Að vera þátttakandi í eigin lífi

Ég átti gott spjall við mæta konu í gær. Við töluðum um allt á milli himins og jarðar. Mest töluðum við um lífið sjálft og okkur sem manneskjur í því. Þetta líf er svo merkilegt, því má maður aldrei gleyma. Og það sem merkilegra er að þrátt fyrir allt þá stýrir maður för í því sjálfur. Maður stýrir því hvernig maður sjálfur bregst við aðstæðum og öðru fólki þrátt fyrir að hafa enga stjórn á þessu tvennu. Eins og hugræn atferlismeðferð (HAM) gengur út á þá líður manni eins og maður hugsar og maður getur haft áhrif á það sem maður hugsar. Við getum unnið með þær sjálfvirku hugsanir sem koma upp í kollinn á okkur. Þær eru ekki heilagur sannleikur. Þannig getum við haft mikil áhrif á líðan okkar.

Ég held að fólk verði að einhverju leyti frjálst í eigin huga og eigin líkama þegar það gerir sér grein fyrir þessari ábyrgð á eigin lífi og þeim óendanlegu valkostum sem lífið býður okkur dag hvern. Sennilega erum við sjálf okkar stærsta hindrun og sjálf erum við okkur verst. Það þekkir þú kannski á eigin skinni. Við segjum til dæmis hluti við okkur sjálf í huganum sem við yrðum ákaflega reið yfir segði einhver annar þá við okkur. Við getum verið okkar besti en einnig okkar versti förunautur í lífinu.

Það kostar samt vinnu að horfast í augu við sjálfan sig í speglinum, spegla sig í öðrum og umhverfinu. Það getur líka verið erfitt. Oft getur verið þægilegra að skella skuldinni á eitthvað allt annað en okkur sjálf ef eitthvað fer miður.

Ég held að við séum alla ævina að læra að vera við sjálf og kunna að meta okkur eins og við erum. Læra að taka okkur með okkar stærstu kostum og verstu göllum. Stundum fer fólk í mikla sjálfskoðun þegar það hefur lent í einhvers konar árekstri í lífinu, árekstri við sig sjálft, annað fólk eða umhverfið. Ég tel að hver einasta manneskja hafi gott af því að kíkja í skúffurnar sínar, kanna hvað þær hafa að geyma, fagna því góða og laga til þar sem þörf er á. Þannig aukast líka líkurnar á því að við séum sterkari þegar við lendum í þeim áföllum sem óhjákvæmilega fylgir tilveru okkar hér. Tré sem hefur sterkar rætur og hefur svignað í smávægilegum hviðum er líklegra til að standa af sér storm.

Ég held að það sé gott að muna að í dag er fyrsti dagur þess sem eftir er af lífinu (Today is the first day of the rest of your life) eins og einhver vitur maður sagði. Það er alltaf nýtt tækifæri, það kemur nýr dagur að þessum degi loknum. Tækifæri til þess að taka lífinu opnum örmum og hefjast handa sem fullur þátttakandi í eigin lífi, reynslunni ríkari og tilbúinn að yfirstíga sína stærstu hindrun.

Ég hélt til dæmis að ég myndi aldrei geta synt sjósund. Er hitadýr að eðlisfari og illa við kalt vatn. Get ekki staðið lengur en 2 sekúndur undir kaldri sturtu án þess að súpa hveljur. Sem hluti af herþjálfunar námskeiði sem ég er á tók ég þeirri áskorun að fara í sjósund. Og viti menn um leið og ég var komin út í 3 gráðu kalt vatnið í 4 gráðu hita þá leið mér vel. Ég naut þess að svamla um og synda eins og enginn væri morgundagurinn. Kom sjálfri mér hressilega á óvart. Vegna þess að ég lét vaða í stað þess að ákveða fyrirfram að ég gæti þetta aldrei (sem ég hafði samviskusamlega talið mér trú um).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Kristbjörg.

Þetta er athyglisverður pistill hjá þér og svo sannarlega vildi ég það að sem flestir sæju, hvað þú hefur að segja í ,þessum pistli þínum sem er einmitt kærkominn á dögum sem þessum.

Gangi þér allt í haginn.

Kærleikskveðja .

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 13:17

2 identicon

Góður pistill hjá þér eins og alltaf elsku vinkona:)

Berta María Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 13:27

3 identicon

alltaf jafn ljúft að lesa bloggið þitt Kidda mín!

knús

Linda

Linda (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 14:36

4 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Flott hjá þér frænka.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 27.9.2009 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband