Ísland og íslenska vöru – já takk!

 (pistill birtur á www.suf.is í dag)

Þú liggur í grænni lautu, nýtur sólargeislanna, hlustar á niðinn í ánni sem rennur letilega við hlið þér, heyrir fuglana syngja fallega, horfir upp til himins og andar að þér fersku loftinu, finnur ilminn af nýútsprungnu birkinu og teygir þig að ánni til þess að fá þér svalandi sopa. Þú fylgist með íslenska lambinu bíta við hlið móður sinnar í hreinni náttúrunni. Þegar degi fer að halla er samt sem áður enn albjart, nóttin er björt og sumarnóttin er eilíf. Þú fyllist bókstaflega af kynngimagnaðri orku íslenska sumarsins...

Einhverjir eru sennilega farnir að huga að sumarfríum og margir sem vanir eru að ferðast til suðrænna slóða þurfa nú að breyta út af vananum vegna efnahagsástandsins. Þá er um að gera að leita ekki langt yfir skammt. Það er draumi líkast að ferðast um Ísland og njóta íslenskrar náttúru og endalausra sumarnótta.

Fyrir utan það að vera spennandi áfangastaður þá sláum við tvær flugur í einu höggi því að hver einasta vara sem við tökum fram yfir erlenda skapar fólkinu okkar atvinnu og blæs lífi í hagkerfið.

Það er sorglegt að heyra í fréttum að nú sé verið að farga íslensku svínakjöti í hrönnum eða selja það fyrir slikk til Rússlands vegna þess að hagstæðara sé fyrir seljendur að ota erlendu kjöti að neytendum. Þetta má ekki gerast! Rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar og annars iðnaðar verður að vera þannig að okkar eigin framleiðsla eigi forgang og við séum ekki að koma í veg fyrir framleiðslu í heimabyggð með því að kaupa inn vöru erlendis frá og missa þannig gjaldeyri úr landi og tapa störfum fyrir það eitt að fá mun slakari vöru.

Neytendur þurfa að muna það að hver vara sem framleidd er á Íslandi er ekki aðeins hágæðavara heldur er hún á sama tíma fjárfesting í okkar eigin framtíð. Með því að versla íslenska vöru þá erum við að halda gjaldeyri okkar inni í landinu og byggja upp framtíð þjóðarinnar. Veljum því íslenskt fyrir okkur sjálf.

Önnur leið til þess að bæta stöðu okkar er að stórefla útflutningsgreinar og auka verðmætasköpun með því að fullvinna vöruna eins mikið og hægt er heima.

Ferðamannaiðnaðinn þarf einnig að efla bæði til þess að laða að ferðamenn sem koma með gjaldeyri inn í landið en einnig fyrir okkur Íslendinga þannig að við kjósum að ferðast um eigið land og versla því í heimabyggð og skapa störf og stuðla að eigin farsæld í leiðinni.

Leggjumst á eitt um að vernda og tryggja störf í landinu jafnframt því að bæta þjóðarhag með því að hugleiða ætíð hvaða áhrif val okkar sem neytendur hefur fyrir þjóðarbúið. Viljum við að gjaldeyrinn streymi inn í landið og í okkar kerfi eða að hann fari úr landi og stuðli að hagvexti og störfum í öðrum löndum frekar.


mbl.is Greini tækifæri í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband