Laugardagur, 24. janúar 2009
Stokka spilin og gefa upp á nýtt!
Það eru umbrotatímar á Íslandi. Samfélagið eins og við þekktum það er hrunið og byggja þarf upp að nýju.
Til þess þarf að skipta um þá sem standa í brúnni því sömu menn og steyttu okkur á ísjakann geta ekki stefnt okkur inn í nýja tíma. Það hefur sannast síðustu 3 mánuði. Þeir eiga engin ráð önnur en óljósa plástra hér og þar og stefnuleysi.
Þessir þurfa að víkja: Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og í raun ríkisstjórnin með því hún er samábyrg. Seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlits þurfa einnig að víkja.
Koma þarf á neyðarstjórn til þess að vinna mikilvægustu björgunaraðgerðir fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu sem ekki geta beðið.
Kjósa þarf nýja fulltrúa þjóðarinnar sem einhenda sér af fullri starfsorku í uppbyggingu. Fyrst þarf að ljúka uppgjöri þeirrar fortíðar sem við skiljum við og lærum af. Mikilvægt er að þannig verði staðið að því að nýtt fólk eigi aðgang að því að komast að en ekki verði vegna flýtimeðferðar einungis um sama fólk að ræða í boði til þessa verkefnis.
Kalla þarf saman stjórnlagaþing þar sem fulltrúar þjóðarinnar vinna að nýrri stjórnarskrá og móta enn fremur nýtt lýðveldi Íslands til framtíðar.
Verkefni sem eru mikilvæg eru t.d. að skoða vel þau gráu svæði sem verið hafa í regluverkinu og lagfæra með hönnun nýrra kerfa. Til dæmis að menn geti ekki stofnað ný og ný fyrirtæki með því að skipta um kennitölu og án ábyrgðar. Skrá þarf menn persónulega fyrir fyrirtæki sem þeir bera ábyrgð á og ef um gjaldþrot verður að ræða gilda álíka reglur og gilda um persónuleg gjaldþrot. Taka þarf á þeirri þjóðaríþrótt að stinga undan skatti!
Sem sagt það þarf að stokka upp öll spilin og gefa upp á nýtt!
Það er mikið verk að vinna en slíkt ætti að geta fært komandi kynslóðum miklu betra samfélag en stefndi í þrátt fyrir mikinn fórnarkostnað.
Stjórnarskipti breyta engu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:00 | Facebook
Athugasemdir
Ekki er nóg að stokka spilin, við þurfum nýjan stokk, því eins og maðurinn á Austurvelli sagði þá er gamli stokkurinn slitinn og öll spilin merkt.
Lafðin, 24.1.2009 kl. 12:07
Góður pistill elsku vinkona.
Það þarf að stokka upp í stjórninni og í flokkunum. Þið í framsókn hafið byrjað á því en betur má ef duga skal. Innan flokkana allra eru alltof mikið af fólki sem telur sig rétthafa að ákveðnum sætum og embættum..óháð því fyrir hvað þeir standa. Slíkt fólk má að mínu mati bara missa sig.
Ég vil kosningar en ég vil þær ekki fyrr en í maí. Ég vil gefa nýjum framboðum tækifæri til að koma fram á sjónarsviðið og kynna sín málefni.
bestu kveðjur mín kæra
Linda
Linda (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 19:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.