Fimmtudagur, 3. september 2009
Þessi blessaða ást
Ég held að flest okkar eyðum drjúgum tíma í hugleiðingar tengdar þessu flókna fyrirbæri. Það líður ekki sá dagur að ástin minni ekki á sig með einum eða öðrum hætti. Um hana eru ortar sögur, ljóð, lög og endalaust getum við hugleitt hana og rætt. Hún er ómissandi þáttur í allri mannlegri tilveru og birtingarmyndir hennar óteljandi.
Að verða ástfanginn er dásamlegra en allt sem orð fá lýst. Allt lífið ljómar og lifnar við og hver einasta fruma í líkama manns vaknar og brosir. Maður byggir skýjaborgir í huganum og sér lífið í nýju ljósi. Það er svo magnað að fá þetta tækifæri til þess að gefa einhverjum alla sína ást og ekki síður ef maður fær líka tækfæri til þess að þiggja hana á móti. Jing og jang er ekki algengt og því verður þessi gjöf stundum einhliða og þeir sem ná að upplifa ástina fljóta í báðar áttir eru lukkunnar pamfílar.
Jafnyndisleg og ástin er þá getur hún orðið skelfileg og sár þegar hún gengur ekki upp. Við getum aldrei lesið huga hins aðilans og það eina sem við getum vitað með vissu er okkar eigin hugur og hjarta. Þegar ástin skilur eftir sig djúp ör þá dauðsér maður eftir því að hafa lagt í þá háskaför sem ástin bauð upp í. En þegar betur er að gáð þá er það áhætta sem er þess virði. Ef maður upplifir aldrei sára ástarsorg þá upplifir maður ekki hina sönnu ást því þetta eru tvær órjúfanlegar hliðar á sama peningi.
Að reikna út hver er stóra ástin, sá eða sú eina sanna er ansi flókið reikningsdæmi. Það gæti orðið erfitt að skilgreina hver falli innan þessa flokks og geti því talið upp í tólf. Þannig gæti orðið erfitt að finna út nákvæmlega þann tólfta til að vita hvar maður er staddur í ferlinu! Best að ruglast ekki í talningunni!
Tólfta ástin sú rétta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:19 | Facebook
Athugasemdir
En sumir lifa bara ástarsorg án þess að finna hina sönnu ást. Það er einfaldlega ekki rétt að þetta sé a.m.k. alltaf sitt hvor hliðin á sama teningi.
Sigurður Þór Guðjónsson, 3.9.2009 kl. 18:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.