Hin mannlega velferðarbrú og skjaldborg

Stjórnarflokkunum hefur verið tíðrætt um velferðarbrú og að slá skjaldborg um heimilin. Hvorki hef ég séð brúna né skjaldborgina. Eina skjaldborgin sem ég hef séð í verki er skjaldborg lögreglumanna um Alþingishúsið þegar allt var á suðupunkti síðastliðið haust. Slíka skjaldborg gæti þurft að slá að nýju um sama hús ef ekki verður gripið til róttækra og sanngjarnra aðgerða fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu nú þegar Icesave þokunni og ESB haglinu hefur verið rutt frá í bili.

En tilefni þessa pistils er að hrósa þessu góða framtaki. Það sýnir svo kristaltært hvernig hinn mannlegi neisti er það sem þarf til að veita yl á erfiðum tímum. Mannlegt afl er það sem knýr okkur áfram. Hin raunverulega velferðarbrú og skjaldborg er fyrst og fremst byggð af okkur sjálfum. Þar sem við sem manneskjur hjálpumst að til þess að við sem heild komumst klakklaust í gegnum daginn og áfram veginn. Að sjá fram fyrir eigin þarfir og rétta fram hjálparhönd þegar einhver verður haltur í lestinni. Seinna gætum við sjálf þurft að grípa í hjálparhönd annars. Maður veit víst aldrei fyrirfram hvaða grjót eða þyrnar verða á vegi sérhvers okkar. Samvinnan er lykillinn að farsæld. Það þarf ekki flókin háskólapróf til þess að átta sig á þessari ævafornu og einföldu speki. Ef við hjálpumst að þá erum við betur stödd. Það sem við gefum af okkur til annarra kemur svo tífalt tilbaka til okkar sjálfra.

Undanfarin ár hafa sumir hlaupið eins og veðhlaupahestar áfram frjálshyggjuveginn sannfærðir af frumskógarspeki Darwins um að hinir hæfustu muni lifa af og engin ástæða sé til að hjálpa öðrum því hver sé sinnar gæfu smiður og ef ég komist áfram þá skipti engu máli yfir hvern ég hleyp ef ég kemst áfram minn sprett í lífsgæðakapphlaupinu. Við fengum ekki öll jafngóða hlaupaskó í guðsgjöf.

Kannski verður það einn ríkasti lærdómur okkar af þessari kreppu að núna þurfum við að taka upp gömlu góðu gildin og smíða saman velferðarbrú sem slær skjaldborg um okkur öll. Við getum nefnilega ekki ætlað stjórnvöldum eingöngu að gera það. Við þurfum að byrja á því hjá sjálfum okkur. Ef hver einasta manneskja hægir aðeins á sér og lítur um öxl til þess að geta rétt fram hjálparhönd þar sem þarf þá getum við í sameiningu lyft okkur upp úr þeim þunga pytti sem við spólum annars í.


mbl.is Stuðningur í verki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband