Drekinn á skólalóðinni og Dalai Lama

Síðustu helgi steig hér á land einn merkasti samtímamaður okkar. Það var hans heilagleiki 14. Dalai Lama, andlegur leiðtogi tíbetsku þjóðarinnar í útlegð. Dalai Lama er heimsþekktur og hefur hlotið friðarverðlaun Nóbels fyrir störf sín í þágu friðar. http://www.dalailama.com/

Við komu hans rættist einn drauma minn sem ég taldi að aldrei myndi rætast. Þegar Dalai Lama steig í salinn fylltist hann sömu kærleiksorkunni og ég fann í höll hans og sumarhöll í Lhasa í Tíbet. Þangað hefur hann sjálfur ekki átt möguleika á að koma í hálfa öld. Maðurinn er algjört sjarmatröll og brosti ég hringinn allan tímann yfir þeirri gleði sem fylgdi honum og drakk í mig þann fróðleik sem hann býr yfir. Fróðleik sem ekki er nýr af nálinni en lagður fram af mikilli visku og hugarró. Ef allir hugsuðu eins og Dalai Lama þá væri heimurinn svo sannarlega betri fyrir okkur öll.

Íslenska ríkisstjórnin og forseti Íslands féllu á prófinu að mínu mati. Þau ákváðu að hunsa heimsókn þessa merka manns og nýttu sér lélegar afsakanir og yfirklór. Þess má geta að forsætisráðherra Danmerkur tók vel á móti Dalai Lama sem er mun betri frammistaða en aumingjaskapur íslenskra ráðamanna. Þau ákváðu að fella gengi mannréttinda fyrir þá von að halda kínverska drekanum góðum (ógn og viðskiptasamböndum!) sem þekktur er fyrir að beita hótunum og ógn til valdbeitingar.

Kínverska stjórnin er eins og hrottinn á skólalóðinni sem hótar öllu illu og beitir hin börnin ofbeldi fari þau ekki að vilja hans og gefi honum vasapeningana sína og nestið. Því miður styrktu íslenskir ráðamenn (flestir) þessa hegðun í stað þess að sýna kjark og þor og bjóða kínverska drekanum byrginn. Þessa styrkingu á hegðun hrottans hefði hver einasti sálfræðingur gert athugasemd við og sagt að svona ætti að hunsa en breyta þess í stað rétt. Með því að gangast undir slíkar hótanir mun hrottinn einungis eflast og ógna meira og beita meira ofbeldi næst!

Ég harma innilega viðbrögð Íslensku ríkisstjórnarinnar og forseta vor sem brugðust þessu litla fagra landi sem þarf á okkar aðstoð að halda. Við eigum margt sameiginlegt með tíbetsku þjóðinni og gætum verið í þeirra sporum. Ég er hneyksluð á heigulshætti leiðtoga okkar og mun aldrei styðja þetta fólk til valdaembætta fyrir íslensku þjóðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Ég held að framsókn hefði ekkert frekar þorað að hitta hann ef þeir hefðu verið í stjórn, því miður erum við ekki allveg frjáls þjóð. Knús til þín frænka.

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 11.6.2009 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband