Mánudagur, 28. september 2009
Hver situr í lífsrútunni þinni?
Í morgun sat ég tíma á HAM námskeiði (námskeið í hugrænni atferlismeðferð) sem er eitt af þeim verkefnum sem mér eru lögð fyrir í verknáminu mínu.
Fyrir það fyrsta þá er ég í miklum HAM yfir þeirri frábæru HAM vinnu sem ég er að kynnast og tel sálfræðingana á Lsp. vera að vinna mjög gott starf. Það væri að mínu mati mikið heillaspor að geta kynnt og boðið upp á þessi námskeið fyrir mun fleiri en eiga möguleika á þeim í dag. Það væri gott að geta haft meira af þeim inni á heilsugæslum, á vinnustöðum og jafnvel framhaldsskólum og háskólum því þarna er um svo góða sjálfsvinnu að ræða að hver sem er getur nýtt sér hana og haft mikið gagn af. Slíkt gæti haft mikið forvarnargildi og bætt geðheilbrigði landans.
Það sem stóð upp úr í tímanum í dag var kynning á hugtaki sem sálfræðingarnir uppi á Landspítala kalla Lífsrútuna. Lífsrútan er rútan okkar sem við keyrum á í gegnum lífið. Allt lífið erum við að taka einstaklinga upp í rútuna oft án þess að gera okkur grein fyrir því og hleypa öðrum út.
Tökum dæmi: 10 ára barni er strítt af skólafélaga sínum fyrir það að vera með ljótar tær. 35 ára áttar viðkomandi aðili sig á því þegar hann fer að skoða sín mál að allt sitt líf hafi hann/hún gengið í sokkum og passað að láta helst engan sjá tærnar á sér. Þannig áttar þessi manneskja sig á því á fullorðinsaldri að þessi skólafélagi hefur setið í rútunni í 25 ár og stjórnað því að manneskjan gangi alltaf í sokkum.
Í lífi hverrar manneskju eru margir sem sitja í rútunni sem rífa í stýrið hjá okkur og vilja stjórna rútunni okkar. Erum við sjálf við stýrið? Hver stjórnar förinni í okkar lífi? Er kannski upplagt að stoppa rútuna og hleypa nokkrum aðilum úr rútunni á næstu stoppistöð? Í dæminu hefði til dæmis verið gráupplagt að hleypa þessum skólafélaga bara út og fara svo að bera tærnar sínar við hvert tilefni :). Svo er hægt að hugsa þessa hugmynd á alla kanta eins og hentar hverjum og einum. Kannski er einhver með tengivagn á rútunni sinni þar sem svo margir eru um borð og maður vill kannski hafa einhverja sem maður vill ekki að komist nálægt stýrinu en maður þarf samt sem áður að fylgja í gegnum lífið. Einhver stakk upp á því að setja svona geymslubox á toppinn til þess að stinga tengdamömmu í!
Mig langaði að deila þessu með ykkur þar sem ég var sjálf alveg upprifin yfir þessari hugmynd. Mér finnst hún kenna manni svo margt um það hvernig maður vinnur með líf sitt, fortíð, nútíð og framtíð. Ég vona að sem flestir hlúi að sjálfum sér daglega og muni eftir geðræktinni sem og líkamsræktinni. Það er svo hvers og eins að velja úr þeim ótal leiðum sem færar eru til þess að stunda sjálfsræktina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.