Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ljósviti hugans

0111viti-nota

Ég tel það ákaflega mikilvægt að finna sitt innra logandi ljós, sinn innri vita til þess að farnast vel í lífinu.

Ég held að margir sigli í hringi vegna þess að þeir hafa ekki fundið sinn vita og flest lendum við einhvern tímann á skeri því við sigldum ekki eftir okkar eigin stefnu.

Kveikjan að þessum hugsunum er samtal sem ég átti við mætan mann um daginn og ég dáðist svo að því hversu skýrt mótaðar skoðanir og viðhorf hann hafði á þeim málefnum sem við ræddum og það var svo bersýnilegt að hann var ekki að reyna að segja hluti sem hann vissi fyrirfram að féllu í kramið hjá mér eða öðrum áheyrendum en hann var heldur ekki að reyna að vera bara fúll á móti. Hann hafði bara mjög skýra sýn á sinn eigin vita, hvaða skoðanir og viðhorf hann hafði og hann stóð mjög sanngjarnlega með sjálfum sér.

Og ég held að þetta sé einmitt kjarni málsins.

Þetta hljómar svo sáraeinfalt. Stattu með sjálfri þér/sjálfum þér og allt það en... gerum við það alltaf? Er ekki oft svo miklu auðveldara að segja eitthvað, gera okkur upp viðhorf, skoðanir, tilfinningar eða annað sem falla vel í það umhverfi sem við erum stödd í og tryggja okkur velvild og vinsældir annarra. Ég held að fæstir geri þetta meðvitað en flestir vilja að öðrum líki vel við sig og þess vegna getur okkur hætt til þess að missa svona sjónar á okkar eigin vita og sigla í hringi eða eftir óljósri stefnu annarra.

Ég held að það sé bara heilmikil vinna að þroska sjálfan sig á þann veg að geta fundið hratt og vel út hvaða skoðun, viðhorf, tilfinningu maður hefur í sínum innsta kjarna og geta hikstalaust varpað henni fram án þess að óttast höfnun eða önnur neikvæð viðbrögð annarra. Sem sagt að setja upp sinn eigin vita í kollinum sem lýsir manni í hvaða átt maður vill sigla hverju sinni.

En með því að sigla svona eftir eigin vita þá aukast líkurnar á því að vera heill í því sem maður segir og gerir og vera í samræmi við sjálfan sig. Einstaklingur sem jafnvel viljandi hagar seglum eftir vindi á verulega á hættu að lenda í ósamræmi við sjálfan sig og missa þannig trúverðugleika.

Veltu því fyrir þér á næstunni þegar þú ert í einhverjum aðstæðum hvaða skoðun, viðhorfi eða tilfinningu þú varpar fram, hvaðan það kemur, hvort það sé litað af stefnu annarra, möguleikum á að þóknast öðrum eða hvort þú ert að standa með þér á sanngjarnan hátt og stendur fyrir þínu. Hvort þú siglir eftir því ljósi sem þinn viti lýsir þér!


Ályktun frá landsstjórnarfundi Landssambands Framsóknarkvenna (LFK)

Landsstjórnarfundur framsóknarkvenna haldinn í Reykjavík 5. des 2009 lýsir yfir þungum áhyggjum yfir vaxandi fjölda atvinnulausra á Íslandi. Nú þegar eru 16.000 manns án atvinnu og i þeirra umsjón eru yfir 5000 börn, þar af allt að 500 börn þar sem báðir foreldrar hafa misst vinnuna. Reynsla erlendra þjóða sýnir að hjálparstofnanir hafa í auknu mæli tekið að sér það hlutverk sveitarfélaganna að sjá íbúum sínum farborða.
Ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára er sá hópur sem ber að hlúa sérstaklega að og tryggja að ekki verði hrakinn frá námi af fjárhagsástæðum. Mat fundarins er að ný hugsun þurfi að koma til. Áskorun fundarins er að ríkistjórnin beiti sér fyrir því að ungt fólk án atvinnu geti stundað nám og þegið atvinnuleysisbætur á sama tíma.

Að árinu liðnu... hvað hefurðu gert?

Þetta lag er í miklu uppáhaldi hjá mér. Lagið sem byrjar svona: Svo þetta eru jólin ... hvað hefurðu gert?

Þetta lag fær mig alltaf til þess að hugsa á hverju einasta ári þegar það fer í spilun. Lagið fær mig til þess að hugsa um árið sem nú er að renna sitt skeið. Hvað hefur gerst á því?

Það er svo undarleg tilfinning að opna jólaskrautskassann og sjá jólasveinana kinka góðlátlega kolli eins og gamla vini og maður hugsar: jæja, ég sem var að pakka ykkur niður fyrir örskömmu síðan! Og manni finnst þeir segja: já, nú er árið liðið og við mættir enn á ný! Þá hefst enn ein vaktin hjá okkur...

Og hvað hefur maður gert á árinu? Hvað hefur gerst á árinu? Góðir hlutir og slæmir hlutir.

Maður hefur þurft að kveðja allt of marga, allt of snemmt. Sumt í lífinu hefur tekið alveg óvænta stefnu. Lífið sjálft hefur sýnt það og sannað að það verður aldrei hægt að skipuleggja það og taka ákvarðanir fyrirfram. Margt er ekki eins og maður planaði sjálfur. Andartakið kemur og sama andartak fer og kemur aldrei aftur. Það er engin leið að stjórna lífsins farvegi því það eru svo margir þættir sem maður hefur enga stjórn á. En maður getur þó að miklu leyti stjórnað sjálfum sér og hvernig maður tekur á hinum ýmsu straumum sem myndast í lífsins ólgusjó og hvernig maður nýtur hinna lygnu stunda þar sem sólin skín og allt leikur í lyndi. Nýtur einmitt þeirrar stundar eins og enginn sé morgundagurinn, án þess að hafa áhyggjur af hvenær hvessi næst eða hvað taki við næst. Að VERA í andartakinu er list sem tekur á að læra. Af hverri vindhviðu sem maður fær lærir maður svo eitthvað nýtt og herðist. Af hverjum sólargeisla sem leikur um mann fyllist maður nýrri orku.

Svo er mikilvægt að hugleiða hvert maður er að stefna. Hvað vil ég fá út úr mínu lífi, hver vil ég vera, hverja vil ég hafa hjá mér? Er maður að sigla í átt að sínum markmiðum eða fjarlægjast þau? Eitthvað breytist og eitthvað nýtt kemur í sjóndeildarhringinn sem gæti breytt stefnunni. En kjölfestumarkmiðin eru nokkuð örugglega til staðar þegar maður hefur fundið þau. Og hvað á ég við með kjölfestumarkmið? Það eru að mínu mati þessi kjarnamarkmið sem lífið sjálft snýst um. Að finna út hver ég er og hvað ég vil afreka í þessu lífi. Hvað vil ég sjá í baksýnisspeglinum þegar ég lít yfir farinn veg og komið er að kveðjustund við lífið sjálft? Hvernig manneskju vil ég sjá við stýrið. Hvað vil ég hafa lagt til á minni lífsgöngu í þennan heim? Þegar maður hefur fundið sín kjölfestumarkmið þá hafa þau að öllum líkindum áhrif á öll hin litlu markmiðin okkar. Ef hluti af mínu kjölfestumarkmiði er að leggja mitt af mörkum til þess að gera þennan heim að betri stað þá er ég örugglega með lítil markmið sem sinna því. Þau þurfa ekki að vera flókin. Geta t.d. verið að brosa mót ókunnugum eða velja það að vera til staðar og rétta hjálparhönd þegar ókunnugir lenda í vandræðum.

Svipaðar hugleiðingar munu einnig skjóta upp í kollinum þegar maður fer að skrifa jólakortin sín. Hverjir hafa verið manni hugleiknir þetta árið? Hvers vegna? Hvaða stundir ber að þakka? Fyrir flesta er annað fólk umlukið okkur allt árið. Þegar kemur að jólakortaskrifunum lít ég svo á að tækifæri skapist til þess að skoða svolítið hver er í kringum mann og minna sig á að vera þakklátur fyrir alla þá fjársjóði sem maður á í fólkinu sem maður hefur verið svo heppinn að fá að fylgja þetta árið og gimsteinana sem maður hefur eignast í fjársjóðskistu minninganna þegar maður rifjar upp góðar stundir. Sumir koma bara stutt inn í líf manns, aðrir fylgja manni meira og minna til langframa.

Takk fyrir mig í dag.


Fyrstu tillögur efnahagsnefndar SUF

Tillaga
- að aðgerðum vegna skuldastöðu heimila

 
Lagt er til að heimilum verði veitt heimild til að skila veðsettum eignum auk þess sem stofnaður verði óháður og gagnsær uppboðsmarkaður eigna.
 
Heimild til að að skila veðsettum eignum
Gera þarf banka og fjármálastofnanir ábyrgari fyrir útlánastarfsemi sinni með því að veita eigendum fasteigna og bifreiða heimild til að skila veðsettum eignum auk álags af höfuðstól skuldarinnar. Samhliða því falli niður krafa á hendur skuldara.
 
Uppboðsmarkaður fyrir eignir
Stofna þarf óháðan og gagnsæjan uppboðsmarkað fyrir eignir banka og fjármálastofnana sem hafa verið yfirteknar eða skilað inn. Slíkur uppboðsmarkaður yrði á forræði opinberra aðila og mun auka skilvirkni fasteignamarkaðarins.
 
Greinargerð
 
Skuldsetning á Íslandi
Vandinn er tvíþættur, annars vegar þung greiðslubyrði lána og hins vegar neikvæð eigin-fjárstaða skuldara. Mótaðar hafa verið ákveðnar lausnir fyrir þá sem eru í greiðsluvanda en stjórnvöld hafa hvorki tekið nægjanlega skýra afstöðu gagnvart þeim sem hafa neikvæða eiginfjárstöðu, né til endurreisnar á áreiðanlegra og öruggara regluverki á fjármálamörkuðum til framtíðar.
 
Staðan í dag 
Ójafnvægi hefur ríkt milli lánveitenda og lántakenda undanfarna áratugi, lántakendum í óhag. Koma þarf í veg fyrir að óvandaðir fjármálagjörningar dragi óhóflega úr virkni samfélagsins. Mikilvægt er að jafna ábyrgð lánveitenda og lántakenda. Eftir óhóflega lántöku og lánveitingar á Íslandi undanfarin ár eiga stjórnvöld að beita sér fyrir aukinni ábyrgð lánveitenda og þar með draga úr ábyrgð samfélagsins á útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja.
 
Stefnan
Nýleg lög ætla fjármálafyrirtækjum að leysa úr skuldavanda heimila. Þar með leggja stjórnvöld grundvöll að ánauð til langs tíma fyrir þá skuldsettu. Tilgangur laganna er að hámarka greiðslugetu en um leið er dregið mjög úr greiðsluvilja skuldara. Ólíklegt er að skuldarar muni geta staðið undir framtíðargreiðslum þegar laun hækka umfram verðlag. Nefna má Japan sem dæmi þar sem þung skuldabyrði dregur úr hagvexti og leiðir til efnahagslegrar stöðnunar.

Óþarflega stór hluti samfélagsins stefnir í þrot. Þar með verður sá hópur óvirkur í uppbyggingu samfélagins og það samfélagslega tap sem Íslendingar eiga enn eftir að verða fyrir. Að óbreyttu reisum við að nýju það regluverk sem átti hlut í að skapa vandann.
Til framtíðar

Áðurnefndar tillögur eru tveir af mörgum hornsteinum sem Ísland þarf að leggja áður en við getum sannfært þjóðarsálina og umheiminn um að hér geti risið fyrirmyndarsamfélag. Þar er gagnsætt regluverk með ábyrgum lánveitendum og lántakendum nauðsynlegt til að endurheimta trúverðugleika fjármálakerfisins.
 
Nánari útfærsla
 
Heimild til að skila veðsettum eignum
Allir einstaklingar fái heimild til að skila veðsettum eignum til fjármálastofnana auk þess að greiða álag af höfuðstól skuldarinnar. Fellur þar með niður heimild lánveitenda til frekari krafna á lántaka vegna þeirra tilteknu viðskipta. Mikilvægt er að gera fjölskyldum kleift að halda heimilum sínum með forleigurétt á skiluðum eignum, ef eignirnar seljist ekki á uppboðsmarkaði.
 
Dæmi
24 milljóna 80% lán er tekið fyrir íbúð (lögheimili) að verðmæti 30 milljónir:
 
Eignin rýrnar síðar niður í 25 milljónir og lánið sem var 24 milljónir stendur nú í 34 milljónum. Lántakinn skilar lyklinum og fellur þá skuldin niður en fyrir þetta greiðir lántakinn 1,7 milljónir króna (5% af 34 milljónum).
 

  • Lagt er til að álag á lögheimili verði 5% og 10% á aðrar eignir einstaklinga.
  • Þak verði sett á hve oft einstaklingar geti nýtt sér heimildina og skal það bundið við eina eign á hverjum áratug.
  • Skattstjóri haldi skrá um innskilanir.
  • Ríkið leggi til 2% álag með hverri innskilaðri eign til að milda áhrifin á fjármálakerfið, út árið 2010.
  • Þegar um lán til fyrstu kaupa á fasteign er að ræða, ábyrgist ríkið 5% endurgreiðslu að auki til lánveitenda komi til innskilana. Er þar miðað við allt að 90% lán til fyrstu kaupa fasteigna til að stuðla að eðlilegum möguleikum fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið.


Helstu kostir
 

  • Bankar fá hluta af kröfum sem eru í raun tapaðar.
  • Útlán verða að vera framkvæmd af vandvirkni, m.t.t. verðþróun veða.
  • Ábyrgð lánveitenda er aukin.
  • Þegar losnar um yfirveðsettar eignir skapast möguleiki til að virkja fé sem liggur bundið í fjármálastofnunum.
  • Leiðin stuðlar ekki að hærri vöxtum, en dregur þess í stað úr óhóflegum lánveitingum fjármálastofnana.
  • Dregin er sanngjarnari lína á milli þeirra sem geta losað sig úr erfiðri stöðu og þeirra sem ekki verður bjargað.
  • Það dregur úr kostnaði samfélagsins vegna landflótta og óþarfa gjaldþrota.


Óháður uppboðsmarkaður fyrir eignir
Öllum fjármálastofnunum verði gert skylt að auglýsa þær eignir sem teknar eru með nauðungarsölu, auk allra innskilaðra eigna, á óháðum og gagnsæjum uppboðsmarkaði. Ljóst er að mikil tortryggni ríkir í þjóðfélaginu í dag varðandi starfsemi fjármálastofnana og hvernig farið er með þær eignir sem eru yfirteknar. Nauðsynlegt er fyrir uppbyggingu samfélagsins að allt ferli sé gert lýðræðislegt og gagnsætt þar sem allir eigi jafna möguleika til þátttöku. Með það að leiðarljósi skal skylda allar fjármálastofnanir til að auglýsa allar þær eignir sem skipta eiga um eigendur þ.m.t. þær eignir sem teknar eru yfir með nauðungarsölu. Fjármálastofnunum er ekki gert skylt að selja allar þær eignir sem teknar eru yfir og skilað inn, heldur gert að fara eftir ákveðnum reglum komi til sölumeðferðar eigna. Við frekari mótun reglna fyrir uppboðsmarkaðinn er hægt að hafa til hliðsjónar reglur Kauphallar Íslands og reglur fiskmarkaðanna.

Auglýsa skal eignirnar líkt og uppboð á eignum eru auglýst í dag auk frekari upplýsinga á þar til gerðri vefsíðu. Á vefsíðunni skal birta allar nauðsynlegar upplýsingar um eignirnar sem öllum gefst kostur á að bjóða í, hvort sem er eignasöfn s.s. fyrirtæki eða stakar eignir. Hið opinbera myndi stofna og starfrækja slíkan uppboðsmarkað. Markaðurinn tryggir jafnræði milli aðila, gagnsæi í þjóðfélaginu og dregur þar með úr óheilbrigðum viðskiptaháttum, samfélaginu til hagsbóta. Þessi leið mun flýta fyrir óhjákvæmilegri lækkun eignaverðs og vonandi ljúka lækkunarferli eigna. Markaðurinn sér um eftirlit  með forleigurétti þeirra sem áður hafa skilað inn sínum eignum, sem gefur því fjölskyldum kost á að halda í heimili sín.
 

  • Lagt er til að lágmarks auglýsingatími verði 2 vikur.
  • Auglýsingar verði sambærilegar venjubundnum fasteignaauglýsingum og verði birtar á almennum leitarsíðum fyrir fasteignir.
  • Ef hæstu boðum er hafnað ber fjármálastofnunum að gera grein fyrir þeim ástæðum sem liggja að baki til Fjármálaeftirlitsins.


Helstu kostir
 

  • Dregur úr tækifærum til misnotkunar.
  • Kemur hreyfingu á fjármagn og viðskipti.
  • Stuðlar að endurreisn á trúverðugleika fjármálakerfisins og fjármálafyrirtækja.
  • Jafnræði varðandi sölumeðferð eigna.
  • Ýtir undir þróun leigumarkaðar en þó mun aðferðin líklega flýta fyrir óumflýjanlegri lækkun á fasteignaverði.

 


Ályktun Kvenréttindasambands Íslands varðandi skerðingu á fæðingarorlofsgreiðslum

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands mótmælir fyrirhugaðri skerðingu á
fæðingarorlofsgreiðslum og varar við neikvæðum áhrifum þess á stöðu foreldra
á vinnumarkaði, þá sérstaklega kvenna. Fyrirsjáanlegt er að enn ein lækkunin
á fæðingarorlofsgreiðslum kippi stoðunum undan fjárhagslegri afkomu
nýbakaðra foreldra. Það mun leiða til þess að færri feður taki
fæðingarorlof, auk þess sem fæðingartíðni kann að lækka. Rúmlega 90%
íslenskra feðra hafa nýtt sér rétt til orlofstöku, sem þótt hefur til
fyrirmyndar. Virk aðkoma feðra að umönnun ungbarna sinna er ein af
frumforsendum þess að vænta megi varanlegs árangurs í baráttunni fyrir
jafnri stöðu kvenna og karla. Kvenréttindafélag Íslands telur því að þessar
aðgerðir séu verulegt skref afturábak í jafnréttisbaráttu kynjanna. 
 
 
Hallveigarstöðum, 26. nóvember 2009

Kvenréttindafélag Íslands - Hallveigarstöðum - 101 Reykjavík - www.krfi.is
<http://www.krfi.is/krfi/>


16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Hið árlega 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hefst 25. nóvember nk. og stendur til 10. desember. Að þessu sinni er yfirskrift átaksins: Leggðu þitt að mörkum - Farðu fram á aðgerðir: Saman getum við bundið enda á ofbeldi gegn konum!

Í tilefni af upphafsdegi átaksins standa mannréttindasamtök og kvennahreyfingin á Íslandi fyrir Ljósagöngu til að vekja athygli á ofbeldi gegn konum og hvetja til aðgerða. Farið verður frá Þjóðmenningarhúsinu kl. 19:00 á miðvikudaginn nk. og gengið niður að Sólfarinu við Skúlagötu en Friðarsúlan verður að þessu sinni tendruð kl. 19:45 og hefur Yoko Ono samþykkt að ljós friðarsúlunnar verði tileinkað alþjóðadegi til afnáms ofbeldis gegn konum. Í fararbroddi göngunnar verða kyndilberar og einnig verða stjörnuljós höfð með í för.

Allir eru hvattir til að mæta í gönguna til að minna á mikilvægi þess að uppræta ofbeldi gegn konum í öllum sínum birtingarmyndum.

Frétt af mbl. um gönguna má lesa hér:

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/11/23/johanna_leidir_ljosagongu_a_midvikudag/


Mannlegt eðli er kjarninn í öllu

iceburg
 

Ég var að koma heim af myndinni 2012. Ætla ekkert að rekja þráðinn þar sem margir eiga eflaust eftir að fara.

Myndin vakti mig hinsvegar til umhugsunar. Hún vakti mig til umhugsunar um hið mannlega eðli. Um hvernig það er kjarninn í öllum okkar þekkta heimi. Ekkert sigrar gott mannlegt eðli. Hvar sem við erum í heiminum þá er hið mannlega eðli afar líkt. Við sækjumst flest eftir því sama í lífinu, hamingju, ást og að afreka eitthvað. Þrátt fyrir afar ólíkar aðstæður þá erum við jarðarbúar þegar öllu er á botninn hvolft 99% eins.

Þegar maðurinn stendur frammi fyrir stórbrotinni sköpuninni, jörðinni, náttúrunni þá verður hann svo agnarsmár og ræður í raun afar takmarkað við eitt eða neitt. Við erum bara lítill maur í þessum ógnarstóra alheimi. Og um alheiminn vitum við svo lítið. Einu sinni hélt fólk til dæmis að jörðin væri miðja alheimsins og sólin snerist um okkur. Því er kristaltært að einhver hluti af okkar heimsmynd sé hreinlega kolröng.

En hver er kjarninn þegar allt annað hrynur? Þegar veröldin okkar hrynur? Hvað er það sem fólk gerir þegar ógn steðjar að, jafnvel þegar það sér fram á að veröld þess muni farast? Hvað gerði fólkið í einni flugvélinni sem rænt var 11. september 2001 þegar það vissi að það myndi sennilega ekki lifa þetta af. Það reyndi að hringja í sína nánustu. Það reyndi að ná í fólkið sitt til þess að segja því að það elskaði það heitt. Það tók utan um hvort annað og sýndi ást og væntumþykju.

Þetta er svolítið mikilvægt að muna finnst mér. Einnig þá staðreynd að þegar hörmungar steðja að þá sýnir fólk oft sitt rétta eðli, kjarnann sinn sem er vel og vandlega falinn þess á milli. Ég hef sjálf upplifað mikla erfiðleika á hásléttu Tíbet þar sem ég ásamt hópi ferðamanna sátum föst á hásléttunni í yfir 5000 metra hæð án hæðaraðlögunar og margir uppskáru alvarlega hæðarveiki. Það var hrikalegt veður og engin undankomuleið. Þar sá maður hvernig sumir hjúfra sig í besta hornið án þess að þurfa kannski á því að halda þar sem þeir eru ekki veikastir en aðrir eru tilbúnir að berjast og hjálpa náunganum sem er verr staddur en þeir sjálfir. 

Án góðs mannlegs eðlis, án ástar og væntumþykju, án náungakærleiks getum við ekki lifað af.

Það er margt varðandi hið mannlega eðli sem við munum heldur aldrei skilja en þessi grundvallaratriði eru nokkuð ljós í mínum huga. Daglegt líf er svo allt annað mál þar sem fólk er oft í hrópandi ósamræmi við sjálft sig og er þá örugglega kjarni þess vel falinn eða týndur innst innan við mörg lög af fyrri reynslu, varnarháttum og mörgu öðru sem erfitt getur reynst að grafa upp sem stýrir í raun hegðun, hugsun og tilfinningum.

Ég held því að það sé gott að þroska smám saman sjónina á hinn innsta kjarna. Þannig verður maður tærari sem manneskja og hegðun manns, hugsun og tilfinningar í betra samræmi við það hver maður er í raun og veru. Og muna þessi grundvallaratriði eins og hverju maður myndi berjast fyrir ef það væri nú að koma heimsendir, hvað maður myndi gera og hvað myndi skipta máli.

Ekki hika til dæmis við að segja fólki að þið elskið það eða þyki vænt um það ef þið vitið að tilfinning ykkar er sönn. Það er áhætta að gera slíkt og það getur leitt til höfnunar, sorgar og reiði en þá hafið þið að minnsta kosti verið heiðarleg og opnað fyrir ykkar innsta kjarna og það krefst hugrekkis.

Eins og Jackson heitinn söng um... þá getum við öll gert heiminn að betri stað!


10 hollráð fyrir þig sem hyggur á þátttöku í stjórnmálum - samtakamáttur kvenna

Það er á ábyrgð okkar allra að kjörnir fulltrúar endurspegli þjóðina og fjölbreytileika hennar. Í marga áratugi hefur verið háð barátta fyrir jöfnum kynjahlutföllum í stjórnmálum sem annars staðar og hefur takmarkinu ekki enn verið náð þrátt fyrir að flestir séu sammála um mikilvægi þess. Okkur greinir á um leiðir og hvar ábyrgðin liggur. Stjórnmálaflokkarnir hafa allir gert eitthvað til að leiðrétta kynjamisréttið þó þeir hafi valið mismunandi aðferðir. Öll getum við þó verið sammála um að við viljum jafnrétti, að við verðum að hvetja til þess að það náist og leggja okkar af mörkum. Ein leið er til dæmis að hvetja konur til að taka þátt í stjórnmálum og komandi sveitastjórnarkosningum. Frændur okkar Danir fóru í átak á þessu ári til að hvetja konur til þátttöku og gáfu út handbók með góðum ráðum til handa konum sem hyggja á þátttöku í sveitastjórnum. Okkur þykir full ástæða til að miðla þessum góðu ráðum áfram til íslenskra kvenna og hvetja þær um leið til að hafa áhrif á umhverfi sitt með þátttöku í komandi kosningum.
  • 1. Láttu vaða - ekki draga úr kjarkinum með afsökunum eins og reynsluleysi eða þekkingarskort. Reynslan og þekkingin kemur með tímanum.
  • 2. Skráðu þig í stjórnmálaflokk - taktu þátt í grasrótarstarfinu í flokkunum, þar er tækifærið til að hafa áhrif á stefnuna og koma áhuga sínum á framfæri.
  • 3. Láttu í þér heyra - æfðu þig í því að taka til máls, skrifaðu greinar og taktu þátt í fundum.
  • 4. Lærðu af reynslu annarra - taktu eftir því hverjir hafa áhrif og hvernig.
  • 5. Vertu raunsæ - skoðaðu hvernig má samþætta vinnu, fjölskyldulíf og pólitíkina. Ekki ætla þér að vera fullkomin á öllum sviðum heldur gerðu þitt besta.
  • 6. Tryggðu þér stuðning fjölskyldunnar - þátttaka í stjórnmálum krefst tíma og þá er mikilvægt að hafa traust bakland og að skyldum heimilisins sé jafnt skipt.
  • 7. Styrktu tengslanetið - vertu dugleg að sækja fundi og taka þátt í félagsstarfi hjá hinum ýmsu þrýstihópum, það veitir reynslu og styrkir tengsl.
  • 8. Forgangsraðaðu - nýttu kraftana þar sem áhugasvið þitt liggur og reynsla þín nýtist best. Það gerir vinnuna skemmtilegri og árangursríkari.
  • 9. Vertu þú sjálf - stattu við sannfæringu þína og hafðu umburðaðlyndi fyrir skoðunum annarra.
  • 10. Mundu að staðan veitir tækifæri - með þátttöku í sveitastjórnarmálum getur þú haft áhrif á nærumhverfið og færð rödd til að láta í þér heyra í stjórnmálum og fjölmiðlum. Nýttu fagþekkinguna innan kerfisins.

Að auki má bæta því við að konur innan stjórnmála eru flestar meðvitaðar um mikilvægi þess að styðja og styrkja hver aðra á þeim vettvangi sem karlar hafa verið ráðandi. Nýttu þér reynslu annarra kvenna hvar í flokki sem þær standa og leitaðu ráða.

Sjáumst í baráttunni!

Þórey A. Matthíasdóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna

Drífa Hjartardóttir, formaður Landssamands sjálfstæðiskvenna

Drífa Snædal, framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs

Kolbrún Stefánsdóttir, varaformaður Frjálslynda flokksins

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar

(grein birt m.a. í Fréttablaðinu í dag, á www.visir.is og fleiri stöðum)


Grænt hjarta til þín

0E812366
Það kemur að þeim tímapunkti í lífi þínu að þú áttar þig á því,
hver skiptir þig máli
..og hver ekki
og líka, hver gerir það ekki lengur..
og hver mun aldrei gera það.
Og eins, hver mun ævinlega skipta öllu máli..
HAFÐU ÞVÍ EKKI ÁHYGGJUR AF FÓLKI ÚR FORTÍÐINNI,
Það var ástæða fyrir því að þau tilheyra ekki framtíð þinni.
Færðu hverjum þeim sem þú þekkir og vilt ekki glata, þetta hjarta,
þar á meðal mér.., ef þér er annt um mig.
Reyndu að krækja í 12, það er ekki víst að það reynist auðvelt..
Vertu vingjarnlegri en þú átt að þér, því allir sem þú hittir eiga við sinn vanda að stríða..

Þennan fallega texta fékk ég sendan í kvöld frá henni Þórey minni.

Það er mikið til í honum.

Lífið er ferðalag fullt af nýjum áskorunum, nýrri upplifun og nýju fólki. Suma rekst maður á í þessu lífi og deilir með þeim ákveðnum vegarspotta lífsins. Að því loknu skiljast leiðir og maður kveður fólk með ýmsar minningar í bakpokanum. Þær geta verið góðar, slæmar og oftast er það hvoru tveggja. Þá er um að gera að læra af þeim slæmu og líta á þær sem reynslu en fagna þeim góðu og varðveita sérlega vel. Ég er svolítið örlagatrúar og tel það ekki vera hreina tilviljun hverja maður rekst á í þessu lífi. Að vissu leyti á maður líka oft val um það hverjum maður fylgir og hverjum ekki. Suma rekst maður svo á aftur og aftur. Sumir ná svo langt inn í hjarta manns að manni finnst skrýtið að samfylgdin hafi einungis varað í þessu lífi jafnvel þó um stuttan spotta sé að ræða. Ég hef hitt nokkrar manneskjur í þessu lífi sem eru nánast eins og púsluspil inn í mína lífsgöngu. Manneskjur sem hafa verið mér ómetanlegar og munu vera það allt lífið.

Það sem kemur fram í lokin á þessum texta finnst mér skipta miklu máli. Þar segir að maður eigi að vera vingjarnlegri en vanalega því allir eigi við sinn vanda að stríða. Þetta er mjög mikilvægt. Oft þegar við rekumst á einhvern sem við upplifum að komi illa fram við okkur eða er hreinlega bara önugur í erli dagsins þá erum við fljót að túlka það okkur í óhag... "Hann þolir mig ekki, mikið hlýt ég að vera leiðinleg". Þegar mergur málsins er sá að oft líður fólki bara mjög illa sjálfu og hefur því ekki neina gleði að gefa þann daginn án þess að það tengist manni sjálfum á neinn hátt. Þess vegna er ágætt að spyrja fólk bara vinalega í stað þess að búa sér til órökstuddar getgátur.

Gerðu eitthvað góðverk á hverjum degi, þó ekki sé nema bara að hrósa einhverjum fallega, brosa til ókunnugrar manneskju, rétta einhverjum eitthvað, hjálpa starfsmanni að stóla upp í stað þess að horfa á hann gera það og þannig má endalaust telja upp. Með því verður heimurinn okkar strax mun vingjarnlegri og betri.

Ég held að þessi tímapunktur sem maður átti sig á hver skipti máli og hver ekki sé ekki til. Það er ekki ein stund sannleikans þar sem þetta rennur allt upp fyrir manni heldur er þetta eitthvað sem maður er stöðugt að meta og endurmeta.

Svo er þetta líf svo merkilegt að maður veit ekkert hvað er framundan. Fortíðin er liðin, nútíðin er hér og framtíðin er ókomin. Ég er einmitt að fylgjast með þætti í sjónvarpinu sem heitir framtíðarleiftur og fjallar um að allir jarðarbúar missa meðvitund í tvær og hálfa mínútu og sjá hálft ár fram í tímann í framtíðarleiftri. Það væri nú ákaflega áhugavert að vita hvernig staðan verði og hvar maður verði eftir hálft ár!


Lífsins dýrmætu andartök

beach-6Það eru þau andartök þar sem maður lifir í fullkominni sátt. Sæll og glaður með einmitt það andartak sem líður hjá. Sæll með umhverfið sem maður er í og fólkið sem maður er með. Sæll með það hlutverk sem maður er í og þeim árangri sem maður er að ná. Svona andartök liggja ekki á silfurfati þar sem svo oft erum við vansæl með eitthvað sem vantar eða óánægð með að hlutirnir séu ekki nákvæmlega eins og við vildum hafa þá. Náum ekki að njóta andartaksins því við erum föst í síðasta andartaki eða því hvað gerist næst.

Vitur maður sagði að til þess að öðlast hamingju í þessu lífi þá skipti miklu máli að við værum sátt við okkur sjálf (sjálfsmyndin í lagi) og sátt við það sem við skildum eftir okkur að þessu lífi loknu (hafa lokið hlutverki okkar). Þá væri tilgangi lífsins náð.

Ég held að það sé mikilvægt að fanga lífsins dýrmætu andartök á meðvitaðan hátt því ótal svona andartök fljúga framhjá okkur á hverjum degi. Stundum nær maður að njóta þeirra, stundum ekki. Þetta geta verið andartök eins og að sjá bara hvað stjörnurnar eru fallegar á himninum, hvað fuglinn á handriðinu er skemmtilegur á sínu vappi, bros frá barni, barnshlátur, óendanlega fallegt landslag þar sem maður ekur um okkar fagra land - listaverk í ramma við hvern kílómetra, yndisleg stund á veitingastað með dýrmætasta fólkinu sínu, gleðistund með vinunum, augnaráð sem mætir þér og skilur þig, að njóta lystisemda lífsins alveg laus við daglegar hugsanir og áhyggjur, að standa á fjallstoppi að lokinni göngu upp, að svamla í tæru vatni, göngutúr einn í ómældri náttúrufegurð, augnablik yfir góðum Latte á uppáhalds kaffihúsinu og fylgjast með mannlífinu í fullkominni sátt...

Þegar maður er heltekinn af áhyggjum og hugsunum þá er svo mikilvægt að ná að kúpla sig út og bara njóta. Hver og einn getur búið til sinn lista um lífsins dýrmætu andartök í huganum á svipstundu. Þetta eru stundirnar að mínu mati sem skilja eftir sig dýrmætustu minningarnar. En í stað þess að njóta bara minninganna er mikilvægt að ná að grípa andartakið og njóta þess líka því það kemur ekki aftur þó minningin lifi sem spegilmynd á vegg hugans.

Það er svo auðvelt að festast í hinu hversdagslega lífi að maður hreinlega hættir að sjá lífið sjálft.

Hvet þig kæri lesandi til þess að staldra við og grípa nokkur dýrmæt andartök um leið og þau gerast á morgun!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband