Grein af Vísi í dag

Vísir, 05. feb. 2009 07:00

Pakkatilboð á pólitíkusum

mynd

Kristbjörg Þórisdóttir skrifar:

Með hinu nýfædda Íslandi sem er að brjóta sér leið úr egginu þessa dagana rís hávær krafa um algerlega nýtt kerfi. Ein þessara krafa lýtur að breytingum á kosningakerfinu.

Kosningar verða haldnar að kröfu fólksins á vordögum. Það er ansi skammur fyrirvari til þess að nýtt fólk og ný framboð geti skipulagt sig og stigið fram. Það má velta vöngum yfir því hvort þörf sé á nýjum framboðum þegar núverandi flokkar ná vel yfir litróf stjórnmálanna. Fólk ætti því að geta fundið flokk við sitt hæfi en gangi það ekki þá er nýtt framboð rétta leiðin til að hasla sér völl og hafa áhrif. Framsóknarflokkurinn hefur stigið öðrum flokkum feti framar í þeirri nauðsynlegu endurnýjun sem núverandi ástand hefur kallað á og leitt mikilvægar breytingar.

Til þess að þjóðin fái þá þingmenn sem hún óskar en ekki óbreytta stöðu að loknum kosningum þarf að huga að ýmsu. Miklar breytingar þurfa að eiga sér stað á kosningakerfinu og stjórnkerfinu í heild sinni. Augljóst er að ekki nást þær allar fram á svo skömmum tíma en miklvægt er að breyta því sem mögulegt er að breyta. Tillaga sú sem við framsóknarfólk höfum haldið á lofti um stjórnlagaþing er í anda þess að fela almenningi hið raunverulega vald til þess að semja nýja stjórnarskrá Íslands og hafa þannig áhrif á framtíðina.

Til þess að færa kjósendum aukið vald og efla lýðræði hugnast mér vel sú hugmynd að kjósendum sé veitt valdið til þess að raða frambjóðendum þess lista sem þeir kjósa í röð. Það eykur lýðræði og raunverulegt vald kjósenda. Á nýafstöðnu flokksþingi okkar framsóknarmanna var samþykkt ályktun um nýja kosningalöggjöf. Markmið hennar er að leita leiða til að persónukjör og vægi kjósenda aukist við röðun á lista. Ein leið að því markmiði er að frambjóðendum hvers lista sé raðað í stafrófsröð á kjörseðli og kjósendur raði fulltrúum á lista og kjósi þannig viðkomandi lista.

Einnig mætti auka vægi útstrikana af listum. Þessar leiðir koma í veg fyrir pakkatilboð það sem almenningur hefur þurft að velja um hingað til. Þannig sleppa kjósendur við að þurfa að kjósa sér fulltrúa sem þeir vilja ekki og fylgja bara með í pakkanum og hafa komist ofarlega á lista vegna ýmissa tengsla. Einnig mætti gera kjósendum kleift að velja frambjóðendur af öðrum listum í stað þeirra sem þeir strika út til þess að auka vægi persónukjörs.

Þetta eykur einnig þrýsting á frambjóðendur að leggja sig fram við að kynna sín persónulegu stefnumál þar sem þeir eiga ekkert öruggt fyrr en kosning hefur farið fram. Gallinn er sá að þessi aðferð gæti leitt til ósamstöðu framboða þar sem flokksfélagar berjast um völd innbyrðis á sama hátt og í prófkjörum. Þessi leið færir í raun þá baráttu fram í kosningarnar sjálfar.

Kostir aðferðarinnar eru að mínu mati meiri því mestu máli skiptir að það fólk sem valið er sé það fólk sem almenningur vill sjá starfa í sínu umboði.

Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF (Sambands Ungra Framsóknarmanna).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband