Mánudagur, 3. ágúst 2009
Þetta líf
Líf okkar er undarlegt ferðalag... orti merkur maður hérna um árið.
Þetta eru svo sannarlega orð að sönnu.
Það er svo ótrúlegt hvað mikið getur gerst á aðeins einu ári í lífi sérhverrar manneskju, sérhverrar þjóðar. Við Íslendingar erum að fara í gegnum mikinn þroskaferil þessi misserin. Áður þekkt veröld hrundi til grunna með hvelli og eftir sitjum við brotin, ráðvillt og áttavillt. Vitum hvorki hvað gerðist í raun og veru til fulls né hvað til bragðs eigi að taka núna. Áföll eru hluti mannlegrar tilveru en eðli þeirra og viðbrögð eru misjöfn eftir því um hvað er að ræða. Þær hamfarir sem við erum að ganga í gegnum sem þjóð eru að svo miklu leyti að mannavöldum að tilfinningar og viðbrögð verða flóknari en ella. Þetta þarf að hafa í huga við endurreisn þá sem verða þarf.
Ég var ein þeirra sem flutti heim frá útlöndum eftir að bankarnir hrundu og undruðust margir. Ég lít á aðstæður okkar sem stórt og mikið verkefni, krefjandi en spennandi til þess að byggja upp á ný, reynslunni ríkari. Ég get samt sem áður vel skilið þá sem neyðast til þess að fara af landi við þessar aðstæður. Ef ég sæi fram á að geta ekki séð fjölskyldu farborða þá myndi ég líka hugleiða að leita til nýrra heima.
Við sem erum hér þurfum að leggjast öll á árarnar til þess að samfélag okkar geti boðið sem flestum fótfestu, öryggi og tækifæri.
Ég hef mikið hugleitt það í sumar hvernig við getum náð þeirri samstöðu sem okkur er nauðsynleg til þess að ná þeim krafti sem þarf til að reisa upp farsælt og betra samfélag, þjóðstjórn? sterkan leiðtoga?
Eftir að hafa búið erlendis þá kynntist ég íslensku samkenndinni sem skapast hjá Íslendingum sem búa í útlöndum. Þar eignast maður mjög fljótt traust bakland og góða vini. Allir eru tilbúnir til að hjálpast að í þeim oft krefjandi aðstæðum sem skapast við að vera útlendingur í framandi landi. Þessi samkennd er eitthvað sem við megum ekki gleyma þegar við erum hér á okkar eigin landi að takast á við sögulega erfið verkefni. Til þess að samkenndin skapist þarf samt sem áður ákveðið uppgjör að fara fram. Stjórnvöld sem horfa fram hjá óréttlæti, eru ógagnsæ í feluleik og gera ekki upp við þá sem ábyrgir eru eða sýna í verki að breyting sé fyrirsjáanleg byggð á fenginni reynslu munu ekki ná fram þeirri sátt sem þarf til að almenningur fylki sér á bak þeim.
En þrátt fyrir öll þau erfiðu verkefni sem bíða okkar núna og sögulega tíma þá er samt vert að minna sjálfan sig á hvað skiptir mann raunverulegu máli þegar upp er staðið. Í mínum huga er það mín eigin heilsa, fjölskylda og vinir. Flest annað getur maður byggt upp á ný. Fólk annars staðar í heiminum sem á ekkert efnislegt er þrátt fyrir allt oft mjög hamingjusamt. Þetta líf er þannig að sum okkar fá ekki einu sinni tækifæri til þess að taka þátt í uppgjöri, endurreisn eða mótmælum. Sumum blómum er kippt upp með rótum langt áður en þau ná að blómstra að fullu. Stundum haustar langt áður en sumardagurinn er að kvöldi kominn og sólin sest.
Við erum öll að leita að því sama í þessu lífi. Öryggi, hamingju, ást og því að skipta máli í þessum heimi. Stundum verður tilveran svo flókin og óskiljanleg að þessi grundvallaratriði gleymast og maður fer að taka lífið sjálft sem sjálfsagðan hlut sem kasta má á glæ ef því er að skipta. Stundum verða verkefnin svo stór og mikil að við sjáum ekki sólina sem heldur samt áfram hvern einasta dag á sinni ferð og lýsir upp tilveru okkar. Stundum tekur lífið svo allt aðra stefnu en maður sjálfur hélt og vildi. Þá má ekki gleyma því að standa í sínar eigin fætur, draga andann djúpt og treysta á vini og vandamenn til þess að reisa sig við ("friends are angels who lift you to your feet when your wings have trouble remembering how to fly" las ég eitt sinn...). Þann greiða má endurgjalda síðar þegar brotin hafa raðast saman á ný og maður nær sínu flugi sem fyrr. Tilbúin til að takast á við krefjandi verkefni sem manneskja og sem hluti þjóðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Flottur pistill hjá þér elsku vinkona!
knússss
Linda (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 23:04
Þetta er það besta sem ég hef lesið í langan tíma. Ég hugsa oft til ungs vinar sem dó úr krabba 18 ára og ég vakti yfir seinustu klukkutímana.
En við verðum samt að hafa hús og mat. En það er mjög margt sem hægt er að lifa án þótt það geri okkur lífið auðveldara, til dæmis talvan sem ég er að pikka á.
Kveðja til þín og þinna.
Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 4.8.2009 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.