Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Laugardagur, 30. október 2010
Memorias del saqueo/Social genocide/Minning um rányrkju
Hvet alla eindregið til þess að horfa á þessa mynd. Hún fjallar um hvernig argentínska þjóðin fór út úr samskiptum sínum við AGS. Þjóð sem tapaði auðlindum sínum og sat uppi með gríðarlegan skuldaklafa vegna spillingar og rányrkju innlends og erlends auðvalds!
Þjóð sem átti mikla möguleika og auðlindir eins og íslenska þjóðin en hluti þjóðarinnar endaði í ömurlegum aðstæðum :(
Sláandi að sjá hversu margt minnir á ýmislegt af því sem við erum að upplifa!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. október 2010
Vilt þú leggja mér lið?
Kæru lesendur,
Þeir sem eru tilbúnir til þess að leggja framboði mínu til stjórnlagaþings lið með einum eða öðrum hætti mega gjarnan hafa samband við mig með því að senda mér skilaboð á Facebook eða á netfangið kristbjorgthoris@simnet.is einnig er ég jákvæð fyrir öllum góðum ábendingum og rýni til gagns :)
Góða helgi,
Kristbjörg Þórisdóttir.
Miðvikudagur, 27. október 2010
Þurfa frambjóðendur til stjórnlagaþings ekki að gefa upp hagsmunatengsl sín?
Opið bréf til Dómsmálaráðuneytis (sent á alla helstu fjölmiðla í gær)
Ég heiti Kristbjörg Þórisdóttir og er frambjóðandi til stjórnlagaþings. Ég lagði fram spurningu á borgarafundi á vegum stjórnlaganefndar sem haldinn var í Súlnasal á Hótel Sögu í síðustu viku og snerist hún um það hvort ekki verði kallað eftir því af hendi opinberra aðila að frambjóðendur til stjórnlagaþings gefi upp hagsmunatengsl sín. Sömu spurningu lagði ég fyrir fulltrúa Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins í símtali í dag. Svörin voru þau að kynning á slíkum upplýsingum væru ekki á hendi þessara aðila heldur yrði einungis kynnt það efni sem frambjóðendur sendu inn ásamt því að bent yrði á þær vefsíður sem frambjóðendur vilja vekja athygli á. Á fundinum var vísað til þess að þetta kæmi ekki fram í Lögum um stjórnlagaþing nr. 90/2010 . Í 9. gr. þeirra stendur einungis að Dómsmálaráðuneytið skuli undirbúa kynningarefni um frambjóðendur en ekki er nánar útlistað hvaða upplýsingum þurfi að kalla eftir.
Mögulegt er að fjölmiðlar muni fjalla um hagsmunatengsl frambjóðenda og nú þegar hefur vefsíðan Svipan www.svipan.is kallað eftir hagsmunatengslum sem hluta þeirra upplýsinga sem óskað er eftir frá frambjóðendum. Þetta tel ég vera jákvætt en ábyrgð á því að kalla eftir þessum upplýsingum og birta þær eigi að liggja hjá þeim sem annast kynningu á frambjóðendum samkvæmt lögunum þannig að hlutleysis sé gætt í hvívetna.
Frambjóðendur til Stjórnlagaþings eru einstaklingar sem bjóða fram krafta sína til þess að taka þátt í sögulegri endurskoðun nýrrar stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Verkefnið á sér enga hliðstæðu. Ábyrgð þeirra sem ná kjöri á stjórnlagaþing er mikil og snýst um það að vera þátttakendur í því að endurskoða rammann um grunnstoðir íslensks samfélags.
Hluta þeirra orsaka sem ollu því að hérlendis hrundi efnahagslífið má rekja til kunningjasamfélagsins, ógagnsæis, ófaglegra vinnubragða og skorts á formfestu. Þetta kemur meðal annars fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis.
Til þess að stjórnlagaþing og þingmenn þess njóti þess trausts sem nauðsynlegt er til þess að árangur náist tel ég grundvallaratriði að frambjóðendum sé gert skylt að upplýsa um sín hagsmunatengsl þannig að kjósendur geti gert upp hug sinn með upplýstum hætti.
Ég spyr kjósendur að því hvort þeir muni kjósa frambjóðendur sem ekki upplýsa um hagsmunatengsl sín?
Ég spyr frambjóðendur að því hvort þeir muni birta hagsmunatengsl sín?
Að lokum ítreka ég fyrirspurn mína til hins opinbera um hvort ekki verði kallað eftir hagsmunatengslum frambjóðenda til stjórnlagaþings? Það væri til dæmis hægt að gera það þannig að fyrirfram mótaðar spurningar um hagsmunatengsl verði sendar til frambjóðenda og svör þeirra svo birt sem ítarefni við kynningarefni á vefnum www.kosning.is
Til þess að byggja upp betra samfélag á Íslandi þurfum við að hefja verkið hér og nú!
Spillingareinkunn Íslands lækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. október 2010
Kvennafrí
Mig langar til þess að óska öllum konum innilega til hamingju með kvennafrídaginn
Það var magnað að vera hluti af þeim þunga straum 50 þúsund kvenna sem gekk frá Hallgrímskirkju niður á Arnarhól. Sumir telja að kvennabarátta sé úrelt fyrirbæri og undrast þá baráttu. Ég er því ekki sammála og ber mikla virðingu fyrir þeim kjarnakonum sem hafa komið okkur ungu konunum og samfélaginu öllu þangað sem við erum komin en betur má ef duga skal!
Það hlýtur að vekja undrun að nú árið 2010 séu konur á Íslandi einungis með 66% af heildarlaunum karla samkvæmt tölum frá Hagstofunni en þetta kom fram í mjög góðri grein sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í dag sem ber heitið "Þess vegna kvennafrí". Í sömu grein kemur fram að þrátt fyrir rannsóknir sem sýna að blandaðar stjórnir í fyrirtækjum skili betri árangri og hærri arði þá er aðeins 1 kona á móti 9 körlum í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Rannsóknarskýrsla Alþingis varpaði einnig ljósi á það að hlutur karlmanna er talsvert meiri en kvenna í þeim slæmu ákvörðunum og framkvæmdum sem leiddu til hruns íslensk efnahagslífs.
Kynin eru ólík með mismunandi styrkleika og veikleika. Til þess að nýta sem breiðustu styrkleikana og vinna á móti veikleikum er mjög mikilvægt að sjónarmið beggja kynja, mismunandi aldurs og sem ólíkastra einstaklinga komi fram og njóti sín. Þannig næst bestur árangur.
Saman skulum við byggja upp framsækið og öflugt samfélag með ramma utan um okkur öll, fyrir okkur öll!
Konur ganga út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 25. október 2010
Hagsmunatengsl frambjóðenda
Þetta tel ég lykilatriði þess að þeir einstaklingar sem verða þingmenn stjórnlagaþings njóti fulls trausts í því ábyrgðarmikla hlutverki sem þeir taka að sér og þetta sögulega tækifæri skili þeim árangri sem væntingar standa til.
Kjörnir fulltrúar þurfa að geta gert grein fyrir hagsmunatengslum í ljósi smæðar samfélagsins og hins mikla kunningjasamfélags sem við búum í.
Ég tel þetta vera hluta af þeirri breytingu sem þarf að verða þannig að hægt verði að byggja upp traust að nýju á milli kjörinna fulltrúa og kjósenda. Fólk sem tekur að sér trúnaðar- og ábyrgðarstöður á ætíð að þurfa að gefa upp hagsmunatengsl að mínu mati. Það á að vera sjálfsagt mál.
Sjálf hef ég birt hagsmunatengsl mín sem skoða má á þessari bloggsíðu ásamt þeirri síðu sem ég er að byggja upp í kringum framboðið og Facebook síðu minni.
Kristbjörgu Þórisdóttur á Stjórnlagaþing
523 í framboði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. október 2010
Frambjóðendur til Stjórnlagaþings upplýsi um hagsmunatengsl sín
Ég sat mjög góðan fund í Súlnasal í kvöld sem var kynningarfundur á vegum stjórnlaganefndar. Hann var mjög upplýsandi og góður.
Þar bar ég upp tvær spurningar:
Í fyrsta lagi hvort að frambjóðendur þyrftu ekki að gefa upp hagsmunatengsl sín og birta til þess að það gagnsæi sem við flest köllum eftir í okkar kunningjasamfélagi myndi verða raunin. Ég tel mikilvægt að frambjóðendur séu með allt uppi á borðum að þessu leyti svo kjósendur viti hvaða mögulegu hagsmunatengsl hver og einn hefur. Þetta mæltist mjög vel fyrir. Þess má geta að Svipan www.svipan.is hefur kallað eftir efni frá okkur frambjóðendum og óskar slíkra upplýsinga þeas. um hagsmunatengsl frambjóðenda og maka þeirra.
Í öðru lagi bar ég upp þá spurningu hvort þjóðin fengi að taka afstöðu til nýrrar stjórnarskrár áður en hún færi til Alþingis og þá hvort mögulega yrði hægt að kjósa um hverja grein sérstaklega. Það verður ákvörðun Stjórnlagaþings en ég reikna með að fyrir því sé víðtækur vilji. Varðandi það að kjósa um hverja grein fyrir sig var minni sátt. Rökin voru þau að þannig myndi ekki verða sú heildarmynd á henni sem þyrfti þeas. ef e-r grein yrði felld.
525 framboð til stjórnlagaþings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 21. október 2010
Borgarafundur í Súlnasal hótel Sögu vegna Stjórnlagaþings í dag kl. 17.30
Sjöundi og síðasti borgarafundurinn um endurskoðun stjórnarskrárinnar verður haldinn í Súlnasal hótel Sögu í dag klukkan 17:30. Stjórnlaganefnd kynnir fyrirhugað stjórnlagaþing og Þjóðfund um endurskoðun stjórnarskrárinnar og svara fyrirspurnum úr sal. Allir velkomnir. Athugið að fundurinn hefur verið færður í Súlnasal hótel Sögu.
Ég ætla að mæta og vonast til þess að sjá þig :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 21. október 2010
Hvað hefur framsóknarkona að gera á stjórnlagaþing?
Ég er skráð í Framsóknarflokkinn.
Ég hóf afskipti af stjórnmálum árið 2006. Á þeim tíma hafði ég starfað í 7 ár að málefnum fatlaðs fólks á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík (SSR) sem stuðningsfulltrúi, deildarstjóri og forstöðumaður. Ég hafði einnig nýlokið diplóma gráðu í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Dag einn sat ég ásamt oddvita framsóknarmanna í Mosfellsbæ þar sem við vorum saman komin á hreinsunardegi hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ. Við fórum að ræða um atvinnumál fatlaðs fólks. Ég ræddi um mikilvægi þess að fatlað fólk ætti kost á því að hasla sér völl á almennum vinnumarkaði. Hann tók vel undir umræðu mína og bauð mér á fund. Ég endaði á lista hjá Framsókn í Mosfellsbæ fyrir kosningar það vorið. Þannig hófst mín pólitíska þátttaka.
Ég hafði mikinn áhuga á því að breyta samfélaginu og var uppfull af eldmóði eftir góða kennslu hjá þeim Rannveigu Traustadóttur prófessor og Hönnu Björgu Sigurjónsdóttur lektor. Ég upplifði hrópandi ósamræmi á milli þess sem ég las um í bókunum mínum, þess hvernig stjórnmálamenn töluðu og raunveruleika fatlaðs fólks þrátt fyrir ágætan vilja flestra. Brotalamirnar stöfuðu stundum hreinlega af fáfræði og reynsluleysi úr reynsluheimi fatlaðs fólks. Það er erfitt að taka ákvarðanir um mál sem þú þekkir afskaplega lítið af eigin raun. Raunveruleikinn er ekki í samræmi við Lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Ég ákvað að til þess að geta náð fram breytingum þyrfti rödd mín að heyrast innan stjórnmálanna þeas. hjá þeim sem hafa völdin til þess að breyta. Það er ekki nóg að tala bara um hlutina.
Frá þessum tíma hef ég tekið virkan þátt í pólitísku starfi og áhugasviðið hefur vaxið yfir í mörg önnur mál en aðaláhersla mín liggur á velferðarmálum. Áhersla mín snýst um að hér á landi eigi allir að geta haft það gott alveg óháð því hverjir það eru eða hver staða þeirra er.
Hér hrundi allt, rannsakað hefur verið hvað fór úrskeiðis og nú skapast einstakt tækifæri til þess að byggja samfélagið upp að nýju, sterkara og öflugra en nokkru sinni fyrr. Segja má að við höfum tækifæri til þess að endurfæðast sem nýtt lýðveldi Ísland. Eitt af okkar stærstu verkefnum er að byggja samfélagssáttmála í stjórnarskránni sem getur sameinað okkur öll sem eina þjóð. Ríkjandi menning sem byggir á siðferðisvitund, skýrum leikreglum og breyttum og faglegum vinnubrögðum er grundvallarþáttur í því að vel takist til.
Mér þykir svolítið sérstök umræðan sem sumir halda á lofti núna að ekki sé hægt að greiða fólki atkvæði sem tengist stjórnmálaflokkunum. Ég tel það of mikla einföldun. Það er deginum sannara að margir hafa brugðist í íslenskum stjórnmálum og mjög vel skiljanlegt að fólk sé reitt yfir því hvernig allt fór. Sjálf er ég oft mjög reið. En það er samt mikilvægt að benda á það að meirihluti þeirra sem starfa í stjórnmálaflokkunum er venjulegt fólk með hugsjónir og mikinn vilja til þess að leggja á sig ómælda sjálfboðavinnu til þess að gera samfélag okkar allra betra.
Hvers vegna býður maður sig fram til stjórnlagaþings? Til þess að bæta samfélagið sitt á sama hátt og fólk fer oft að taka virkan þátt í pólitísku starfi.
Því hvet ég þig kjósandi góður til þess að skoða frambjóðendur til stjórnlagaþings sem einstaklinga og meta hvern og einn að eigin verðleikum þegar þú tekur ákvörðun þína.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 20. október 2010
Sögulegt tækifæri
Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir sögulegu tækifæri.
Oft er það sagt og ekki ómerkari menn en Dalai Lama hafa ritað um það að það fólk sem við mætum á lífsleiðinni sem er okkur verst og skapar okkur mestar raunir er í raun það fólk sem við ættum að vera þakklátust fyrir að hitta og við ættum beinlínis að þakka því. Hver er ástæðan? Jú, ef við hittum bara fólk sem bæri okkur á gullstólum og hrósaði okkur í hástert þá fengjum við ekki eins mikil tækifæri til þess að vaxa og þroskast sem einstaklingar.
Á sama máta getum við sem þjóð valið að líta á þær hörmungar sem við göngum í gegnum núna með jákvæðu hugarfari (neikvætt hugarfar skilar okkur ekki langt) og litið á þær sem sögulegt tækifæri til þess að rýna í samfélag okkar frá grunni og byggja það upp sterkara en nokkru sinni fyrr.
Stjórnlagaþing getur verið hornsteinn í slíkri vinnu. Ég er sérlega ánægð með það hversu margir buðu sig fram til þess að taka þátt í því mikla og vandasama verki sem endurskoðun stjórnarskrárinnar er og vona að öll þjóðin fari með í þann leiðangur. Með samstöðu og krafti getum við byggt hér fyrirmyndarsamfélag.
Tækifærið er núna.
Þriðjudagur, 19. október 2010
Fjárhagslegslegir hagsmunir og trúnaðarstörf - vegna framboðs til Stjórnlagaþings
- Launuð stjórnarseta í einkareknum eða opinberum félögum. Staða og félag skulu skráð: Engin
- Launað starf eða verkefni. Starfsheiti og nafn vinnuveitanda/verkkaupa skulu skráð: Varamaður í nefnd um erlenda fjárfestingu. Hef setið einn fund.
- Starfsemi sem unnin er samhliða starfi og er tekjumyndandi fyrir hann eða félag sem hann á sjálfur eða er meðeigandi í. Skráð er tegund starfsemi: Engin
- Fjárframlag eða annar fjárhagslegur stuðningur frá innlendum og erlendum lögaðilum og einstaklingum, þ.á.m. stuðningur í formi skrifstofuaðstöðu eða hliðstæðrar þjónustu. Enn fremur er skráður fjárhagslegur stuðningur í formi afsláttar af markaðsverði og annars konar ívilnunar að verðgildi meira en 50 þús. krónur sem ætla má að sé veittur vegna framboðs til stjórnlagaþings. Skráð er hver veitir stuðninginn og hvers eðlis hann er: Engin
- Gjöf frá innlendum og erlendum lögaðilum og einstaklingum þegar áætla verður verðmæti hennar yfir 50 þús. krónum og ætla má að gjöfin sé veitt út af framboði til stjórnlagaþings. Skrá skal nafn þess sem gefur, tilefni gjafar, hvers kyns hún er og hvenær hún er látin í té: Engar
- Ferðir og heimsóknir innan lands og utan sem geta tengst setu framboði til stjórnlagaþings. Skrá skal hver stóð undir útgjöldum ferðar, tímabil hennar ásamt nafni áfangastaða: Engar
- Eftirgjöf eftirstöðva skulda og ívilnandi breytingar á skilmálum samnings við lánardrottinn. Skrá skal lánardrottinn og eðli samningsins: Engar
- Fasteign, sem er að einum þriðja eða meira í eigu frambjóðanda eða félags sem hann á fjórðungshlut í eða meira, annað en húsnæði til eigin nota fyrir frambjóðanda og fjölskyldu hans og lóðarréttindi undir slíkt húsnæði. Skráð er heiti landareignar og staðsetning fasteignar: Engar
- Heiti félags, sparisjóðs eða sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri, sem frambjóðandi á hlut í sem fer yfir einhver eftirtalinna viðmiða:
- Verðmæti hlutar nemur að markaðsvirði meira en einni milljón króna miðað við 31. desember ár hvert: Engar
- Hlutur nemur 1% eða meira í félagi, sparisjóði eða sjálfseignarstofnun þar sem eignir í árslok eru 230 millj.kr. eða meira eða rekstrartekjur 460 millj. kr. eða meira: Engar
- Hlutur nemur 25% eða meira af hlutafé eða stofnfé félags, sparisjóðs eða sjálfseignarstofnunar: Engar
- Samkomulag við fyrrverandi vinnuveitanda sem er fjárhagslegs eðlis, þar á meðal samkomulag um orlof, launalaust leyfi, áframhaldandi launagreiðslur eða fríðindi, lífeyrisréttindi og ámóta meðan setið er á stjórnlagaþingi. Skrá skal gerð samkomulags og nafn vinnuveitanda: Ekkert
- Samkomulag um ráðningu við framtíðarvinnuveitanda, óháð því að ráðningin taki fyrst gildi eftir að frambjóðandi hverfur af stjórnlagaþingi. Skrá skal gerð samkomulags og nafn vinnuveitanda: Ekkert
- Skrá skal upplýsingar um stjórnarsetu og önnur trúnaðarstörf fyrir hagsmunasamtök, opinberar stofnanir, sveitarfélög og stjórnmálaflokka óháð því hvort þessi störf eru launuð. Skrá skal nafn félags, hagsmunasamtaka, stofnunar eða sveitarfélags og eðli trúnaðarstarfs. Sit sem áheyrnarfulltrúi í fjölskyldunefnd í Mosfellsbæ fyrir Íbúahreyfinguna í Mosfellsbæ. Sit í miðstjórn Framsóknarflokksins. Er varaformaður Landssambands framsóknarkvenna. Mun víkja sæti á meðan seta á stjórnlagaþingi varir. Sit í Siðanefnd Framsóknarflokksins.