Leiðrétting á stöðu heimilanna

Mörg íslensk heimili standa frammi fyrir miklum erfiðleikum. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum. Flestir eru sammála um það. Um margt annað eru menn ekki sammála og meðal annars það hvernig eigi að bregðast við þessari stöðu.

Eins og ég sé stöðuna þá eru mörg þessi heimili að súpa seyðið af röðum mistaka stjórnvalda, ónýts regluverks og eftirlits hér á landi sem erlendis. Hér fór partýið úr böndunum og hinn almenni íslenski borgari á að greiða fyrir og vaska upp eftir þá veislu. Það þykir mér því augljóst að þar sem staðan er svona þá þurfi að minnsta kosti að gæta sanngirni að því hvernig uppvaskinu er háttað.

Það getur ekki talist réttmætt að aðeins þeir sem verst eru staddir fái aðstoð því sá hópur er ansi víðfeðminn þessa dagana, allt frá sárafátæku fólki upp í fólk sem "á" margar íbúðir og lúxusbíla. Nú þegar hefur verið dælt inn fjármagni í peningamarkaðssjóðina til þess að verja stöðu fjármagnseigenda, fyrirtæki hafa fengið einhverjar afskriftir og að lokum á að skoða afskriftir til þeirra sem verst standa og munu aldrei geta greitt lán sín. Er það sanngjörn leið fyrir þann sem bar ábyrgð á sínum fjármálum og eyddi ekki langt úr hófi fram að hann greiði fyrir afskrift láns nágrannans sem tók mikla áhættu í fjármálum? Svarið í mínum huga er nei. Það er aldrei hægt í svona fámennu þjóðfélagi að draga línu sem sanngjörn gæti talist. Slíkt verður einungis til þess að skapa verulega ókyrrð í samfélaginu (svo vægt sé til orða tekið) og það þurfum við síst í miðju uppbyggingarstarfi. 

Því þarf að koma til almennrar skuldaleiðréttingar þar sem lán allra eru leiðrétt með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á þeim í kjölfar hrunsins. Þetta þarf að vera hlutfallsleg leiðrétting með ákveðnu þaki. Þeir sem fara yfir þetta þak þurfa önnur úrræði. Þarna er komist eins nálægt því og hægt er að það sama gangi yfir alla. Þrátt fyrir að einhver sem er með hærra lán fái hærri afskrift þá hefur hans lán hlutfallslega hækkað jafn mikið og hins. Þeir sem skulda engin lán fá ekki neitt og tel ég það vera eðlilegt þar sem þeir eru ekki með lán sem eru komin langt umfram áætlanir. Þetta snýst í raun um leiðréttingu til þess að sem langflestir eigi þess kost að standa í skilum óháð því hver staða þeirra var áður.

Ég tel að stjórnvöld séu að átta sig betur á þessu og vona það. Þetta er lykillinn að því að hér geti skapast sátt um þá uppbyggingu sem stendur okkur fyrir dyrum. Þau úrræði sem fyrst voru í boði hafa sannað það að þau eru ekki að virka. Að gera fólk að hálfgerðum glæpamönnum með tilstjónarmann á bakinu og vanskilaskrá vegna skuldahækkunar sem almenningur ber ekki ábyrgð á er ekki leiðin til þess að fá samfélagið í lið með sér og eru þessar leiðir fallnar um sjálfar sig að mínu mati.

Bendi á áhugaverða grein sem birtist á Vísi um almenna skuldaleiðréttingu http://www.visir.is/article/20090902/SKODANIR03/732187957/-1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Takk fyrir góða grein Kristbjörg, ég tek heilshugar undir með þér.  Vil jafnframt benda á bloggfærslu mína frá í morgun um sama efni.

http://tibsen.blog.is/blog/tibsen/entry/942832/

Tómas Ibsen Halldórsson, 4.9.2009 kl. 16:21

2 Smámynd: Gissur Jónsson

Takk fyrir góða grein Kristbjörg og ég er hjartanlega sammála þér.

Langar bara að bæta við, þar sem þú telur eðlilegt að fólk með engar skuldir fái ekki neitt, að í langflestum tilfellum má gera ráð fyrir að fólk með engar skuldir hafi efni á að leggja fé til hliðar og því sé búið að bæta þeim skaðann eins og öðrum fjármagnseigendum.

Vona bara að menn hætti þessum hráskinnaleik um heimilin og fari að viðurkenna að einungis sú leið að leiðrétta almennt skuldir heimilanna muni verða ásættanleg.

Bestu kveðjur

Gissur Jónsson, 4.9.2009 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband