Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Laugardagur, 2. október 2010
Austurvöllur 1. október 2010 - Er það furða að fólk sé reitt?
Lesa mátti sorgina, vonleysið, örvæntinguna, reiðina, depurðina, vanmáttinn, kvíðann og ýmsar fleiri tilfinningar af andlitum margra þeirra sem stóðu á Austurvelli í dag.
Fólkið var ekki "bara skríll" sem mætti til þess að vera með læti að óþörfu. Þetta var fólk sem fundið hefur fyrir afleiðingum hrunsins á eigin skinni. Þetta er ein þeirra leiða sem almenningur hefur. Þær eru í raun ekki margar. Það er lýðræðislegur réttur fólks að láta í sér heyra þegar því er algjörlega misboðið. Auðvitað geta einhverjir farið yfir strikið en meginþorrinn gerir það ekki.
Í samfélagi þar sem fjölskyldu konu sem lést þann 26. mánaðar er gert að endurgreiða örorkubætur upp á 25.000 krónur sem lagðar voru inn þann sama dag og áttu að greiðast fyrir komandi mánuð? Í samfélagi þar sem fjölskylda annarrar látinnar konu er elt uppi af Tryggingastofnun vegna ofgreiddra 140.000 króna á sama tíma og sviknir hafa verið út milljarðar sem enginn virðist ná að elta uppi og almenningur þarf að borga? Er það furða að fólk slái í tunnur?
Í samfélagi þar sem starfandi eru 704 framkvæmdastjórar sem þrátt fyrir það hafa skráða búsetu erlendis amk. á pappírunum til að komast hjá auðlegðarsköttum. Fólk sem m.a. hefur efnast gríðarlega af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar en hefur fært ríkisfang sitt yfir hafið til þess að sleppa við að greiða skatta hér. Skatta af sviknum auðæfum. Er það furða að fólk sé reitt?
Í samfélagi þar sem 1100 fasteignir hafa verið seldar nauðungarsölu á árinu og fjárnám fara fram á heimilum fólks á hverjum degi, fyrirtæki eru sett í þrot á sama tíma og afskrifaðar eru 2.6. milljarðar af skuldum útvalinna sem hafa m.a. greitt sér rúmlega 600 millljónir í arð. Er það furða að fólk fyllist bræði?
Í samfélagi þar sem enginn axlar ábyrgð og samtrygging stjórnmálamanna lifir góðu lífi að mestu leyti er það furða að fólk fuðri upp og kveiki elda á Austurvelli?
Miðaldra kona sem búin er að missa öll börnin sín til útlanda, er það furða að hún mótmæli?
Fólk sem búið er að missa allt sitt þar sem ekki hefur verið tekið á skuldavanda heimilanna, er það furða að það kasti eggjum?
Fólk sem sér eignirnar sínar brenna upp á sama tíma og fjármagnseigendur þessa lands eru varðir með öllum tiltækum ráðum og þjóðin skiptist í tvo hópa, þá sem vaða í fjármagni og hinn stóra hóp þeirra sem strita en berjast í bökkum. Millistéttin fer að þurrkast út. Fjárborg skal hún heita ekki skjaldborg! Er það furða að fólk reisi tjaldborg?
Í samfélagi þar sem hið opinbera virðist leggja sig í líma við það að ná smásvikurum og smáþjófum en stórlaxarnir eru óáreittir á bak við skjaldborg lögfræðinga, er það furða að fólk missi vonina?
Í samfélagi þar sem öllum á að geta liðið vel en fátækt er orðin alvarlegt vandamál, börn eru vannærð, löggæsla og velferðarkerfið fara undir hnífinn sem getur laskað innviði samfélagsins verulega. Er það furða að fólk sletti skyri og kasti brauði?
Í samfélagi þar sem maður finnur óttann sem drýpur af andrúmsloftinu og mætir svo framtíð landsins, leikskólabörnunum og fyllist kvíða fyrir þeirra hönd. Kvíða yfir því að geta ekki fært þeim það sem þau eiga skilið. Er það furða að fólk vilji betri tíma?
Í samfélagi þar sem sumir Alþingismenn ýmist rífast í persónulegum skotgröfum sandkassaleiksins án vitrænnar rökræðu eða flissa yfir nýju sætunum sínum á sama tíma og fólk býr við örvæntingu hinum megin veggjanna. Er það furða að fólk fái nóg?
Ég er ekki hissa.
Hávær mótmæli við þinghúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 30. september 2010
Nýr formaður SUF leggur áherslu á atvinnumál - frétt af Vísi í dag!
Það þarf hugarfarsbreytingu í þá átt að fengist verði við atvinnuvanda ungs fólks með sértækum lausnum, segir Sigurjón Norberg Kjærnested, sem var kjörinn formaður Sambands ungra framsóknarmanna, um helgina. Sigurjón segir að til að fást við vandann þurfi að setja meira fjármagn í nýsköpun.
Ungir framsóknarmenn ætla að halda sérstakt atvinnumálaþing ungs fólks seinna í vetur þar sem Sigurjón segir að farið verði yfir málaflokkinn frá grunni og lausnir lagðar til sem að Framsóknarflokkurinn í heild og þingflokkur hans geti tekið mark á og nýtt sér.
Skiptar skoðanir hafa verið um Evrópusambandið innan Framsóknarflokksins. Sigurjón segist ekki vera aðildarsinni heldur aðildarviðræðusinni. Hann segir hins vegar að þingið sem fram fór um helgina hafi ekki verið tileinkað málefnum tengdum Evrópusambandinu. Önnur mál, eins og atvinnumálin, séu meira aðkallandi.
Eftirtaldir aðilar voru kjörnir í stjórn SUF um helgina
Aðalstjórn 2010-2011
Agnar Bragi Bragason, Reykjavík
Ásta Hlín Magnúsdóttir, Fáskrúðsfirði
Davíð Freyr Jónsson, Reykjavík
Einar Freyr Elínarson, Vestur Skaftafellssýslu
Fjóla Hrund Björnsdóttir, Hellu
Hafþór Eide Hafþórsson, Fáskrúðsfirði
Hlini Melsteð Jóngeirsson, Hafnarfirði
Íris Hauksdóttir, Dalvík
Rakel Dögg Óskarsdóttir, Reykjavík
Sandra Rán Ásgrímsdóttir, Höfn
Skúli Guðmundsson, Borgarnesi
Steinunn Anna Baldvinsdóttir, Reykjavík
Varastjórn 2010-2011
Gerður Jónsdóttir, Akureyri
Kristján Matthíasson, Kópavogi
Sigurður Aðalsteinsson, Reykjavík
Aðalbjörn Jóhannsson, Akureyri
Erla Rún Guðmundsdóttir, Húnavatnssýslu
Kolbrún Reynisdóttir, Höfn
Stefán Vignir Skarphéðinsson, Reykjavík
Guðlaugur Siggi Hannesson, Reykjavík
Jóhanna Hreiðarsdóttir, Reykjavík
Kristín Helga Magnúsdóttir, Reykjavík
Iðunn Tara Ásgrímsdóttir, Höfn
Gunnar Gunnarsson, Fljótsdalshrepp
Þriðjudagur, 28. september 2010
Mikilvægasta verk Alþingis og ríkisstjórnar
Sögulegur dagur var á Alþingi í dag. Ég fylgdist grannt með af pöllunum.
Þingmenn voru ekki öfundsverðir af hlutskipti sínu. En verkefni þeirra í dag er hluti af þeirra starfi sem þeir hafa gengist undir að sinna samkvæmt gildandi stjórnarskrá.
Menn geta haft skiptar skoðanir um það hvort Landsdómur eigi rétt á sér en svona er sú stjórnarskrá sem við störfum eftir og Lög um ráðherraábyrgð. Því gríðarlega valdi sem ráðherrar báru fylgir óhemjumikil ábyrgð. Séu menn ekki sáttir við lögin hefðu þeir átt að vera búnir að ráðast í þá vinnu að breyta þeim. Það er undarlegur málflutningur að samþykkja það ferli sem fór í gang með þingmannanefndinni án þess að slíkar athugasemdir komi fram fyrr en núna.
Ég skil ekki hvers vegna Sjálfstæðismenn gerðu það ekki strax í vor fyrst þeir meta þessi lög úrelt og ónothæf. Finnst þeim allt í lagi að hafa hér lög í gildi sem þeir telja svo ónothæf þegar til kastanna kemur? Sú röksemd sem notuð hefur verið að ekki sé hægt að varpa ábyrgðinni einungis á þessa tilteknu ráðherra þar sem gjörðir annarra séu fyrndar tel ég heldur ekki halda. Enn og aftur þá eru lögin svona og menn hefðu þá átt að vera búnir að lengja fyrningarfrest ráðherraábyrgðarinnar.
Þrátt fyrir það er ekkert því til fyrirstöðu að rannsaka betur athafnir annarra fyrrverandi ráðherra og lýsa yfir vanþóknun á þeim eins og fulltrúar Framsóknar í þingmannanefndinni gerðu varðandi einkavæðingu bankanna. Það mál fór ekki hátt í fjölmiðlum þrátt fyrir að um mjög merkileg tíðindi væri að ræða þar sem þau gengu lengst með bókun sinni. Fjölmiðlar voru of uppteknir af þeirri túlkun sinni að Framsókn vildi ekki láta rannsaka einkavæðingu bankanna sem nú hefur verið lagt fram af formanni flokksins að gera.
Ég er ekki alls kostar sátt við niðurstöðuna því ég tel að mál allra fjögurra ráðherranna hefðu átt að fara fyrir Landsdóm. Ég get skilið það að þingmenn komist ekki allir að sömu niðurstöðu því hver og einn þarf að meta málið eftir sinni rökhugsun og menn meta málið mismunandi. Ég virði það að fólk komist að mismunandi niðurstöðu um hvort eigi að vísa málinu í Landsdóm eða ekki. Hitt skil ég ekki sem er niðurstaða þeirra Samfylkingarþingmanna sem aðeins greiddu atkvæði með því að ákæra Geir H. Haarde en ekki aðra ráðherra. Ætli þetta hefði farið öðruvísi ef kosningin hefði verið leynileg en afstaða þingmanna gefin upp eftirá og kosið um alla í einu?
Nú fer þetta mál hins vegar í ákveðinn farveg og nýtt þing verður sett á föstudaginn.
Mikilvægasta verk Alþingis er ekki atkvæðagreiðslan í dag heldur það sem er framundan. Þau sár sem almenningur situr uppi með stækka einungis eftir því sem tímanum líður, meira blæðir úr þeim og plástrar þeir sem settir hafa verið halda ekki heldur gera jafnvel illt verra. Þessi sár verður að sauma. Hér bíður heilt samfélag í öskustónni eftir því að raunveruleg endurreisn hefjist. Hér bíður heil örvinluð þjóð í sárum sem þarf að sjá ljós í myrkrinu, fá bót meina sinna og trú á betri framtíð. Alþingismenn og ríkisstjórn þurfa að gerast raunverulegir leiðtogar okkar í því að finna lausnir, ná sátt, samvinnu, samstöðu og koma þjóð sinni á lappirnar á ný.
Alþingi getur ekki horft upp á fleiri nauðungaruppboð, gjaldþrot, fjárnám, sjálfsvíg, hrun, fólk í biðröðum eftir mataraðstoð, atvinnuleysi, brottflutning af landi og aðrar skelfilegar afleiðingar hrunsins án þess að grípa til róttækra aðgerða.
Það verður að ráðast í það án tafar að leiðrétta skuldir heimilanna og fyrirtækja. Verði það ekki gert stækkar einungis snjóflóðið og tekur fleiri og fleiri með sér. Því megum við ekki við.
Þungbær og erfið niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. september 2010
Glæsilegur fulltrúi ungs framsóknarfólks
Sigurjón Norberg kjærnested er glæsilegur nýkjörinn formaður ungs framsóknarfólks. Ég studdi hann í framboðinu og er ánægð að hafa veðjað á réttan hest. Hann staðfesti það endanlega í framboðsræðu sinni sem var með þeim betri sem ég hef heyrt.
Hvert stefnum við og hvað viljum við sem störfum í pólitík?
Viljum við gamaldags pólitík eða nútímapólitík?
Ég skilgreini gamaldags pólitík sem þá pólitík þar sem einn foringi (eða menn á bakvið viðkomandi) ræður för allrar hjarðarinnar og foringinn á að stýra sínu fólki. Lýðræðið er virt að vettugi en í stað þess á að semja um málin í lokuðum herbergjum. Pólitík þar sem allt er gert til þess að öðlast og viðhalda völdum, sama hvað það kostar. Pólitík þar sem ekki er farið eftir hæfni einstaklingsins heldur eftir því hver viðkomandi er og hverjum hann tilheyrir. Pólitík þar sem peningar ráða för og reynt er að kaupa sér völd með peningum eða greiðum. Pólitík þar sem staðið er vörð um hagsmuni útvaldra hagsmunaaðila en heildin látin líða fyrir.
Nútíma pólitík er pólitík þar sem fólk velur sér þann leiðtoga sem það treystir best til þess að koma fram sem fulltrúi hópsins, vera rödd hans og andlit út á við. Þrátt fyrir það tekur hver og einn einstaklingur ákvarðanir út frá sinni sannfæringu hverju sinni meðal annars um málefni og val á fólki. Pólitík þar sem málefnin eru það mikilvægasta. Leitað er allra leiða til þess að finna lausnir á þeim málum sem staðið er frammi fyrir hverju sinni og tekist á um málin í rökræðu án þess að fara í persónulegar skotgrafir. Pólitík þar sem skýrar leikreglur gilda og formfesta og stóra heildarmyndin er tekin fram fyrir persónulega sigra hvers og eins. Pólitík þar sem þjóðin fær að kveða upp úr í málum sem snerta grundvallaratriði lands og þjóðar. Pólitík þar sem hagsmunir heildarinnar eru ávallt hafðir að leiðarljósi.
Það er ekkert svart og hvítt í þessum heimi. Ekki heldur pólitíkin. Flestir stunda einhvern tímann gamaldags pólitík og stundum nútímapólitík. Oft sér maður ekki þegar maður sjálfur fer út af sporinu og þá þarf að benda fólki á það. Vandamálið er þau tilfelli þar sem fólk situr fast í þeirri pólitík sem almenningur er búinn að fá sig fullsaddan af og hefur meðal annars valdið því að þjóðin treystir ekki þinginu eða stjórnmálamönnum. Þrátt fyrir að ég tali um gamaldags- og nútímapólitík er ég viss um að stjórnmálamenn fyrri tíma hafi oft stundað nútímapólitík. Þetta byggir á hverjum og einum einstaklingi sjálfum og þeirri menningu sem er ríkjandi hverju sinni. Einstaklingar geta farið gegn ríkjandi menningu og menningin getur að sama skapi haft áhrif á hverja manneskju.
Ég tel Sigurjón vera tákn um þá nýju tíma sem ég vil sjá í Framsókn. Hann er einstaklingur sem hefur hugsjónir, fylgir þeim eftir og vill vinna að því að bæta samfélagið sitt. Hann er svo sannarlega framtíðarstjórnmálamaður sem gaman verður að vinna með og fylgjast með.
Áfram Framsókn til nýrra tíma :)
Nýr formaður SUF | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 22. september 2010
Sigurjón Norberg Kjærnested sem formann Sambands Ungra Framsóknarmanna (SUF)
Standa þarf vörð um auðlindir landsins, framtíðina og grunnstoðirnar. Gera þarf ungu fólki kleift að vaxa og dafna hér á landi með góða menntun í farteskinu, atvinnutækifæri og öflugan stuðning frá samfélaginu til að taka sín fyrstu skref út í lífið. Ungt fólk er lykillinn að farsælli framtíð lands og þjóðar. Ungt fólk í stjórnmálum er best í því að vinna að bættum hag ungs fólks!
Þess má til gamans geta að þingflokkur Framsóknar er sá yngsti á Alþingi og meðalaldur hans amk. 10 árum yngri en þess sem næst kemur á eftir :) og ungt fólk stóð sig frábærlega í sveitarstjórnarkosningunum í vor þar sem amk. 4 ungir Framsóknarmenn og konur leiddu lista og eru í oddvitahlutverkum. Forysta Framsóknarflokksins er einnig skipuð ungum einstaklingum sem eru að meðalaldri 34 ára sem er innan SUF aldurs! Tveir frambjóðendur hafa boðið sig fram til formanns SUF, Sigurjón Norberg Kjærnested og Sigurður Aðalsteinsson. Ég hef fylgst með þeim báðum og fylgdist með kappræðum sem fram fóru á milli þeirra á mánudagskvöld. Þar gerði ég endanlega upp hug minn og ætla að styðja Sigurjón Norberg Kjærnested.Ég tel hann bera með sér þann kraft og ferskleika sem þarf. Hann hefur útgeislun, er eldklár og hefur síðast en ekki síst hugsjónir um það að leggja sitt af mörkum til þess að gera samfélagið okkar betra og vinna að því að Framsóknarflokkurinn njóti sín sem það mikilvæga skynsemisafl sem þjóðin þarf á að halda.
Sigurjón er 25 ára meistaranemi í vélaverkfræði við Háskóla Íslands og meðlimur í framkvæmdastjórn Alfreðs, félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík. Þar að auki er hann handboltamarkvörður hjá stórveldinu Fjölni. Þeir sem vilja kynna sér málin betur geta kíkt á:
Bloggið hans: http://grjonaldo.blog.is/blog/grjonaldo/
Facebook síðuna hans: http://www.facebook.com/profile.php?id=705158594#!/pages/Sigurjon-Kjaernested-sem-formann-SUF/147065895316849
og http://www.facebook.com/profile.php?id=705158594#!/grjonaldo
Youtube: http://www.youtube.com/watch?v=6aPcy0mx8qo
og http://www.youtube.com/watch?v=rWguWZ9zJ4g
Umfram allt vona ég að þingið verði öflugt og skemmtilegt og mun ég þrátt fyrir að vera yfirlýstur stuðningsmaður Sigurjóns standa við bakið á þeim aðila sem verður kosinn næsti formaður SUF :).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2010 kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. september 2010
Þjóð með skuldaklafa
Næstu dagar eru sögulegir.
Þingmenn fá það vandasama verkefni sem þeim er falið samkvæmt 14. gr. stjórnarskrár að taka ákvörðun um hvort ákæra skuli fjóra fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdómi.
Ekki eru allir á eitt sáttir og mikill titringur ríkir. Mér þykir það áhugavert að menn skuli hreyfa við mótbárum núna þegar í fyrsta lagi þá er þetta grein í gildandi stjórnarskrá sem þingmenn skuldbinda sig til þess að vinna eftir, í öðru lagi þá var vitað allan tímann að þetta gæti orðið niðurstaðan þegar þingmannanefndin var sett á fót og í þriðja lagi ef ekki er ástæða til þess að kalla til Landsdóm þegar algjört hrun verður, hvenær þá? Ráðherrar hafa nefnilega gríðarlegt vald en bera að sama skapi gríðarmikla ábyrgð.
Voru menn svona vissir um að þingmannanefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að kalla saman Landsdóm? Eða erum við orðin svona vön því að fara ekki bókstaflega eftir þeim lögum og reglum sem gilda að menn séu hissa þegar slíkt gerist?
Þrátt fyrir að þetta sé stórmál þá held ég að þetta sé ekki það sem brennur mest á hinum almenna borgara í þessu samfélagi.
Nú í haust á ekki að samþykkja frekari frystingar á lánum. Fjöldinn allur af bréfum berst inn um lúgur landsmanna sem tilkynnir nauðungarsölur, fjárnám og annað slíkt. Fjöldi fólks bíður í röð eftir matargjöfum hjálparsamtaka. Mikið álag er á heilsugæslur og heilbrigðisstofnanir vegna andlegrar og líkamlegrar vanlíðunar. Flestir finna á einn eða annan hátt fyrir þeirri streitu, ótta og álagi sem svífur yfir samfélaginu. Rúmlega 12.500 manns voru atvinnulausir í júlí eða 7.5% og talið er að tölurnar hækki í haust og vetur. Ungir námsmenn sem ljúka námi velta því frekar fyrir sér hvert þeir eigi að flytja heldur en hvort. Nú þegar hefur fjöldi þeirra sem flytja af landi brott slegið öll met.
Vandi landsmanna er fyrst og fremst skuldavandi og hann þarf að leysa. Hefðum við ekki verið í talsvert betri málum ef hlustað hefði verið á 20% leiðréttingartillögu okkar Framsóknarfólks? Þá held ég einmitt að meirihluti fólks væri með minni skuldaklafa og meiri kaupgetu sem myndi svo örva efnahagslífið og koma í veg fyrir ómældan sársauka vegna stökkbreyttra lána. Viðbrögð vinstri stjórnarinnar hafa snúist upp í andhverfu sína og hjálpað mest þeim sem háskalegast fóru og fjárfest höfðu mest. Það er fólkið sem er búið að fá afskriftir en ekki hinn almenni borgari sem farið hefur varlega og staðið sína pligt. Sem betur fer tókst þessari blessuðu vinstri stjórn ekki að troða upp á skuldaklafann Icesave því þá myndi vinur okkar hérna á myndinni ekki einu sinni ná að standa í báðar fætur. Hann færi á hliðina.
Þetta eru þau málefni sem stjórnmálamenn og við öll þurfum að leysa í sameiningu næstu vikur og mánuði. Þetta er það sem skiptir þjóðina mestu máli. Þetta er það sem brennur á fólki þrátt fyrir sársaukafull pólitísk uppgjör sem eiga sér stað í þinginu og eru vissulega nauðsynleg líka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. september 2010
Skila Íslendingar auðu í mannréttindamálum?
Undanfarið hafa umsvif Kína og samskipti okkar Íslendinga við Kínverja verið í umræðunni.
Jón Gnarr, sá ágæti borgarstjóri, mun hitta fyrrum borgarstjóra Peking Liu Qi á fundi í dag og ræða orkumál og jarðhita. Liu Qi er boðið formlega hingað til lands í opinbera heimsókn í boði Reykjavíkurborgar (að frumkvæði Liu Qi) og mun hann einnig hitta aðra borgarfulltrúa Besta flokksins. Aðspurð að því hvort Besti flokkurinn muni nefna mannréttindamál á fundinum svarar aðstoðarkona borgarstjóra, Heiða Kristín Helgadóttir, því til að rætt hafi verið um það innan Besta flokksins að gera það ekki en hún viti ekki hvað Jón Gnarr geri þó. Þetta eru mér gríðarleg vonbrigði með Besta flokkinn!
Frá þessu segir í Fréttablaðinu í dag. Á næstu síðu er frétt um það að Wen Jiabao forsætisráðherra Kína segi kínversk stjórnvöld hafa einsett sér að styðja við Ísland á tímum efnahagslegra erfiðleika, m.a. með vítækum innflutningi á íslenskum vörum og víðtækt samstarf í orkumálum. Þessi tilkynning kemur frá embætti forseta Íslands sem staddur er í Kína. Hann fundaði með Wen Jiabao í gær þar sem ítrekaður er vilji Kínverja til samstarfs og væri gjaldeyrirsskiptasamningurinn milli seðlabanka landanna sem undirritaður var í sumar hornsteinn þess samstarfs.
Er ég ein um að hafa áhyggjur af þessu?
Telur fólk ekkert athugavert við það að við séum í blússandi samstarfi við þjóð sem beitir grimmilegum mannréttindabrotum og hefur m.a. brotið svo gróflega gegn tíbetsku þjóðinni að það er þyngra en tárum taki? Þjóð sem valtað hefur yfir eina friðsömustu þjóð í heimi er að verða tíðari og tíðari gestur hér á landi. Sjálf hef ég ferðast um Kína og Tíbet og séð ýmislegt sem ekki er tjaldað til í fínum sjálfboðnum opinberum heimsóknum eða í boðum með forseta Íslands.
Ætlum við bara að horfa í hina áttina og skila auðu í mannréttindamálum? Af því að Kínverjar eiga svo mikinn pening! Er okkur virkilega alveg sama hvaðan fjármagnið kemur svo framarlega sem það komi? Eigum við þá ekki bara að fara að rækta eiturlyf hérna og selja út?
Vissulega má eflaust færa gild rök fyrir því að ekki sé málið svo einfalt að loka bara á Kínverja og að við eigum einnig í samskiptum við aðra aðila sem hafa ýmislegt óhreint í pokahorninu. En hvar liggur línan? Þurfum við amk. ekki að hafa kjark til þess að ræða þessi mannréttindabrot?
Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi ráðherra má eiga það að hann er einn örfárra sem hefur haft kjark í sér til þess að standa með málefnum Tíbeta og meira að segja að minnast á mannréttindamál á fundi með Kínverjum við afar litlar vinsældir hinna nýfengnu vina úr austri. Það eitt sýnir að þrátt fyrir þá stöðu sem hann er í núna þá hefur hann staðið sig frábærlega að mörgu leyti.
Nú er tímabært að Íslendingar vakni aðeins til vitundar og hugleiði á hvaða vegferð við erum í samskiptum okkar við Kína. Er það líklegt að þeir séu hér einungis til þess að styðja við þjóð sem lent hefur í hruni og læra af okkur um jarðhita. Er ekkert annað undir? Og NB. þá eru Kínverjar mjög ólíkir Íslendingum að því leyti að þeir gera sínar áætlanir áratugi fram í tímann... ekki bara fram að næstu kosningum eins og okkur er tamt. Held að það getum við þó lært af þeim, áður en það verður um seinan!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 13. ágúst 2010
Ekkert loft - ekkert fjör! Hinn mikilvægi X factor
Ég ætlaði að njóta hins dulúðlega og hlýja kvölds og skella mér í langþráðan hjólatúr á honum Jensen mínum (fyrir þá sem ekki þekkja til fjölskylduaðstæðna þá er Jensen græni reiðfákurinn minn sem ég fór um allt á í Árósum). En málin æxluðust þannig að hann Jensen minn reyndist vera alveg loftlaus þegar á hólminn var komið og þurfti ég því að leiða greyið á bensínstöðina með von um bót meina okkar. Það gekk ekki betur en svo að ekki var hægt að blása lífi í Jensen þar sem hann er danskur að uppruna og þar er eitthvað annað system á dekkjunum...
En það fékk mig til að hugsa...
Oft höfum við allt sem til þarf en samt komumst við hvorki lönd né strönd. Við höfum hjólið, hjálminn, viljann til að hjóla, vöðvana ofl. Það vantar bara loft, það vantar einhvern óútskýrðan X factor til þess að dæmið gangi upp.
Oft fara hlutirnir bara alls ekki eins og myndin sem við vorum búin að spila í höfðinu á okkur. Í þessu tilfelli var ég búin að sjá okkur Jensen þeysast um hina rómuðu göngustíga meðfram sjónum og anda að mér hlýrri hafgolunni með góða tónlist í Ipodinum. En í staðinn þurfti ég að leiða hann tilbaka.
Kannski er það einmitt það sem við eigum að vera þakklát fyrir. Væri lífið ekki hrikalega leiðinlegt ef allt færi nákvæmlega eins og við værum búin að forrita það? Engar óvæntar uppákomur? Engin loftlaus dekk? Auðvitað verður maður svekktur og pirraður sem fyrstu viðbrögð og í lífinu þegar mjög alvarlegir hlutir breyta stefnu okkar eins og alvarleg veikindi, andlát oþh. þá þarf aðeins meira til en bara rétt að hressa sig við. En það sem ég tel skipta máli er að við eigum alltaf val um það hvernig við tökum á þeim stundum þegar loftið vantar, plön breytast.
Samkvæmt Dalai Lama vini mínum þá er það einmitt hið óvænta, sérstaklega það vonda og erfiða og fólkið sem fer verst með okkur sem við eigum að vera ánægðust með. Því það veitir okkur svo gott tækifæri til þess að vaxa, þroskast, læra umburðarlyndi og þolinmæði. Það kennir okkur betur á okkur sjálf.
Ætla að enda á tilvitnun úr bókinni Leiðin til lífshamingju, Dalai Lama og Howard C. Cutler:
Listin að höndla hamingjuna er spunnin úr mörgum þráðum. Fyrsta skrefið er að þroskast til skilnings á raunverulegum undirstöðum hamingjunnar og veita því forgang að treysta þær. Til þess þarf agaða hugsun. Það tekur langan tíma að uppræta neikvætt hugarfar og rækta í stað þess með sér jákvætt og uppbyggilegt hugarþel svo sem gæsku, umburðarlyndi og sáttfýsi. (bls. 225).
Laugardagur, 7. ágúst 2010
Ég er bara eins og ég er!
Á morgun ætla ég að fara í gleðigönguna. Ég ætla að fara vegna þess að ég vil styðja við og taka þátt í þeirri frábæru, litríku mannréttindabaráttu sem gleðigangan endurspeglar. Ég fór síðast sumarið 2007 og man enn kærleikann, frelsið og óbeisluðu gleðina sem sveif yfir öllu.
Þetta snýst ekki um kynhneigð. Sjálf hef ég stundum hugsað að lífið væri einfaldara væri ég með konu eftir djúp sár sem ég hef setið eftir með í samskiptum við suma karlmenn. Það getur tekið langan tíma að jafna sig á ástarsorg. Maður er hvergi óhultur og á svona litlu landi getur maður lent í því að rekast á aðilann sem setti veröldina á hvolf hvenær sem er, jafnvel sjá viðkomandi álengdar með nýju kærustunni í kjörbúðinni. Síðar meir getur slíkt andlit hætt að skipta máli, orðið bara kunnuglegt andlit í fjöldanum. En sambönd fólks af sama kyni eru sennilega ekkert einfaldari, þetta snýst allt bara um tvo einstaklinga.
Ég held að þeir sem koma út úr skápnum komi út úr honum mun ríkari manneskjur en þegar þeir voru inni í honum. Að horfast í augu við sjálfan sig og fara á móti straumnum kostar miklar þjáningar. Mestu þjáningarnar eru þær sem skila okkur mestum ávinningi í lífinu. Það þarf alltaf kjark til þess að synda á móti straumnum en geri fólk það er gullpotturinn við enda regnbogans.
Í rauninni held ég að allir þurfi að fara út úr skápnum í lífinu og það hljóti að vera markmið flestra. Að fara út úr skápnum þarf ekkert að þýða að maður komi fram með kynhneigð sína. Að fara út úr skápnum getur merkt þann sigur að geta horfst í augu við sjálfan sig eins og maður er. Með öllu því sem maður hefur gott og slæmt og skilgreinir mann sem einmitt þá manneskju sem maður er. Þess vegna vona ég að við komumst öll einhvern tímann út úr okkar skáp. Við erum öll einstök og eigum að elska okkur sjálf, þakka þá gjöf að fá að vera eins og við erum. Við erum kraftaverk í sífelldri mótun.
Fólkið sem veitir okkur dýpstu sárin er okkar mestu lærisveinar og í raun á maður að þakka þeim. Þakka þeim sem særa mann, koma illa fram við mann, bregðast manni, svíkja mann, valda vonbrigðum, eru keppinautar manns, óvinir eða hvað sem er. Þetta fólk veitir okkur ómetanlegt tækifæri til þess að læra umburðarlyndi, þolinmæði, læra á okkur sjálf og veita okkur sjálfsstyrk. Þannig getum við öðlast samhygð og kærleika sem er lykillinn að því sem við öll erum að leita að, hamingju og öryggi.
Ef allir væru vinir manns, elskuðu mann og myndu færa manni allt sem maður þráði á silfurfati þá myndi maður ekki þroskast eða vaxa mikið sem manneskja.
Næst þegar þú meiðir þig líkamlega þakkaðu þá fyrir að hafa sársaukaskyn því annars gæti farið illa fyrir líkama þínum þar sem hann gæti ekki brugðist við og varið sig. Næst þegar þú mætir þjáningu eða erfiðleikum vegna annars fólks þakkaðu þeim þá fyrir að veita þér þetta tækifæri til þess að verða betri í dag en í gær. Umfram allt taktu þá kjörkuðu sem labba um götur Reykjavíkur á morgun í öllum regnbogans litum þér til fyrirmyndar fyrir að hafa stigið fram, komið út úr skápnum og sigrast á sjálfum sér og heiminum! Það getum við öll.
Fögnum því að vera bara eins og við erum í öllum heimsins litríka margbreytileika :).
Miðvikudagur, 28. júlí 2010
Ungt framsóknarfólk vill náttúruauðlindir í þjóðareign
Íslenskar náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti skulu vera þjóðareign þar sem ríkið muni fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna í umboði þjóðarinnar. Þær má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara. Náttúruauðlindir í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.