sem þarf að skoða. Ljósið sem skýtur sér inn á að geta lýst okkur leiðina að því að byggja allt upp á betri hátt með vitneskju um hvar sprungur geta myndast að leiðarljósi svo ekki bresti fleiri sprungur í framtíðinni sem hrynji með þeim látum sem nú hefur gerst.
Framsókn er á fullu þessa dagana. Mikið af fólki vill láta til sín taka. Nýtt fólk heyrir tóninn í okkur og vill ganga til liðs. Við eigum fleiri en einn og fleiri en tvo frambærilega menn sem vilja taka að sér að leiða þetta starf. Hvað er að gerast í hinum flokkunum? Getur það verið að þyrnirósarsvefninn sem ríkisstjórnin svaf hafi verið svo þungur að drunginn hafi lekið niður í flokkana sjálfa? Ólga er innan þeirra beggja en engin skýr teikn á lofti um svar við kalli almennings um breytingar.
Ég trúi því að nýtt Ísland sé fætt. Það er svo okkar að hlúa að því að byggja það upp á réttan hátt í stað þess að endurlífga gamla Ísland sem kvaddi af ótta við hið ókunna.
Stjórnvöld spara aura en kasta krónum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.