Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 27. maí 2010
Þú meinar, Einar!
Einar Skúlason hefur þann nýja ferskleika sem einkennir Framsókn. Hann er mikill samvinnumaður, maður sátta og ég tel hann vera einstakling sem getur virkilega bætt samfélagið. Hann hefur góða reynslu af málefnum nýrra Íslendinga eftir farsæl störf sín í Alþjóðahúsinu. Þar sem maður hefur séð til hans vinna þá er hann hugmyndaríkur, tilbúinn að hugsa út fyrir boxið og leita sér aðstoðar í þeim málum sem hann þekkir ekki nógu vel. Enginn stjórnmálamaður getur verið sérfræðingur í öllu en góður stjórnmálamaður kann að leita sér upplýsinga til sérfræðinga og hefur tvö eyru og einn munn :).
Mér fannst það strax sýna nýja og flotta hugsun að hefja kosningabaráttuna á því að stinga sér í ískaldan sjóinn og synda talsvert langa vegalengd á mettíma til þess að safna fé í kosningasjóð. Mun meira 2010 heldur en að fá milljónir í styrki frá einkaaðilum eða fyrirtækjum. Svo ég tali nú ekki um að hengja þetta ógleymanlega slagorð upp á svalirnar... Þú meinar Einar!
Hvet alla til þess að setja X við B á laugardag!
Mikið getur gerst fram að kjördegi" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. maí 2010
Veist þú hvað gerist 1. janúar 2011?
Nýtt tækifæri en einnig áskorun
Verkefnið felur í sér nýjar áskoranir og vissa ógn. Það augljósasta er skortur á nægu fjármagni. Jöfnunaraðgerðir til að koma til móts við misstöndug sveitarfélög eru grunnur þess að reikningsdæmið gangi upp. Það þarf að tryggja raunverulegt búsetufrelsi þeirra einstaklinga sem nota þessa þjónustu þannig að fólk eigi hvarvetna trygga skilgreinda grunnþjónustu, hvar sem það vill búa. Í raun á þessi þjónusta við fatlað fólk ekki að vera á neinn hátt öðruvísi en til dæmis þjónusta skólakerfisins þar sem börn geta gengið að því vísu hvar sem þau búa á landinu að kennt sé eftir ákveðinni námsskrá. Einnig þarf að tryggja eftirlit með þjónustunni af öðrum en þeim sem veitir hana og ber ábyrgð á henni. Að auki þarf að gæta þess að sá mannauður sem hefur vaxið í þessum málaflokki og sú þekking sem orðið hefur til glatist ekki eða rýrist. Að lokum er mikilvægt að starfsfólk sveitarfélaganna eigi kost á endurmenntun til að setja sig inn í málin.
Samvinna allra er nauðsynleg
Til þess að vel takist til er ljóst að allir aðilar þurfa að vera í sama bátnum og róa í sömu átt. Notendur, aðstandendur, hagsmunasamtök, starfsfólk, embættismenn, stjórnmálamenn, fræðafólk og aðrir þurfa að koma að verkefninu í samstarfi. Með samvinnu þessara ólíku hópa mun verkefnið verða öllum til heilla og hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Skýr endurskoðunarákvæði þurfa að vera í samningum bæði hvað varðar tekjustofninn en ekki síður þarf að þróa og endurskoða hugmyndafræðina. Fundir til skrafs og ráðagerða eru mikilvægir til að fá fram ólík sjónarmið og skiptast á upplýsingum.
Fundur með Þroskahjálp
Þann 8. apríl s.l. áttum við góðan fund með Gerði A. Árnadóttur og Friðriki Sigurðssyni hjá Þroskahjálp þar sem þau kynntu áhugasömu flokksfólki og frambjóðendum okkar nýsamþykkta aðgerðaráætlun samtakanna varðandi yfirfærsluna. Góðar umræður sköpuðust á fundinum og skapaðist þar andrúmsloft samvinnu og jákvæðni sem ég vona að verði áberandi við þetta mikilvæga verkefni.
Kristbjörg Þórisdóttir, Cand.psych nemi, varaformaður Landssambands Framsóknarkvenna og frambjóðandi í 12.sæti listans
(birt í Mosfellsfréttum 25.4.2010)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. maí 2010
Opinn fundur með Sigmundi Davíð í Mosfellsbæ
Opinn stjórnmálafundur í Listasalnum Þverholti 2 kl. 20:00 þriðjudagskvöldið 18. maí.
Horfum til framtíðar: Breytt stjórnmál, framtíðarlausnir fyrir heimili og atvinnulíf
Allir velkomnir!
Hlökkum til að sjá þig :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 10. maí 2010
Thank you
Thaaaaank you
thank you for the life
for making me see inside of me.
Svona hljómar Dikta í lagi sem heillar mig þessa dagana.
Ekki síst þegar afmælisdagur hefur runnið sitt skeið. Þá er rétt að vera þakklátur fyrir að hafa fengið enn einn afmælisdaginn og horfa svo fram á nýtt upphaf, sólarupprás. Ákveðnum kafla er lokað og nýr dagur er risinn.
Það er margt sem ég er þakklát fyrir.
Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að njóta árs í viðbót því ekki veit maður hversu lengi maður á bókað herbergi á Hótel Jörð. Af öllu því unga fólki sem ég hef kvatt sem fékk ekki langan tíma hér geri ég mér grein fyrir því að það er langt frá því sjálfsagt að fá fullan tíma hér.
Ég er þakklát fyrir fólkið mitt sem umlykur mig, fjölskyldu, vini og kunningja. Það er magnað hvað fólk man vel eftir manni og er indælt að senda fallega kveðju. Fyrir það ber að þakka.
Ég er líka þakklát fyrir þann lærdóm sem ég er alltaf að njóta. Með hverju árinu verð ég vitrari. Á hverju ári hef ég rekist á nýtt fólk, nýja hluti, nýjar hindranir og nýjar áskoranir. Sú stærsta er ég sjálf. Það er hin mesta lexía að verða útlærður í sjálfum sér. Og það er líka sá lærdómur sem mun gefa manni mest í aðra hönd. Það er mín skoðun. Því betur sem maður þekkir sjálfan sig því betri manneskja verður maður og því betra líf getur maður veitt sjálfum sér, öðrum og lagt til betri heims fyrir okkur öll.
Þannig að:
Takk fyrir,
takk fyrir lífið,
takk fyrir að leyfa mér að sjá minn innri mann.
Og munið...
Hamingjan er ferðalag, ekki áfangastaður.
Sinntu starfi þínu eins og þú þarfnist ekki peninga.
Elskaðu eins og þú hafir aldrei verið særð/ur.
Dansaðu eins og enginn sjái til þín.
(Höfundur óþekktur)
Knús frá afmælisbarninu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 6. maí 2010
Mig svíður
Mig sveið í hjartað að sjá viðtalið við 2 menn á Rúv í gær sem höfðu verið að glíma við atvinnuleysi í 12 og 15 mánuði.
Mér þótti verulega sárt að sjá þá vanlíðan sem skein úr augum þeirra. Menn sem hafa unnið frá 13 ára aldri og staðið sína vakt og þurfa svo að horfa upp á það núna þegar fer að hilla undir lok starfsævinnar að missa vinnuna og eiga erfitt með að sjá fram á nýja atvinnu.
Þetta svíður og þetta voru aðeins 2 einstaklingar af þeim 17.000 sem eru í svipuðum sporum. Bakvið hvern einstakling liggur lífshlaup, lífsbarátta og atvinnuferill. Bakvið hvern einasta einstakling er fjölskylda, vinir og ættingjar.
Það hlýtur að vera erfitt að vera í þessum sporum hafi maður tengt stóran hluta af sjálfsmynd sinni þeirri atvinnu sem maður stundar. Þá hrynur um leið hluti sjálfsvirðingarinnar þegar atvinnan fer.
Atvinnuleysi er böl og það er STÆRSTA verkefni næstu ára að byggja upp öll möguleg og ómöguleg atvinnutækifæri til þess að geta skapað hér aðstæður sem fólk getur blómstrað í.
Þannig getum við haldið uppi velferðarkerfi okkar sem hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og einmitt þessa dagana. Þetta sama kerfi þarf að grípa þá sem eiga um sárt að binda og tryggja þeim þjónustu til þess að takast á við missi sinn, áfall og sorg.
Nauðsynlegt er að fyrirbyggja að atvinnumissir verði að heilsumissi í kjölfarið. Eitt af því sem skiptir máli er að fólki standi til boða stuðningur eins og t.d. sálfræðiþjónusta. Einnig þarf að byggja upp virkniprógrömm þannig að fólk lendi ekki í vítahring aðgerðaleysis og þunglyndis en eftir því sem atvinnuleysið varir lengur aukast líkur á slíkum slæmum afleiðingum.
Þriðjudagur, 4. maí 2010
Hvað þarf til?
Hvað þarf til að sannfæra stjórnvöld hér á landi um mikilvægi þess að almenningur eigi greiðan aðgang að þjónustu sálfræðinga?
Sálfræðingar eru sérmenntaðir í því að hjálpa fólki að takast á við þunglyndi, kvíða, streitu og ýmsar aðrar raskanir sem meðal annars geta leitt til örorku og mikillar vanlíðan. Sálfræðimeðferð er meðferðarform sem því miður hefur verið vannýtt auðlind hér á landi fólki til heilla.
Ef ég veikist af "geðkvefi" þeas. vægu þunglyndi eða kvíða til dæmis þá þarf ég annað hvort að fara á stofu og greiða úr eigin vasa meðferð sálfræðings eða leita á geðdeild Landsspítala sem á fyrst og fremst að þjóna veikara fólki.
Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur þeirra sem leita sér aðstoðar á heilsugæslu koma þangað vegna tilfinningalegs vanda.
Af hverju get ég leitað á mína heilsugæslu ef ég er með flensu eða bakverk en ekki ef ég finn fyrir þunglyndi eða kvíða?
Af hverju á ég ekki val á mili ólíkra meðferðarleiða eins og t.d. lyfja og hugrænnar atferlismeðferðar þegar báðar leiðir hafa gefið jafngóðan árangur og HAM meðferð oft betri þar sem líkur á hrösun eru minni. Því miður virka lyfin bara á meðan maður tekur þau en hugræn atferlismeðferð er þekking sem fólk öðlast og getur nýtt sem verkfæri um ókomna tíð. Kannski þarf lyf í upphafi til að koma fólki upp úr pyttinum en flestir eru sammála um það að meira þurfi til! Skoða þarf líf einstaklingsins í stærra samhengi, hvað maður hugsar, hvernig manni líður og hvað maður gerir sem viðheldur ástandinu!
Með því að bjóða upp á sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni mætti grípa fólk strax áður en veikindin ágerast og leiða til alvarlegri afleiðinga fyrir viðkomandi, vinnustaðinn, þjóðarbúið og fjölskylduna. Með því er einnig dregið úr fordómum þar sem jafn eðlilegt er að leita fyrst á heilsugæslu við andlegri sem líkamlegri vanlíðan. Séu veikindin alvarleg ætti svo að vera hægt að vísa málinu þaðan í viðeigandi farveg. Þetta myndi einnig draga úr álagi á Landsspítala og önnur sérhæfð úrræði sem kosta talsvert meira skattfé fyrir hvern sjúkling. Með minni geðlyfjanotkun mætti ná fram miklum sparnaði.
Í raun þyrfti aðeins örfáa til sem myndu fá bót meina sinna og ná aftur út á vinnumarkaðinn í stað þess að liggja inni á geðdeild og enda á örorku og geðlyfjum til þess að greiða upp þá fjárfestingu að niðurgreiða sálfræðimeðferð.
Því spyr ég, hvað þarf til að fólk átti sig á þessu og hrindi þessu í framkvæmd?
Þetta er þægilegra fyrir almenning, dregur úr líkum á að veikindi verði alvarleg, dregur úr líkum á dýru vinnutapi, eykur skilvirkni, einfaldar kerfið, SPARAR SKATTFÉ og svona mætti lengi telja!
Tími sálfræðinga er kominn!
Geðraskanir helsta skýring örorku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 15. apríl 2010
Líf
Líf, ljómi þinn svo skínandi skær
augu þín svo saklaus og tær
fegurri en nokkuð annað
áhrifin ótvíræð
ég svíf því ég á þetta líf.
Svona söng Stefán Hilmarsson um árið og lagið er djásn eins og svo margt annað sem frá honum hefur komið. Svona man ég amk. textann og ég man ekki betur en hann hafi samið það og veit amk. að hann söng það.
Þetta lag ómaði um í kollinum á mér á leiðinni heim eftir að sjá nýju prinsessuna í fjölskyldunni. Þvílík verðmæti að eiga svona lítið djásn. Þvílík verðmæti sem hvert einasta líf er.
Ég held að það sé mikilvægt að minna sig á tilfinninguna þegar maður sér hvítvoðung og muna hversu dýrmæt hver einasta manneskja (og aðrar lífverur auðvitað) eru. Þegar hallað hefur á verri hliðina, fólk hefur lent í erfiðleikum, neyslu, afbrotum eða öðru þá er mikilvægt að muna að slíkir einstaklingar eru líka fólk. Þetta er fólk sem lá í fanginu á foreldrum sínum og ástvinum sem horfðu á gullmolann sinn stoltust í heiminum. Hvert foreldri er eflaust tilbúið að berjast við allan heiminn og sigra allan heiminn bara fyrir litla ljósgeislann sinn. Þvílíkar væntingar og þvílík hamingja sem fylgir hverju einasta lífi. Þetta má bara ekki gleymast. Jafnvel þó fólk týni stundum sjálfu sér í erfiðleikum þá er grunnelementið það sama í okkur öllum og það er það sem litli saklausi yndislegi hvítvoðungurinn geislar framar öðrum af.
Þegar fólk hefur farið rangan veg og á jafnvel engan að þá má ekki gleymast að þessir einstaklingar voru einu sinni elskaðir útaf lífinu og þeir búa líka yfir færni til þess að elska, búa yfir kærleik og öllu því sem gerir okkur að manneskjum. Þetta á líka við um fólk sem hlýtur hroðaleg örlög eins og til dæmis það saklausa fólk sem bandarískir hermenn skutu af heigulskap niður af færi eins og þeir væru staddir í hverjum öðrum tölvuleik...
Við erum öll þetta stórkostlega kraftaverk sem ég upplifði í dag (og undanfarið því ég er svo heppin að það er nóg af litlum krílum í kringum mig). Við höfum hvert eitt og einasta burði til þess að upplifa allt tilfinningarófið, gera hið mögulega og ómögulega og vera bara hið einstaka undur sem við hvert og eitt erum. Og þegar líður á lífsbaráttuna þá erum við öll fyrst og fremst fólk sem fer í gegnum daginn sinn á mismikilli sjálfstýringu sem viljum skilja eftir okkur einhver afrek, finna hamingjuna, elska og vera elskuð. Við erum í grunninn bara nauðalík sama hvernig við lítum út, hvernig við erum á litinn, í laginu, hvernig umhverfið okkar er, rík eða fátæk, á réttri leið eða rangri leið, við erum manneskja. Manneskja sem fæddist í þennan heim og mun yfirgefa þennan heim.
Mig langaði að deila þessu kraftaverki dagsins með ykkur og hvetja ykkur til þess að hugsa ykkur um næst þegar ykkur mislíkar verulega við einhvern að muna eftir því að sú mannvera býr yfir 99% sömu eiginleikum og þið þrátt fyrir að vera kannski tímabundið á villigötum, hugsa á rangan hátt og bregðast vitlaust við oft vegna flókins vefs margslunginna atvika og aðstæðna. Það er á ábyrgð hvers og eins okkar að fara vel með þessa guðsgjöf sem við sjálf erum og hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama.
Ég veit að ég alhæfi í þessum pistli. Vissulega eru því miður til börn í þessum heimi sem fæðast ekki inn í umhverfi sem getur vart haldið niðri öndinni fyrir spenningi yfir komu þeirra. Börn sem búa við skelfilegar aðstæður og það er óhugsandi að ímynda sér hvernig hægt er að gera barni eitthvað. Barni sem er það saklausasta, hreinasta, fallegasta, bjargarlausasta og undursamlegasta sem við eigum.
Munum að meta hið undursamlega líf í okkur sjálfum, öllum í kringum okkur og síðast en ekki síst í því undursamlega sköpunarverki sem nýfæddur hvítvoðungur er :). Þvílíkt kraftaverk!!!
Þriðjudagur, 13. apríl 2010
Ljós í ruglinu
Jæja þá er hún komin eftir mikla eftirvæntingu, skýrslan sem flestir landsmenn hafa beðið eftir. Lengi vel hefur maður sagt að það verði að komast til botns í því hvað gerðist eiginlega til þess að hægt sé að hefja hér nýtt upphaf... Nú er sú stund runnin upp!
Við fyrstu sýn virðist skýrslan rækileg, vönduð og vel unnin og á rannsóknarnefndin og allir aðrir sem lagt hafa á sig ómælda vinnu heiður skilinn fyrir vinnuframlag sitt. Það sem maður hefur lesið í skýrslunni kemur svo sem fátt á óvart en hins vegar er gott að sjá þetta svart á hvítu, sett upp á skipulegan og málefnalegan hátt.
Nú liggur greining á meininu fyrir og þá er næsta skref að átta sig rækilega á greiningunni, vinna meðferðaráætlun og breyta ástandinu. Einhverjir þurfa að sæta ábyrgð, einhverjir munu verða dæmdir fyrir sakhæft athæfi. Regluverkið þarf að stórbæta og eftirlitið þarf að byggja upp nánast frá grunni. Hrokanum þarf að bola út og taka þarf upp vönduð og fagleg vinnubrögð í hvívetna.
Maður veit varla hvort maður eigi að hlæja eða gráta þegar maður áttar sig á sumum þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð eins og það að rita ekki fundargerðir á gríðarlega mikilvægum fundum og að viðeigandi ráðherra skuli ekki boðaður á fundi er varða hans ábyrgðarsvið. Lýsandi dæmi um að stjórnsýslan var á mörgum stöðum í tætlum. Ég hef starfað sem forstöðumaður á sambýli og þar voru ýmis stjórnsýsluleg vinnubrögð á talsvert hærra plani en því sem virðist hafa viðgengist í okkar æðstu embættum. Og margt af því sem kemur fram um bankana er í raun ofar því sem ég held að margir gætu ímyndað sér eða skrifað um í villtustu vísindaskáldsögum um fjárglæframenn!
Stærsta verkefnið næstu ár er að vinna að því að byggja á ný upp þann samfélagssáttmála og traust sem í okkar litla samfélagi hefur verið við lýði. Byggja upp heilbrigð viðhorf og gildismat. Samfélagið var orðið helsjúkt af öllu því rugli sem hér tröllreið öllu.
Meðferðin er því eins og aðrar meðferðir ekki einföld. Það er ekki nóg að gleypa bara eina pillu (a pill for every ill!) og vandinn hverfi eins og dögg fyrir sólu. Það þarf að ráðast í gagngerar breytingar frá grunni og nýta til þess mörg ólík verkfæri. Það kostar heilmikla vinnu.
En ég er ánægð með daginn. Ég tel íslensku þjóðina fá núna þá von sem vantaði um að það sé raunverulega hægt að gera eitthvað í málum okkar. Það er hægt að byrja að nýju eins og máltækið segir. Í dag er fyrsti dagur þess sem þú átt ólifað! Í dag er (vonandi) fyrsti dagur Nýs Íslands.
Til hamingju Ísland :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 11. apríl 2010
Kverkatak á heilli þjóð
Hvernig á almenningur á Íslandi að snúa sér þessa dagana?
Smám saman kemur æ betur og betur í ljós að nánast allt okkar efnahagslega kerfi var/er helsjúkt. Spillingin hefur loðað við í hverju horni, menn hafa svikið, stolið og logið. Almenningur hefur verið rændur í stórum stíl um hábjartan dag. Fyrirtækjum hefur verið rænt. Auðlindum okkar hefur verið rænt. Hér hafa þrifist viðbjóðslegir viðskiptahættir og starfsemi. Sama fólkið og líður fyrir ástandið þarf að taka skellinn. Borga brúsann. Borga fyrir 200 þúsund króna kampavínsflöskurnar sem keyptar voru án þess að hiksta og einkaflug á fjarlægar eyjar til þess að grafa íslenskar gullkistur í gylltum sandinum.
Hvers eigum við að gjalda sem búum hér á landi og viljum búa þar sem rætur okkar liggja og byggja hér heiðarlegt og gott samfélag. Hvernig á fólk að snúa sér þegar það reynir að taka ekki þátt í ruglinu en hreinlega getur það ekki vegna smæðar samfélagsins og leyndarinnar. Bara með því að komast úr landi í frí, bara með því að hringja eitt símtal, bara með því að kaupa í matinn þá gæti maður gert sig sekan um að styrkja fyrirtæki byggð á vafasömum útrásargrunni.
Verðum við að gera bara eins og hundarnir hans Seligman sem hættu að reyna að hoppa yfir rafstuðið heldur létu það bara yfir sig ganga? Lært úrræðaleysi í allri sinni mynd.
Er von til þess að hér geti orðið ALVÖRU uppgjör þar sem málin verða leidd til lykta, farið verði í algjöran uppskurð á öllu okkar kerfi, regluverki, eftirliti og svo verði vandlega gætt að hvernig fólk er ráðið í ábyrgðarstöður inn í kerfið?
Stundum trúi ég því, stundum efast ég og missi vonina.
Stærsta meinið sem þarf að vinna með í íslensku samfélagi er viðhorfið. Það þarf að snúa viðhorfi fólks frá því að meta aðra eftir raunverulegum verðleikum en ekki keyptum (jafnvel fyrir stolið fé). Það þarf að efla samvinnuviðhorfið þar sem við hjálpum hverju öðru eins og íbúar þessa lands hafa gert um örófir alda við það að komast af í sameiningu og öðlast hamingju. Það þarf að efla það viðhorf að það skipti meira máli hvað maður gerir heldur en hver maður er. Það þarf að hafa áhrif á viðhorfið um heiðarleika og gagnsæ vinnubrögð.
Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott. Ekki bara örfáir útvaldir. Við eigum að vera löngu komin frá því kerfi sem hér var við lýði þegar danskir einokunar kaupmenn héldu kverkataki á öllu hér. Undanfarið hafa þeir verið íslenskir og kenndir við útrás sem hafa haldið kverkataki á heilli þjóð. Því verður að breyta.
Sjáum til hvað gerist með útgáfu umtöluðustu skýrslu allra tíma.
Í skjóli leyndar þrífst spillingin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 9. apríl 2010
Frú Kemp í New York
Ég átti gott spjall við mjög mæta konu um það að hjálpa öðrum. Af hverju gerum við það að leggja heilmikið á okkur fyrir annað fólk án endurgjalds?
Hún sagði mér ansi góða dæmisögu. Svona hljómaði hún einhvern veginn. Það var skipstjóri sem sigldi skipinu sínu alveg upp í fjöru. Hann kom þar að konu og dóttur hennar sem voru hraktar og illa til reika. Hann bauð þeim upp í skipið, klæddi þær í hlý föt og gaf þeim að borða. Þær sigldu svo með honum heillanga leið. Þegar komið var að kveðjustund spurðu þær hann af hverju hann hafi lagt svona mikið á sig til þess að hjálpa sér. Hann sagði: "Ég gerði það vegna hennar frú Kemp í New York"! Ha, frú Kemp í New York, hvað áttu við? Jú, hún sagði mér að þegar maður hjálpar einhverjum þá hjálpar sá maður einhverjum öðrum og þannig gengur það koll af kolli þar til keðjan lokast og hjálpin kemur tilbaka til þín. Þá sagði konan: "Frú Kemp í New York er systir mín".
Mér finnst þetta alveg ótrúlega góð saga. Það er nefnilega málið að með því að leggja á sig óeigingjarna hjálpsemi þá hefur maður jákvæð áhrif sem skila sér margfalt tilbaka. Ótal dæmi eru um slíkt í sögunni þar sem fólk sem gengið hefur í gegnum einhvers konar erfiðleika eða erfiða lífsreynslu hjálpar öðrum sem lenda í hinu sama síðar meir.
Munum það að vera góð við hvert annað, hjálpa hverju öðru og styðja ekki síst þegar erfiðleikar steðja að. Hitt er svo reyndar annað mál að hjálpsemi getur farið úr böndunum, orðið að meðvirkni og ábyrgðin á erfiðleikunum færst yfir á þann sem er að hjálpa til frá þeim sem í raun á að bera hana. Það er ekki gagnlegt að verða svo hjálpsamur að það sé farið að kosta manns eigin velferð. Það er fínn línudans sem þarf að stíga. Maður þarf að muna að setja alltaf fyrst súrefnisgrímuna á sig áður en maður ætlar að hjálpa öðrum við það.
En hafið sögu skipstjórans góða í huga gott fólk og þá munum við virkilega vera til staðar fyrir hvert annað í þessu lífi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)