Þjóð á krossgötum

 

Íslenska þjóðin stendur á krossgötum. Þungbært ár er að baki með hruni bankanna og alvarlegum eftirmálum þess að kerfi sem talið var traust hrundi. Um leið hrundi sjálfstraust þjóðar sem taldi sig færa í flestan sjó... Verkefni okkar næstu misseri er að byggja upp sjállfstraust okkar sem þjóðar að nýju með dýrmætan lærdóm að leiðarljósi.

Á aðeins einu ári hafa hlutir sem áður þóttu sjálfgefnir orðið allt annað en það. Lífskjörum landsmanna er ógnað við núverandi aðstæður. Þjóðin er ráðvillt, veit ekki alveg hvað gerðist, hvað þarf að gera núna og hvert hún stefnir til framtíðar. Það mæðir því mikið á þeim sem veljast munu til leiðtogastarfa á næstu árum. Nú er tími upplýstrar samræðu, samvinnu, raunverulegra lausna, tafarlausra, hispurslausra aðgerða og framtíðarsýnar.

Á þeim tíma sem þjóðin gengur í gegnum má ekki gleyma þeirri jákvæðu hlið að einstakt tækifæri hefur skapast til þess að byggja margt í samfélagi okkar upp frá grunni og læra af þeim mistökum sem áður hafa verið gerð. Nú gefst tækifæri til þess að byggja upp samfélag sem gerir ráð fyrir öllum og byggir á jöfnuði og félagshyggju. Við höfum tækifæri til þess að hugsa stjórnskipun okkar upp á nýtt og endurgera stjórnarskrá okkar sem er ákaflega mikilvægt verkefni fyrir þjóðina alla.

Í aðdraganda þeirra kosninga sem nú eru hefur því miður of mikið borið á gamalkunnri pólitík þar sem meira er lagt upp úr því að halda völdum, koma höggi á andstæðinginn og tillögur hans en vinna að betri lausn og betri niðurstöðu fyrir alla.

Við í Framsókn höfum verið boðberar breytinga og lagt mikið upp úr raunverulegum breytingum og uppbyggingu betra samfélags. Til þess að svo megi verða þarf að ná sátt um stjórnlagaþing þannig að hið raunverulega vald færist til þjóðarinnar til að endurgera stjórnarskrá okkar með þarfir og nútíma aðstæður í huga. Sú stjórnarskrá sem við búum við núna er barn síns tíma og eftir ótal tilraunir hefur það sannað sig að það er ekki á færi stjórnmálaflokkanna að ná fram breytingum á henni. Það þarf þjóðin sjálf að gera.

Einnig þarf að bregðast snarlega við þeim bráðavanda sem við okkur blasir á sem farsælastan hátt. 18 liða efnahagstillögur okkar unnar með aðstoð innlendra og erlendra sérfræðinga voru lagðar fram strax í vetur með því sjónarmiði að engan tíma mætti missa og aðgerða væri þörf strax! Í dag eru um 18 þúsund manns atvinnulaus og 10 fyrirtæki fara í þrot dag hvern. Það er því löngu ljóst að aðgerðir verða að hefjast STRAX eigi ekki að fara enn verr. Það er ekki tími til þess að meta hverja fjölskyldu eða fyrirtæki fyrir sig í rólegheitunum og koma svo til aðstoðar. Það þarf hjálp strax og með því að láta afskriftir þær sem nú þegar hafa verið gerðar og munu verða ganga áfram til skuldara í stað þess að bankarnir njóti þeirra einir má leiðrétta lán fólks sem gerði sínar skuldbindingar og áætlanir fyrir hrunið. Þannig er hægt að tryggja hag heildarinnar með því að fólk geti áfram staðið við sínar skuldbindingar og kröfuhafar fengið meira til baka en ella. Það er farsælli leið að slökkva eldinn áður en hann breiðir úr sér en þegar húsið er brunnið! Með því að eitt sé yfir alla látið ganga má keyra aðgerðirnar strax í gegn og fyrirbyggja í raun þá spillingu sem gæti orðið á jafn litlu landi þegar sumir fengju aðstoð en aðrir ekki.

Margar stórar spurningar bíða þjóðarinnar á krossgötum okkar. Ætlum við inn í ESB eða ekki? Er það hluti af lausninni? Við sammæltumst um þá leið á flokksþingi okkar að ganga til aðildarviðræðna til þess að vita á hvaða forsendum við gætum farið inn en hafa skýr skilyrði um auðlindir okkar, sjávarútveg og landbúnað að leiðarljósi. Til þess að finna farsælustu leiðina þarf að hafa möguleika á því að skoða ólíkar leiðir á landakorti. Ég tel ekki rétt að útiloka neitt en heldur ekki að vaða bara af stað eina leið án þess að kynna sér aðstæður fyrst!

Það er ljóst að næstu misseri verða þjóðinni mikilvæg. Við þurfum að vinna vel úr því sem gerst hefur í samfélagi okkar og nýta þau nýju tækifæri sem gerast í stað þess að festast í förum neikvæðni, úrræðaleysis og vonleysis. Við skulum heldur ekki líta á hvert annað sem ógn heldur fagna hverri góðri tillögu sem kemur fram og vonast þannig til sem farsælastrar niðurstöðu - fyrir okkur öll - saman!
mbl.is Fjórfalt fleiri í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér á eftir fylgir innihaldið á þessum pistli sem ég var að lesa hér fyrir ofan.

"Flokkslínan, flokkslínan, það skrifaði þetta einhver annar fyrir mig, flokkslínan, ég er ófær um að taka sjálfstæðar ákvarðanir, flokkslínan, ég er óggeslega sæt og perky og finnst óggslega gaman að vera í félagsstarfi, flokkslínan, þeir sögðu mér að segja þetta, flokkslínan, flokkslínan, flokkslínan, flokkslínan, þeir sögðu mér að ef nógu margir endurtaka sömu lygina nógu oft þá fer fólk að trúa henni, flokkslínan, flokkslínan, djöull er öggslega gaman að vera í sona stjórnmálastarfi og vera óggslega important og merkileg. flokkslínan, flokkslínan, flokkslínan.

Það er greinilegt að maður þarf ekki að hafa sál, til þess að vera sál-fræðingur.

Hörður Tómasson (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband