Þriðjudagur, 22. september 2009
Ung Framsókn
Um þar síðustu helgi sat ég Sambandsþing Ungra Framsóknarmanna (SUF).
Þingið var létt og skemmtilegt en einnig var unnið mikið á því og þykkur pakki af ályktunum fór í gegn (þær má sjá á www.suf.is). Að baki þeim lá mikil vinna og metnaður og það var merkilegt að sjá hversu ólíkar þær voru og hversu ólík málefni snerta hjörtu okkar ungra Framsóknarmanna. Það er nú það skemmtilega við pólitík, við erum ekki öll í þessu á sömu forsendum. Einn vill berjast fyrir málefnum fatlaðs fólks á meðan næsti vill vinna að því að lækka skattheimtu á getnaðarvarnir. Því lengur sem maður starfar í pólitík því breiðara verður svo áhugasviðið í málefnavinnunni. Það er að minnsta kosti mín reynsla.
Það sem kom mér þó mest á óvart á þessu þingi var hversu öflugur hópur ungs fólks er að koma upp af krafti í nýrri Framsókn (og ansi sterkur hópur var nú fyrir og hefur starfað undanfarin ár :) ). Raðir okkar eru þéttar og vægast sagt vel skipaðar. Ég fann hjá mér tilfinningu fyrir því að ég væri að verða svona í hópi með öldungunum innan ungliðanna og því yrði brátt tímabært að beina kröftum sínum annað. Ég tímdi þó ekki að lúta þessari tilfinningu strax þar sem ég á mjög skemmtilega kunningja sem ég hef kynnst í starfi mínu með SUF sem mig langar að starfa aðeins lengur með svo ekki sé minnst á hversu gaman verður að kynnast öllu þessu nýja fólki.
Það er þess vert að minna á það hversu öflugt starf ungs fólks er innan Framsóknar og hvernig Framsókn sker sig úr á íslensku stjórnmálarófi fyrir það að treysta ungu fólki raunverulega fyrir mikilli ábyrgð og verkefnum. Þingflokkur Framsóknar er sá langyngsti á Alþingi, bæði formaður og varaformaður flokksins eru á SUF aldri og lengi vel átti Framsókn 3 yngstu þingmennina á þingi. Framsókn hefur einnig staðið sig afar vel í jafnréttismálum í reynd þar sem konum hefur verið treyst fyrir störfum innan flokksins til jafns á við karlana. Þær hafa verið formenn flokksins og ýmissa hreyfinga innan hans, ráðherrar til jafns við karlana og oftast leitt lista til jafns á við þá. Oft hafa konur verið jafnmargar og karlmenn í þingflokknum þó reyndar hafi hallað á konurnar eftir síðustu kosningar þar sem þær eru einungis þriðjungur.
Í nýskipaðri stjórn SUF raðaðist þetta svo vel hjá okkur að við erum með rétt kynjahlutföll og einnig með rétt hlutföll á kjördæmum landsins og þetta náðist fram nánast án þess að neitt þyrfti að hrófla við úrslitum kosninganna. Við virðumst bara vera alin upp við það í Framsókn að hafa sem breiðasta og ólíkasta fylkingu í forsvari.
Segja má að Framsókn sé því afar ung fjöldahreyfing um þessar mundir. Flokkurinn hefur endurnýjað sig rækilega og hefur að skipa innan sinna raða talsvert stóran hóp ungra og öflugra einstaklinga sem þekkja málefni ungs fólks á eigin skinni og munu því meðal annars berjast á þeim vettvangi fyrir þeim hóp þjóðfélagsins sem væntanlega mun þurfa að bera þungar byrðar næstu misserin í kjölfar orðinna áfalla.
Mín skoðun er sú að það sé ákaflega mikilvægt í öllu stjórnmálastarfi að hafa ætíð í huga að þeir sem eru í forsvari og taka afdrifaríkustu ákvarðanirnar endurspegli eins breiða sneið samfélagsins og mögulegt er. Þannig ætti lýðræðið að virka betur með sem ólíkustum röddum sem sammælast um góða en víðtæka niðurstöðu. Það virkar ekki ef þingheimur er mestmegnis skipaður karlmönnum á miðjum aldri, sama hversu frambærilegir þeir eru.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2009 kl. 00:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.