Hvatning og jákvæðni vs. niðurrif og neikvæðni

Þegar maður er með bloggsíðu þá tekur maður vissa áhættu því maður opinberar að vissu leyti hugsanagang sinn. Það segir sig sjálft að sumir eru sammála manni en aðrir ósammála. Sem betur fer erum við ekki öll eins því þá myndum við ekki ná langt!

Það sem er hins vegar tilefni þessa pistils er munur á fólki og hvernig það bregst við svona pistlum.

Sumir leyfa sér að skrifa ómaklegar niðurrifs athugasemdir sem þjóna í raun engum tilgangi því ekki eru þær til þess fallnar að hvetja mig áfram og ekki eru þær viðkomandi til sóma (allra síst ef fólk skráir þær undir dulnefnum eða fölskum nöfnum). Aðrir koma með athugasemdir sem eru hvetjandi og jákvæðar. Slíkar athugasemdir hvetja mann áfram og gleðja mann og þannig leggur maður sig enn meira fram við að gefa af sér og koma með sína innsýn á málin.

Ég tel að það mætti vera meira af jákvæðni og hvatningu í okkar samfélagi því með einu hrósi getum við fleytt hvert öðru svo miklu lengra og virkjað ómælda orku. Neikvæðni og niðurrif er einungis til þess fallið að draga orku úr fólki sem vill vel og vill hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Hver græðir á því? Sá sem sendir slíkt frá sér lifir í villu ef hann heldur að slíkt muni hafa jákvæð áhrif fyrir hann því eins og sagt er: "What you give is what you get". Ég tel svo sannarlega að það sem við gefum af okkur, gott eða slæmt, það skili sér tilbaka.

Hins vegar hafa allir þörf fyrir rýni til gagns þeas. jákvæða og uppbyggilega gagnrýni því sá sem fær aldrei slíkt hann lifir ekki í raunveruleikanum. Þetta snýst allt um það hvernig maður lætur hlutina frá sér.

Hvað mig varðar þá nægir eitt fallegt hrós til þess að eyða út tíu ómaklegum og leiðinlegum athugasemdum en á móti fagna ég allri uppbyggilegri gagnrýni sem bendir mér á hvar ég geti bætt mig og gert betur.

Ég óska þess að stjórnmálin og samfélagið almennt fari í átak hvað þetta varðar því við höfum svo sannarlega nóg að gera við þann mannauð og þá "mannorku" sem við eigum yfir að búa. Við höfum ekki efni á því að draga úr henni með því að vera að glefsa í hvert annað. Það kemur engum áfram og þjónar því engum tilgangi. Í stjórnmálum t.d. er sorglegt þegar öll umræðan fer að snúast um hvað hinir stjórnmálamennirnir eða flokkar séu lélegir. Gerir það mann sjálfan eitthvað betri?

Ef þig langar að hrósa en gleymir því alltaf þá er hér gott ráð sem vinkona mín kenndi mér:

Settu nokkrar litlar pappírskúlur í vasann öðrum megin á buxunum eða peysunni. Þegar þú hefur hrósað einhverjum þá færirðu kúluna yfir í hinn vasann. Í lok dagsins ættu allar kúlurnar að hafa færst yfir. Þú getur sjálfur ráðið hversu margar þú vilt hafa í umferð Smile. Þegar maður hrósar einhverjum þá er mikilvægt að það sé einlægt og raunverulegt. Ekki segja "æðisleg peysa" ef þér finnst hún í raun hörmuleg... Það er líka alltaf gott að segja nákvæmlega hvað það er sem þú ert að hrósa fyrir eins og "mikið rosalega var skýrslan þín vel skrifuð". Ekki bara "þú stendur þig vel" (í hverju stend ég mig vel???). Svo er um að gera að hrósa fólki í mannmergð eða hópi því þá magnast hrósið upp ef það er viðeigandi en gefa fólki gagnrýni (rýni til gagns) í einrúmi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband