Flótti forsætisráðherra og meðreiðarfólks hans

Ég kann ágætlega við Geir H. Haarde forsætisráðherra okkar og gæti ímyndað mér að hann sé góður maður sem vill standa sig vel.

Það er hins vegar ámælisvert hvernig hann og ríkisstjórn hans hafa tekið á þeim verkefnum sem komið hafa upp frá því að ný ríkisstjórn var mynduð vorið 2007. Þau hafa verið fjarlæg, úr tengslum við almenning og óheiðarleg.

Ég hafði einnig álit á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og tel þar hafa verið mikla baráttukonu sem lagt hefur mark sitt á íslensk stjórnmál svo um munar. Hún er eflaust líka að gera sitt besta. Álit mitt á henni hefur dalað jafn hratt og íslenska krónan.

Vandamálið er bara það að það er ekki nógu gott það sem þau eru að gera sem stjórnmálamenn þó þau séu eflaust ágætis fólk. Það er eins og skynjun þeirra beggja á raunveruleikann sé brengluð. Það kemur þannig út að minnsta kosti fyrir þann sem fylgist með í fjarlægð eins og mig.

Í stað þess að viðurkenna það að þau hafi hvorki greint eða brugðist rétt við þeim ákallandi merkjum sem strax voru á lofti í upphafi stjórnarsambands þeirra og þeim var ítrekað bent á af hagfræðingum eins og Robert Wade, ýmsum stofnunum eins og Standard and Poors, greiningardeildum, framsóknarmönnum ásamt ótal öðrum þá hafa þau verið í stöðugri vörn. Þau hafa lagst lágt í því að vinna óheiðarlega, sagt eitt í dag en annað á morgun og falið sig á bakvið luktar dyr.

Af hverju segja þau ekki bara nákvæmlega hvernig staðan er? Hún hefur bara versnað og því tel ég þá taktík sem þau hafa notað að "hlífa" þjóðinni við þessum vondu fréttum og "hlífa" þjóðinni við að keyra neyðarviðbrögð strax á af fullum krafti vorið 2007 aðeins hafa leitt okkur í miklu dýpri pytt en þörf var á. Af hverju geta þau ekki stigið fram og viðurkennt þau mistök sem þau hafa gert? Af hverju geta þau ekki axlað þá ábyrgð sem þau voru kosin til að axla?

Það sama á við um bankagæðingana og útrásarvíkingana sem voru á ofurlaunum vegna þessarar gríðarlegu ábyrgðar sem reynist svo innistæðulaus þegar upp er staðið! Það er nánast sem rán í mínum huga að skammta sér svona sjúklega há laun í ljósi þess hversu mikla ábyrgð maður beri en taka hana svo ekki þegar á dynur! Það er að minnsta kosti ekki góð frammistaða í starfi og aldrei myndi ég ráða slíkan aðila aftur!

Mér finnst það vera sorglegur flótti og lúalegt hjá Geir Haarde að þykjast ekki hafa heyrt þau orð Wade að Davíð ætti að víkja. Hversu lágt er hægt að leggjast og hversu djúpt er hægt að draga heila þjóð á svona rugli?

Ég held að það sé alveg á hreinu hvaða flokkur verður "kosinn út" í næstu kosningum! Hann hefur dæmt sjálfan sig úr leik og Samfylking er á góðri leið með það sama á meðan Ingibjörg heldur áfram þessari meðvirkni með Geir og félögum. Flokkurinn sem hefur einokað efnahagsmál á Íslandi síðastliðin 17 ár og leitt til helsjúks samfélags sem verður áratugi að jafna sig endanlega eftir þetta hrun. (Ég vil nú skjóta því að að vissulega bera aðrir flokkar m.a. minn eigin flokkur einnig ábyrgð á ástandinu). Hinn flokkurinn sem lofaði öllu fögru m.a. fagra Íslandi, nafni Íslands af lista hinna staðföstu þjóða og byltingu á hinum ýmsu sviðum, samræðustjórnmálum og hefur svo ekki átt innistæðu fyrir neinu af þessu.

Ég hlakka til að sjá það öfluga fólk sem ég trúi að sé innan raða þessara flokka og annarra og nýtt fólk sem kemur til leiks taka við af þessu fólki sem situr með alla þjóðina fasta ofan í pytti og reynir ekki einu sinni að búa til stiga. Það eru mjög erfiðir en einnig spennandi tímar framundan fyrir okkur sem þjóð. Það ætla ég að minnsta kosti að vona að við náum fljótt botninum og getum farið að spyrna okkur upp á ný. Því miður sitjum við enn með akkeri sem halda okkur niðri sem er ónýt stjórnvöld og ónýtt gamalt regluverk og rotin vinnubrögð. Það er einungis tímaspursmál í mínum huga hvernær það akkeri verður losað.


mbl.is Kreppan getur dýpkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband