Lífsins dýrmætu andartök

beach-6Það eru þau andartök þar sem maður lifir í fullkominni sátt. Sæll og glaður með einmitt það andartak sem líður hjá. Sæll með umhverfið sem maður er í og fólkið sem maður er með. Sæll með það hlutverk sem maður er í og þeim árangri sem maður er að ná. Svona andartök liggja ekki á silfurfati þar sem svo oft erum við vansæl með eitthvað sem vantar eða óánægð með að hlutirnir séu ekki nákvæmlega eins og við vildum hafa þá. Náum ekki að njóta andartaksins því við erum föst í síðasta andartaki eða því hvað gerist næst.

Vitur maður sagði að til þess að öðlast hamingju í þessu lífi þá skipti miklu máli að við værum sátt við okkur sjálf (sjálfsmyndin í lagi) og sátt við það sem við skildum eftir okkur að þessu lífi loknu (hafa lokið hlutverki okkar). Þá væri tilgangi lífsins náð.

Ég held að það sé mikilvægt að fanga lífsins dýrmætu andartök á meðvitaðan hátt því ótal svona andartök fljúga framhjá okkur á hverjum degi. Stundum nær maður að njóta þeirra, stundum ekki. Þetta geta verið andartök eins og að sjá bara hvað stjörnurnar eru fallegar á himninum, hvað fuglinn á handriðinu er skemmtilegur á sínu vappi, bros frá barni, barnshlátur, óendanlega fallegt landslag þar sem maður ekur um okkar fagra land - listaverk í ramma við hvern kílómetra, yndisleg stund á veitingastað með dýrmætasta fólkinu sínu, gleðistund með vinunum, augnaráð sem mætir þér og skilur þig, að njóta lystisemda lífsins alveg laus við daglegar hugsanir og áhyggjur, að standa á fjallstoppi að lokinni göngu upp, að svamla í tæru vatni, göngutúr einn í ómældri náttúrufegurð, augnablik yfir góðum Latte á uppáhalds kaffihúsinu og fylgjast með mannlífinu í fullkominni sátt...

Þegar maður er heltekinn af áhyggjum og hugsunum þá er svo mikilvægt að ná að kúpla sig út og bara njóta. Hver og einn getur búið til sinn lista um lífsins dýrmætu andartök í huganum á svipstundu. Þetta eru stundirnar að mínu mati sem skilja eftir sig dýrmætustu minningarnar. En í stað þess að njóta bara minninganna er mikilvægt að ná að grípa andartakið og njóta þess líka því það kemur ekki aftur þó minningin lifi sem spegilmynd á vegg hugans.

Það er svo auðvelt að festast í hinu hversdagslega lífi að maður hreinlega hættir að sjá lífið sjálft.

Hvet þig kæri lesandi til þess að staldra við og grípa nokkur dýrmæt andartök um leið og þau gerast á morgun!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Yndisleg frænka mín eins og svo oft áður.

Silla.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 1.11.2009 kl. 23:04

2 identicon

Alltaf jafn ánægjulegt að lesa skrifin þín Kidda mín. Kreist Guðný

Guðný Kjartansdóttir (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband