Gefðu þér algerlega lausan tauminn!

 

Ég er að lesa þessa dagana framhald bókar sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og fjallar um munkinn sem seldi sportbílinn sinn. Höfundur þessara bóka er Robin S. Shauna.

Mig langar að deila með ykkur tveimur perlum en þessar bækur eru uppfullar af þeim.

Þessi perla er brot úr texta sem Mary Cholmondeley skrifaði fyrir löngu.

Með hverju árinu sem líður verð ég sannfærðari um að sóun lífsins felist í ástinni sem við höfum ekki veitt, kröftunum sem við höfum ekki virkjað, hinni ofurvarfærnu sjálfshyggju sem vill ekki leggja neitt í sölurnar til þess að komast hjá sársauka og nýtur því engrar hamingju heldur. Enginn hefur nokkurn tíma tapað á því, þegar til lengri tíma er litið, að gefa sér algerlega lausan tauminn. (Uppgötvaðu köllun þína með hjálp munksins sem seldi sportbílinn sinn, bls. 63).

Mér finnst þessi tilvitnun alveg frábær. Hún hvetur mann áfram til þess að gefa sér lausan tauminn, horfast í augu við það sem við óttumst, fara út fyrir þægindahringinn og láta vaða. Þannig verður líf okkar stórfenglegt og engu líkt.

Allt of oft erum við sjálfu okkur fjötur um fót. Við teljum okkur í sífellu trú um að þetta eða hitt sé ekki fyrir okkur eða við getum ekki eitt eða annað. Án þess að reyna, án þess að gefa okkur lausan tauminn og lifa lífinu til hins ýtrasta. Stundum erum við föst í okkar eigin kassalaga boxi. Fangar í okkar eigin þægindahring.

Afleiðing þess er sú að við förumst á mis við að komast að raun um hver við erum og hvað við getum. Við missum af gullnum augnablikum í lífinu af því við tókum ekki skrefið til fulls. Við missum af tækifærum til þess að glæða líf okkar innri eldi og fylla loftið umhverfis okkur af hamingju.

Ég held að við eigum að láta vaða. Gera meira af því sem við erum ekki 90-100% viss um að takist! Vissulega munum við stundum verða fyrir sársauka og stundum eru hlutirnir erfiðari en við héldum. En reynslan er oft sú að það er ekki nálægt þeim fórnarkostnaði sem við höfðum gert ráð fyrir í upphafi. Og þrátt fyrir að detta stundum fram fyrir okkur þá er hægt að græða sárin og læra af þeim. Þá getum við amk. verið ánægð með að hafa gert okkar besta, látið vaða, reynt. Það munum við þakka sjálfum okkur fyrir þegar við förum yfir lífshlaup okkar því það sem margir iðrast mest þegar styttist í annan endann á dvölinni hér á jörð er einmitt það sem fólk gerði aldrei.

Ekki sóa lífinu, veittu alla þá óendanlegu ást sem þú átt (þrátt fyrir að vera ekki með tryggingu fyrir að hún verði endurgoldin), virkjaðu alla þína krafta, leggðu allt í sölurnar (þó það kosti stundum sársauka), njóttu hamingjunnar sem þú uppskerð fyrir dirfskuna og gefðu þér algerlega lausan tauminn með því að stökkva langt út fyrir þægindahringinn!

Þrátt fyrir að stundum sé erfitt þá er gott að muna hina perluna sem er ættuð úr Spámanninum eftir Kahlil Gibran:

"Innst inni í iðrum hvers vetrar bíður titrandi vor. Og handan við myrka blæju næturinnar bíður brosandi dögun." (Uppgötvaðu köllun þína með hjálp munksins sem seldi sportbílinn sinn, bls. 138).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Óskars

Takk fyrir þetta - á örugglega eftir að lesa þessa bók.

Sigrún Óskars, 20.10.2009 kl. 23:38

2 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Þú ert frábær frænka mín, sem fyrr.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 21.10.2009 kl. 07:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband