Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samræður við Guð

 

Ég var að horfa á myndina sem byggð er á bókinni "Samræður við Guð". Hef ekki lesið bókina enn en mun gera það. Þessi mynd vakti mig heilmikið til umhugsunar.

Við sköpum okkar eigin hamingju. Hver er sinnar gæfu smiður.

Að sama skapi þá eru málin ekki svo einföld að þeir sem farið hafa halloka í lífinu hafi valið sér það hlutskipti eða hafi á vísvitandi hátt skapað sér það. Teljið þið líklegt að fólk vakni einn daginn og segist ætla að verða eiturlyfjaneytendur, útigangsmenn eða vændiskonur? Teljið þið líklegt að innbrotsmaður sé það fyrsta sem komi upp í hugann á barni sem spurt er hvað það ætlar að verða þegar það verður stórt?

Mitt svar er nei. Við komum misvel útbúin í þetta líf. Við fáum misfrjósaman jarðveg að spretta í. Fyrir sum skín sólin meira og minna allan tímann en fyrir aðra kemur hvert haglélið á fætur öðru og eyðileggur uppskeruna.

Við vitum sjaldnast hvað annað fólk hefur farið í gegnum. Hvað það er að takast á við. Hvað það er að hugsa. Við vitum ekki hvað það er sem liggur að baki.

Þegar við sjáum útigangsmann sitja á bekknum á Austurvelli þá er auðveldast að hugsa "Aumingja þessi, voðalega hefur hann farið illa með líf sitt" eða annað í þeim dúr. En málið er það að við vitum bara ekkert um það hvort þessi einstaklingur beri fulla ábyrgð á því að hafa farið svona með sitt líf. Það gæti margt spilað inn í. Því tel ég að við eigum að sýna hverju öðru samhygð og kærleika. Af því við sjálf gætum líka setið á bekknum og þá myndum við óska þess að einhver skildi okkur, virti okkur sem manneskjur. Því við erum öll jöfn þegar við komum í þennan heim og þegar við yfirgefum hann. Við förum bara misjafnar leiðir og lendum í mismiklum þyrnum en það gerir þann sem keyrir framhjá bekknum á Benz jeppa ekki að betri manni en þeim sem situr heimilislaus á bekknum. Því gæti einmitt verið alveg öfugt farið. Hann er ríkari efnislega. Annað vitum við ekki (nema jeppinn sé á lánum...).

Hin hliðin á peningnum er hins vegar sú að lendum við í ógöngum í lífinu þá mæðir það mest á okkur sjálfum hvernig við tökumst á við vandann. Við eigum alltaf val. Og við erum alltaf upp á samhygð og stuðning annarra komin til þess að komast í gegnum skaflana.  En við verðum að taka skrefið. Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir. Eitthvað veldur því að þeir sem ekki ná í gegnum skaflana leggja ekki af stað eða geta ekki tekið skrefið. Hafa kannski reynt en lent á of mörgum veggjum og gefist upp. Við vitum það ekki. En við skulum ekki dæma það sem við vitum ekki. Og við skulum virða alla sem þær verðugu manneskjur sem þær eiga skilið að vera. Öll eigum við okkar rétt og öll höfum við eitthvað mikilvægt hlutverk í þessu lífi. Við berum sameiginlega ábyrgð á hverju öðru í þessu lífi. Við verðum ríkari sjálf af því að vera til staðar fyrir þann sem á þarf að halda.

Við skulum ekki dæma bókina eftir kápunni. Ekki nema vita innihaldið og hvernig hún endar.

Lifið heil.


Hvenær er nóg, nóg?

 

Ég var að horfa á þáttinn Kaupæði sem sýndur var á Rúv áðan. Þessi þáttur vakti mig til umhugsunar um ýmislegt.

Mér þótti áhugavert að sjá umfjöllunina um það hvernig auglýsendur spila inn á tilfinningar fólks og hvernig tilfinningar okkar hlaupa stundum með rökhugsunina í gönur. Við bara verðum að eignast þennan sófa, kjól, bíl, augnskugga, golfkylfu... hvað það nú er. Við erum svo upptekin við það að elta ímynd sem búið er að selja okkur að við finnum ekki okkur sjálf! Það versta af öllu er að neyslusamfélagið keyrir á fullri ferð með börnin okkar í framsætinu sem drekka í sig neyslusýkina með móðurmjólkinni. Flest erum við sek í þessu að einhverju leyti.

Nýleg auglýsing frá Símanum lýsir þessu vel þar sem félagsleg staða einhvers stráks er í stórhættu af því hann tilheyrir ekki "Ring vinahópnum", hann er sökker, sem getur ekki haldið munnvatninu inni í munninum... Eru svona skilaboð heilbrigð börnum og unglingum? Ef þú kaupir ekki af okkur þá ertu útskúfaður, öðruvísi, eineltismatur... Ég sé a.m.k. margt þessari auglýsingu til vansa. Eitt sem nefna má er það að hún birtir þá ímynd að fólk sem getur ekki stjórnað munnvatni sínu séu "sökkerar". Staðreyndin er sú að það er ekki staða sem fólk velur sér en getur þó engu að síður verið í. Það á ekki að hafa neitt með félagslega stöðu að gera, hvort viðkomandi sé í klíkunni, eða skipti við Símann eða ekki.

Það sem mér þótti sláandi í þættinum var að sjá hvernig við Vesturlandabúar erum að tryllast í neyslunni á kostnað alls heimsins. Við kaupum stanslaust nýjan varning þó sá sem fyrir er sé jafnvel í besta lagi. Hér á landi náði þessu einstaklingshyggju græðgisdýrkun hæstu hæðum árið 2007. Þá gekk einstaklingshyggjan svo langt að varla var hægt að fá stæði á Reykjavíkurflugvelli fyrir allar einkaþoturnar... Það segir sig sjálft að svona lifnaðarhættir geta ekki gengið endalaust og munu á endanum ganga af okkur og jörðinni okkar dauðum.

Við verðum að nota okkar miklu greind til þess að hugsa út fyrir eigin þrönga græðgishyggju neyslukassann. Þurfum við að byggja 700 fermetra hús fyrir 7 manna fjölskyldu? Þurfum við 5 bíla? Þurfum við að endurnýja gemsann um leið og ný tækni kemur á markað? Getum við sparað vatnið í stað þess að láta það renna til að "hita sturtuna"? Getum við skipt út glóperunum í sparperur? Getum við endurunnið meira? Getum við skipt út hlutunum þegar þeir eru í alvöru úr sér gengnir en ekki bara til að elta nágrannann, sjónvarpið, hvern sem er í lífsgæðakapphlaupinu? Þurfum við að ferðast um í einkaþotu? Byggir sjálfsmyndin okkar á því? Hvað er þá eftir ef öll orkan fer í að sanna sig með umbúðum? Brotin sjálfsmynd og tómt innihald?

Við þurfum að fara tilbaka í það sem fjallað var um í þættinum - SAMVINNU. Í sameiningu höfum við komist af í þessum heimi og gert kraftaverk. Sömu kraftaverkin og eru að steypa okkur til glötunar núna. Við getum undo-að þau með því að snúa af þessari óheillabraut til betri lífshátta. Íslendingar hafa með samvinnu komist af á þessu harðbýla landi og byggt hér upp glæsilegt samfélag. Samfélag sem hrundi svo 2008 vegna þess að sumir gátu ekki stoppað í neyslu- og einstaklingshyggjunni. Ekkert var nógu stórt. Ekki einu sinni hálfur heimurinn. Það er ekkert þak á stjórnlausri neyslu. Ekki þangað til allt hrynur. Hagkerfið getur ekki endalaust þanist út bara til þess að við getum neytt meira og slegið meira um okkur. Á kostnað náttúrunnar og auðlindanna. Á kostnað annarra jarðarbúa sem eiga ekki aðgang að neysluhlaðborði Vesturlanda.

Hvenær er nóg, nóg? Erum við komin þangað?


mbl.is Ísland af lista yfir áhættusömustu hagkerfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldasamstaða kvenna

Ákvað að birta þessa góðu grein hérna sem birtist í Fréttablaðinu í gær og einnig á www.visir.is  

Fréttablaðið, 19. jún. 2010 06:00

Fjöldasamstaða kvenna

Jafnréttismál
Bryndís Bjarnarson 
verkefnisstýra 
Guðrún Jónsdóttir
stjórnarformaður Skottanna
Jafnréttismál Bryndís Bjarnarson verkefnisstýra Guðrún Jónsdóttir stjórnarformaður Skottanna

Í tilefni þess að 35 ár eru liðin frá fyrsta kvennafrídeginum, stofnaði kvennahreyfingin ný regnhlífarsamtök Skotturnar sem hafa það hlutverk að halda utan um 24. okóber í ár. Undirbúningur hefur staðið yfir frá því í október. Þess má geta að Skottur voru kvendraugar sem gjarnan gengu í rauðum sokkum og erfitt var að kveða þær niður.

Að Skottunum standa 15 kvennasamtök, bæði þau stærstu, elstu, róttækustu og nýjustu. Þau eru Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindasamband Íslands, Samtök um kvennaathvarf, Feministafélag Íslands, Stígamót, Zontasamband Íslands, Kvennaráðgjöfin, Bríet félag ungra feminista, Unifem, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Landsamband Soroptimista, Sólstafir á Vestfjörðum, Aflið frá Akureyri, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og V- dagssamtökin. Auk þess eru Kvennasögusafnið, Rannsóknarstofa í kvenna og kynjafræðum og Jafnréttisstofa í nánu samstarfi við Skotturnar. Innan samtakanna eru yfir 10 þúsund konur og algjör einhugur ríkir um áherslurnar í ár. Verndari Kvennafrídagsins 2010 er frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands.

Samstaða íslenskra kvenna þann 24. okt. 1975 vakti heimsathygli. Það sama má segja um 24. okt. árið 1985 og síðast árið 2005. Hvergi annars staðar virðast konur hafa náð annarri eins samstöðu um kjör sín og stöðu.

Þessir dagar voru hver með sínu sniði og litu margar konur svo á að þær færu í verkfall en aðrar tóku sér frí. Árin 1975 og 1985 lögðu konur niður störf þennan dag. Árið 1985 var haldin umfangsmikil sýning á störfum undir yfirskriftinni „Kvennasmiðjan" og 24. október árið 2005 ákváðu konur að vinna fyrir sanngjörnum launum og gátu því gengið út af vinnustöðunum sínum kl. kl.14.08. Um 50.000 konur og margir karlar fylltu götur miðbæjarins þann dag.

Þetta ætlum við að endurtaka í ár, en jafnframt ætla konur að helga daginn baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Boðið verður til alþjóðlegar ráðstefnu þann 24. október og fjöldaaðgerða þann 25. október undir yfirskrifinni: „ Konur gegn kynbundnu ofbeldi".



Ofbeldi

Fjöldasamstaða kvenna

Enn er ofbeldi karla gegn konum ljótasti bletturinn á jafnréttisríkinu Íslandi. Fulltrúar allra kvennasamtakana hafa einróma samþykkt að sameinast í kröfunni um að Ísland standi undir nafni sem réttarríki - líka fyrir konur og börn sem beitt hafa verið kynferðisofbeldi. Minnt skal á að á tíu ára tímabili (1997-2006) féllu í héraðsdómum að meðaltali innan við 5 nauðgunardómar á ári og í Hæstarétti innan við 3 nauðgunardómar á ári. Á sama tíma fengust Stígamót og Neyðarmóttaka vegna nauðgana við 200-300 nauðganir hvert ár og vitað er að fjöldi kvenna sótti ekki hjálp.
Skotturnar leggja áherslu á vitundarvakningu og fræðslu um ofbeldi. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann hefur hrundið af stað verkefninu „Öðlingurinn" þar sem hún selur bókina sína „Á mannamáli" til styrktar verkefninu. Hægt er að kaupa bókina á síðunni www.odlingurinn.is .



Alþjóðleg ráðstefna

Alþjóðlega ráðstefnu á að halda 24. október um ofbeldi gegn konum. Heiðursgestur verður Rashida Mansjoo, umboðskona Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn konum. Auk hennar hefur fjölmörgum virtum baráttu- og fræðikonum verið boðið. Dómsmálaráðherra Noregs Knut Storberget hefur einnig þegið boð um að koma á alþjóðlegu ráðstefnuna. Hann er í hópi 10 karlleiðtoga í heiminum sem Ban Ki-moon stofnaði til og skuldbinda sig til að setja ofbeldi gegn konum í forgang.
Konur um allt land leggja niður störf kl. 14.25, þann 25. okt.
Árið 2005 voru konur með 63.5% af heildartekjum karla. Miðað við það höfðu þær lagt fram réttlátt vinnuframlag kl. 14.08 það ár. Nýjustu tölur sýna að konur hafa 65.65% af tekjum karla og geta því með góðri samvisku lagt niður störf kl. 14.25 þann 25. október næst komandi og það er einmitt það sem við ætlum að gera.
Okkur miðar í rétta átt, en á síðustu fimm árum hefur bilið minnkað um aðeins 2.15%. Ef ekki verður frekar að gert þurfum við að bíða í 46 ár eftir því að heildartekjur karla og kvenna verði þær sömu. Konur hafa ekki hugsað sér að setjast með hendur í skauti og bíða, heldur gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að leiðrétta kjör sín. Jafnframt munu þær sameinast í kröfunni um afnám ofbeldis.
Mikill baráttuhugur er í konum og undirbúningshópar eru að störfum. Má nefna öflugan hóp listakvenna sem hafa ótal hugmyndir um aðgerðir. Þær sem hafa áhuga á að koma að deginum með uppákomum eða sjálfboðavinnu eru beðnar að hafa samband við kvennafri@gmail.com og heimasíða samtakanna er www.kvennafri.is Verkefnið verður kynnt opinberlega í Ráðhúsinu á 95 ára afmæli kosningaréttar kvenna, þann 19. júní kl. 16 - 18.


Ungt framsóknarfólk ályktar um stöðu námsmanna

Innlent | mbl.is | 18.6.2010 | 11:46

Hafa áhyggjur af stöðu námsmanna

Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna lýsir yfir áhyggjum af stöðu íslenskra námsmanna nú þegar til standi að auka enn álögur á þá og skerða framlög til menntamála. Stjórn SUF leggur til að áhersla verði lögð á heildstæðari sparnaðarleiðir s.s. sameiningu eða samstarf háskóla.

Þá er skorað á ríkisstjórnina að koma í veg fyrir að þeir nemendur sem verst sé staddir fjárhagslega og hafi þurft að grípa til úttektar á séreignarlífeyrissparnaði verði ekki fyrir skerðingu á grunnframfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Þetta kemur fram í ályktun SUF, sem er svohljóðandi:

„Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna (SUF) lýsir yfir þungum áhyggjum yfir stöðu námsmanna á Íslandi. Ljóst er að sú niðurskurðarkrafa, sem lögð er á fjárframlög til menntamála á vegum ríkisins, kemur til með að draga úr þjónustu og gæðum náms. Stjórn SUF telur ekki rétt að auka enn frekar álögur á námsmenn til dæmis með hækkun skólagjalda, innritunargjalda og annars kostnaðar enda eru kjör námsmanna frekar naum í dag. Frekar ætti að skoða heildstæðari leiðir svo sem með sameiningu eða nánara samstarfi menntastofnana til dæmis háskóla.

Alþingi ákvað á síðasta ári að létta undir með námsmönnum og auka um leið tekjur ríkissjóðs með því að opna á útgreiðslur séreignarlífeyrissparnaðar. Ljóst er að nemendur, sem eiga grunnframfærslu sína að mestu undir Lánasjóði íslenskra námsmanna, fá nú skert lán vegna tekjutengingar námslána eftir að hafa nýtt sér útgreiðslu þessa sparnaðar.

Framtíðaruppbygging lands og þjóðar byggist meðal annars á herðum þeirra sem sækja sér háskólamenntun. Því skorar stjórn SUF á stjórnvöld að tryggja að þeir nemendur, sem verst eru settir og hafa þurft að grípa til úttektar á séreignarlífeyrissparnaði, verði ekki fyrir skerðingu á grunnframfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Taka þarf saman höndum og tryggja að aðgerðir ríkisins hafi ekki öfug áhrif.“


Til hamingju með daginn Íslendingar!

Kæru lesendur!

Innilegar hamingjuóskir með þjóðhátíðardaginn :)

isl_faninn

Við erum Íslendingar. Það gerir okkur einstök í mannmergð alheimsins. Við erum ekki stórþjóð, við erum ekki fjölmenn en við erum engu að síðar þrælmögnuð, við þesssi uþb. 317.000 sem eigum þetta magnaða land undir fótum okkar. Við erum ein ríkasta þjóð heims að mínu mati. Við sitjum á þvílíkum gullkistum til framtíðar sem vel þarf að fara með. Við búum við mikla og dýrmæta sérstöðu. Við eigum svo mikla náttúrufegurð, svo gjöfult land í orðsins fyllstu merkingu, merkilega sögu, menningu og okkar ylhýra. Við erum komin af fólki sem getur harkað af sér ótrúlegar raunir og höfum farið úr moldarkofum í háþróað samfélag á örskömmum tíma. Við erum harðger víkingaþjóð með öllum okkar kostum og löstum!

Þetta þurfum við að hafa verulega í huga á næstu misserum á válegum tímum þegar þrengir að okkur. Við megum ekki falla í þá algengu gryfju að kasta krónunni fyrir aurinn. Við þurfum að gæta okkar á stórveldum sem horfa girndaraugum á auðlindir okkar, hnattræna sérstöðu og horfa til lengri framtíðar en kannski margir aðrir og gera sér vel grein fyrir því hvað við erum fámenn. Nóg um það.

Það var svo gaman að rölta um miðbæ Reykjavíkur í dag og fylgjast með öllu þessu stórkostlega mannlífi sem iðaði um strætin. Aldrei hef ég tekið eftir eins miklum margbreytileika í okkar samfélagi. Mér fannst einnig eins og það væri hægt að skynja ákveðinn létti í fólki. Kannski vegna tíðinda gærdagsins um að myntkörfulán hafi verið dæmd ólögleg, kannski vegna hátíðarinnar og kannski vegna þess að nú er sólin hæst á lofti og þá erum við í essinu okkar :). Amk. ég ;). Kannski þetta allt! Svo er alltaf jafn notalegt að hitta fólk sem maður hefur ekki hitt í langan tíma. Á Íslandi er maður aldrei einn í mannmergðinni.

Ég veitti því þó athygli að mér fannst bera aðeins á unglingum sem voru hálftættir á að sjá. Kannski eru erfiðleikar undanfarinna missera farnir að marka sín spor í unglingana. Það er eitt af því sem ég og margir aðrir hafa haft áhyggjur af. Þennan hóp og ekki síður börnin þarf að standa rækilega vörð um næstu árin, ekki síst á meðan við erum að rétta úr kútnum. Það er óþarfi að skaðinn verði meiri en nú er orðinn. Ekki má spara þar sem í raun á að fjárfesta.

Vona þið hafið öll notið dagsins með bros á vör í góðra manna hópi og flaggað stolt okkar íslenska fána og notið þess að vera innan um okkur hin 317.000 sem erum í raun eins og ein stór fjölskylda, enda ekki fleiri en starfsmenn í meðalstóru fyrirtæki í Bandaríkjunum ;).


Ces´t la vie

 life

Þetta líf sem við lifum er alveg stórmerkilegt.

Við fæðumst ein inn í þennan heim og við yfirgefum hann ein. Í upphafi erum við algjörlega háð öðru fólki um bókstaflega allt, liggjum hjálparvana og sperrum útlimi hingað og þangað án þess að vírarnir séu allir orðnir tengdir þannig að hreyfingar verða ómarkvissar og fálmkenndar. Smám saman tengist betur og betur á köplunum og hinir ýmsu hlutir fara að gerast. Allt í einu fer maður að geta slegið í snuðið sitt, dótið og jafnvel ná góðu gripi á einu og öðru. Svona heldur lífið áfram með sífelldum framförum. Byggja upp og læra ýmsa stórmerkilega hluti sem snúa að því að vera manneskja. Prófa hversu mikið hægt er að stjórna þessu stóra fólki allt í kringum mann með ýmsum tilburðum. Prófa svo smám saman að feta sig sína eigin leið, allt frá fyrsta skrefinu.

Fara svo í gegnum unglingsárin eins og lítið trippi sem þarf að fá að reka sig á og þykir hreint ekki smart að hafa foreldrana innan ákveðins radars! Koma svo smám saman niður af trippinu og verða að fullorðnum einstaklingi sjálfur. Finna sér stað í þessari tilveru. Hver er ég? Hvert er mitt hlutverk í þessu stórbrotna samspili ljóss og skugga í lífinu sjálfu? Hvað ætla ég að skilja eftir mig? Hvert ætla ég og hvaða leið ætla ég að velja þangað. Lífið er hlaðborð þar sem flestir geta valið eitthvað við sitt hæfi. Hins vegar komum við misjafnlega útbúin út í þetta líf. Bakpokinn okkar er æði misjafn og sumir á hlaupaskóm en aðrir kannski bara á einum jafnfljótum.

Vinna svo vonandi í stóra lottói lífsins að eignast sína eigin ljósgeisla til þess að lýsa upp það sem eftir lifir ferðarinnar og fara yfir á næsta stig hins mikla þroska með því að kenna annarri mannveru sem þú elskar meira en lífið sjálft hvernig það á að fóta sig í þessum heimi sem þú ert búin að læra nokkuð vel á. Fá jafnvel fleiri lottóvinninga og skemmtilega samferðamenn.

Færa sig svo smám saman af hlaupabrautinni og hægja á hlaupunum, enga spretti lengur. Fylgjast með gersemunum þínum á brautinni en velta vöngum á sama tíma yfir þínu eigin lífshlaupi. Njóta ávaxtanna af öllu sem þú hefur sáð, stritað fyrir og lært í þessu magnaða hlutverki sem þú hinn mikli þátttakandi lífsins. Finna svo smám saman hvernig hringurinn nálgast það að lokast og á endanum ertu kominn þangað sem þú hófst allt fjörið.

Þetta er mikil ferð.

Hver einasta mínúta af henni er dýrmætari en allt efnislegt sem þú átt.

Farðu vel með hana, njóttu hennar algjörlega.

Taktu Pál Óskar til fyrirmyndar og passaðu vel upp á að á hverjum sólarhring fáir þú nægan svefn, hreyfir þig og sinnir andlegum málefnum. Það er lykillinn að því að allt annað gangi upp. Ég vil bæta við að minna á að borða hollt fæði og eyða tíma reglulega með því fólki sem skiptir þig máli.

Vandaðu vel leiðirnar þínar, vertu ávallt tilbúinn að skoða kortið og breyta ferðaplönum sé landslagið annað en þú áttir von á. Ekki missa af bestu leiðunum fyrir þig.

Vandaðu valið á samferðamönnum.

It´s the journey, not the destination. Njóttu ferðarinnar, njóttu þess að spretta úr spori á köflum en staldra algjörlega við í kyrrðinni á öðrum tímum.

Og umfram allt, þakkaðu fyrir það á hverjum degi að hafa fengið það stórkostlega tækifæri að fá þetta líf að gjöf.

 


Ályktun frá Hagsmunasamtökum heimilanna í aðdraganda þinghlés

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vill benda á að fullyrðingar forsætisráðherra um að aðgerðir stjórnvalda hafi bjargað þúsundum heimila frá gjaldþroti, standast ekki skoðun. Þrátt fyrir þá staðreynd að fjármálastofnanir hafa í stórum stíl haldið að sér höndum með aðfarargerðir liggja fyrir þúsundir nauðungarsölubeiðna hjá sýslumönnum.

Ástandið versnar með degi hverjum og því lengur sem beðið er með alvöru aðgerðir því erfiðara verður að greiða úr flækjunni. Þær upplýsingar sem hafa borist HH síðastliðið ár auk nýrra upplýsinga frá Creditinfo gefa ekki tilefni til að fagna árangri hjá stjórnvöldum.
Þverpólitískur hópur alþingismanna og fjöldi einstaklinga og félagasamtaka auk Hagsmunasamtaka heimilanna hafa reynt að fá valdhafa til að takast á hendur alvöru aðgerðir fyrir heimilin. Fyrir þinginu hafa legið frumvörp mánuðum saman sem miðast við að taka af festu á þessum málum, rétta stöðu heimilanna og bæta réttarstöðu og möguleika þeirra sem þrátt fyrir aðrar aðgerðir verður ekki bjargað frá fjárhagslegu þroti.

Þau brýnu frumvörp sem ekki hafa fengið afgreiðslu eru: Frumvarp um 4% þak á verðtryggingu, lyklafrumvarp, leiðrétting höfuðstóls lána, lög um gjaldþrotaskipti og fyrningu kröfuréttinda, lög um hópmálsóknir, lög um umboðsmann skuldara, lög um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, lög um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Mörg þessara mála hafa verið þæfð eða svæfð og þvælt um nánast allt milli himins og jarðar annað en það sem skiptir þorra heimila mestu máli. Yfirlýsing forsætisráðherra um ágæti aðgerða stjórnvalda er nýjasta fjöðurin í skrúðgöngu fáránleikans. Ef frá er talin skýrsla rannsóknarnefndar alþingis er verkefnum stundum beinlínis úthlutað óviðeigandi aðilum til upplýsingaöflunar og vinnslu. Þegar niðurstöðurnar koma seint og um síðir eru þær oft byggðar á ófullnægjandi eða úreldum gögnum, á röngum forsendum og í ofanálag eru þær jafnvel vísvitandi rangtúlkaðar til að fegra myndina í þágu ímyndar ríkisstjórnarinnar. Lítill áhugi virðist vera á að takast á við verkefnin sem niðurstöðurnar vísa á en þess í stað litið á niðurstöðurnar fyrst og fremst sem ímyndarvanda stjórnvalda.

Hafa þarf í huga að skuldastaða heimilanna er að mestu tilkomin vegna glórulausrar hollustu við kerfisbundnar verðbreytingar lána. Landsmönnum er nú gert að bera skuldir sem að mjög stórum hluta var í raun aldrei til stofnað. Kominn er tími til að stjórnvöld og fjármálakerfi taki ábyrgð og leiðrétti afleiðingar eigin reiknikúnsta með í það minnsta viðlíka mótvægiskúnstum.

Sterkar vísbendingar eru um að Hæstiréttur muni innan fárra daga taka af öll tvímæli um ólögmæti gengistryggingu lána í samræmi við vilja löggjafans í lögum 38/2001. Í ljósi áherslna stjórnvalda í gegn um tíðina telur stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna nokkrar líkur á að ríkisstjórnin muni í skjóli þinghlés, setja bráðabirgðalög til að koma í veg fyrir réttmæta leiðréttingu gengistryggðra lána. Hagsmunasamtök heimilanna skora á stjórnvöld að láta ekki undan þrýstingi fjármálaaðalsins en taka þess í stað stöðu með heimilunum. Samtökin vita sem er að áköll um leiðréttingu verðtryggðra lána munu verða háværar í kjölfarið. Það er þróun sem er löngu tímabær að mati samtakanna en yfir 80% landsmanna vilja afnám verðtryggingar samkvæmt könnun samtakanna á síðasta ári.

Drekking heimilanna í skuldafeni getur vart verið lausn á fjárhagsvanda ríkiskassans. Hættan er að þegar svo stór hluti heimila sekkur í dý skulda, dragist aðrir með sem áður töldu sig hólpna. Þegar allt kemur til alls er þetta ekki spurning um hvort leiðrétting fari fram heldur hvenær og hvernig. Stjórnvöld þurfa að velja þá leið á meðan þau ennþá geta, okkur öllum til heilla og framtíðar.

10. júní 2010
Stjórn HH

Öskuregn

Yfir íslenska þjóð rignir nú ösku. Maður finnur fyrir því í ógeðinu sem situr á sólstólunum úti á svölum og öskudroparnir þekja blómadúkinn á borðinu.

Þrýstingurinn í iðrum jarðar jókst, ójafnvægi myndaðist og upp úr sauð. Afleiðingarnar eru mörgum erfiðar. Þegar til lengri tíma er litið þá mun þó jarðvegurinn líklega standa eftir frjósamari og spennan hefur dvínað til muna. Menn hafa lært nýja hluti m.a. um áhrif öskuskýja á flugumferð. Eldgosi getum við ekki breytt, það bara gerist! Við þurfum bara að sópa öskunni út í jarðveginn og halda áfram.

Yfir okkur dynur nú annars konar öskuregn. Þrýstingur hafði myndast lengi, ýmislegt misgáfulegt var gert hér, mistök gerð og á endanum hrundi þjóðfélagið og upp úr gaus. Almenningur situr nú eftir og þarf að taka afleiðingum þessara hamfara hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við sem þjóð eigum við ramman reip að draga.

Það sem ég hef þó mestar áhyggjur af er það að í slíkum aðstæðum þá skuli hið mennska íslenska eðli virka þannig að fólk fari að rífast innbyrðis þegar harðnar á dalnum og bíta hausinn af hverju öðru, missa stjórn á sjálfu sér vegna tilfinninga í stað þess að sýna festu og vinna sameiginlega að því að leysa málin. Þetta hefur kristallast á Alþingi okkar frá hruni og í raun löngu fyrir þann tíma. Fólki hefur ekki tekist að hefja sig yfir eigin persónu, taka málefnalega rökræðu, finna það sem sameinar okkur og róa öllum árum að sameiginlegu markmiði sem væri best fyrir heildina. Menn steyta sífellt á skerjum eigin hagsmuna, eigin persónu og róa þaðan í hringi þar sem þeir hafa misst sjónar á hinum eiginlega tilgangi ferðarinnar.

Því miður þá glatast í slíku umhverfi tækifæri þess að læra nýja hluti, læra hvernig við getum gert hlutina betur og standa þá upp með frjósamari og betri jarðveg. Með slíku háttalagi komumst við ekki nær neinu markmiði og sitjum föst í skurði sem við gröfum okkar dýpra og dýpra í. Ég vona að við getum betur greint á milli þeirra hluta sem við getum stjórnað og hinna sem við getum ekki stjórnað, séð stóru myndina og unnið sameiginlega að farsælum lausnum sem eru heildinni til heilla.


Hvað skiptir þig mestu máli?

XB vor 2010(grein birt í Mosfellingi í dag)

Næstkomandi laugardag munt þú bæjarbúi góður ganga að kjörborðinu og kjósa þér nýja bæjarstjórn. Þitt atkvæði hefur áhrif á hvernig samfélagið þróast næstu fjögur árin.

Sveitarstjórnarmál snúast um nærsamfélag

Í því samhengi er ágætt að spyrja sig þeirrar spurningar hvað skiptir mestu máli? Er það fjölskyldan, velferð ættingja og vina, atvinnan, umhverfið, fellihýsið, jeppinn eða eitthvað allt annað? Það skiptir máli að næg atvinna sé til staðar því öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðarinnar. Það skiptir máli að í skólum og leikskólum séu gæði tryggð með því að leggja meiri áherslu á mannauð en steypu. Það skiptir máli hvernig stuðning þeir fá sem að glíma við atvinnuleysi eða aðrar afleiðingar þess hruns sem orðið hefur. Það skiptir máli að vandlega verði staðið að yfirfærslu málefna fatlaðs fólks og aldraðra. Það skiptir máli að öryggismál séu í lagi í bæjarfélaginu þannig að börnum stafi til dæmis ekki hætta af opnum byggingagrunnum sem eru minnisvarðar um samfélag sem fór fram úr sér og græðgishyggju. Það skiptir máli að umhverfið sé fallegt og að hver íbúi eigi sama aðgengi að þjónustu bæjarins.

Fagleg stjórnsýsla sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi

Það eru sérstakir tímar og sérstakar kosningar. Það er tími forgangsröðunar og sparnaðar. Núna eru tímar ferskra vinda, breytinga og tækifæri til þess að hugsa samfélagið okkar upp á nýtt. Eitt af því sem þarf að taka í gegn er hvernig stjórnsýslan virkar. Með því að ráða ópólitískan bæjarstjóra er strax stigið stórt skref að mínu mati í átt að faglegri og betri stjórnsýslu. Það þarf að aðgreina á milli valds kjörinna fulltrúa og framkvæmdarvaldsins. Einnig er mikilvægt að vinna þau samfélagslegu verkefni sem vinna þarf með samvinnuna að leiðarljósi. Bæta þarf aðkomu bæjarbúa að ákvörðunum. Leiðir að því markmiði eru til dæmis að auka upplýsingaflæðið með skýrum, aðgengilegum fundargerðum, með því að 25% íbúa bæjarins geti kallað eftir kosningu um hitamál og með því að kanna afstöðu bæjarbúa til stórra ákvarðana með reglulegum könnunum. Stjórnsýslan þarf að vinna faglega sem felst meðal annars í því að vinnan sé gagnsæ, skilvirk, leitað sé til viðeigandi sérfræðinga hverju sinni, virkt eftirlit sé, gott verklag, siðferði og hagsmunir heildarinnar ávallt hafðir að leiðarljósi. Framsóknarflokkurinn hefur fyrstu stjórnmálaflokka lagt drög að siðareglum sem flokksmönnum ber að fara eftir í störfum sínum.

Við viljum vinna fyrir þig! Frambjóðendur hafa víðtæka reynslu af ólíkum málaflokkum sem munu nýtast stjórnsýslu bæjarins vel en við leggjum einnig mikla áherslu á að þú getir haft áhrif á hvernig við vinnum og einnig að leitað verði til viðeigandi sérfræðinga þegar þörf er á til þess að skattfé þínu verði vel varið og Mosfellsbær samfélag sem öllum bæjarbúum líður vel í.

Ég hvet þig til þess að setja X við B á laugardag og kjósa Breytingar!

Kristbjörg Þórisdóttir, skipar 12. sæti á lista Framsóknar


mbl.is Spurningar úr sal ekki leyfðar á framboðsfundi í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifærið er núna!

Fréttablaðið, 27. maí. 2010 10:23

(birtist einnig í Morgunblaðinu föstudaginn 28.5.2010)

Kristbjörg Þórisdóttir: Tækifærið er núna!

Kristbjörg Þórisdóttir: Tækifærið er núna!

Kristbjörg Þórisdóttir skrifar:

Þann 1. janúar 2011 verða málefni fatlaðra flutt yfir til sveitarfélaganna. Við það skapast langþráð tækifæri til breytinga. Í raun má segja að tíminn núna sé ekki ósvipaður þeim tímapunkti þegar altækar stofnanir voru lagðar niður að mestu og sambýli reist víðs vegar um samfélagið. Nýir tímar kalla á nýja hugmyndafræði og aðrar lausnir. Fatlað fólk á sama rétt og annað fólk á því að lifa eðlilegu og góðu lífi og blómstra í samfélaginu. Þessi réttindi eru tryggð í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem undirritaður var af fulltrúm Íslands þann 30. mars 2007.

Samningurinn um réttindi fatlaðs fólks (Convention on the rights of persons with disabilites) er tímamótaskref að réttlátara samfélagi. Nýverið kynnti félagsmálaráðherra á fundi ríkisstjórnarinnar þá fyrirætlun að fullgilda samninginn. Meðal annars þarf að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðra nr.59/1992 og er lagt til að þau muni þá nefnast lög um réttindi fatlaðs fólks auk ýmissa annarra lagabreytinga.

Notendastýrð persónuleg aðstoð

Eitt af því sem þarf að festa í lög eru lög um Notendastýrða Persónulega Aðstoð (NPA) sem fjallar í stuttu máli um það að fatlaðir einstaklingar eigi rétt á því að stjórna lífi sínu sjálfir þrátt fyrir þörfina fyrir aðstoð annarra. Með þessari aðferð er verið að tryggja að fólk fái þá aðstoð sem það þarf á hverjum tímapunkti en ekki staðlaða þjónustu sem oft er dýr og nýtist kannski illa. Þennan rétt má tryggja með því að veita fötluðu fólki kost á því að ráða sér aðstoðarfólk sjálft í stað þess að þurfa að búa á ákveðnum stað þar sem veitt er þjónusta sem það skipuleggur ekki sjálft.

Stoðþjónustan er þannig skilin frá búsetunni. Viðkomandi einstaklingur gæti stofnað samvinnufélag um þjónustuna sem hann er eigandi að og rekur. Fjármagnið fer þá beint til samvinnufélagsins og fylgir einstaklingnum. Þeir notendur sem geta ekki haldið utan um félagið sjálfir gætu haft umboðsmann sem sér um það og dæmi er um slíkt hér á landi. Foreldrar gætu einnig mögulega séð um verkefnið fyrir hönd barna sinna til 18 ára aldurs. Tilraunaverkefni um þetta fyrirkomulag hafa sýnt fram á að kostnaður er svipaður þeim sem væri af hefðbundinni þjónustu í tilvikum þar sem um mikla þjónustuþörf er að ræða. Nú þegar liggur fyrir tillaga til þingsályktunar sem lögð var fyrir á yfirstandandi þingi og er fyrsti flutningsmaður hennar Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknar. Aðrir flutningsmenn eru Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þuríður Backman, Margrét Tryggvadóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Ísland er eina landið af Norðurlöndunum sem ekki hefur sett lög um NPA en slík lög voru samþykkt 1993 í Svíþjóð og tóku gildi 1994 (1002/93:159 Lag om assistansersattning). Þau hafa verið hinum Norðurlöndunum fyrirmynd og eru oft nefnd LASS lögin.

Við yfirfærslu málefna fatlaðra skapast tækifæri til þess að endurskoða allt kerfið í heild sinni með samþættingu við félagsþjónustukerfi sveitarfélaganna. Ég hvet því verðandi sveitarstjórnarmenn að kynna sér vel þessi málefni og veita þeim brautargengi á næsta ári. Þannig er stigið stórt skref að því að tryggja fötluðu fólki það líf sem flestir telja sjálfsagt og á að vera tryggt okkur öllum samkvæmt mannréttindasáttmálum og lögum.

Höfundur skipar 12. sæti Framsóknar í Mosfellsbæ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband