Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ömurleg áramótagjöf ríkisstjórnar til Íslendinga og ófæddra kynslóða

Maður getur ekki annað en verið fullur trega eftir að fylgjast með þeim hörmungum sem áttu sér stað á Alþingi í kvöld. Sá ótti sem maður bar í brjósti varð að veruleika. Það sannaðist að enginn kjarkur, dugur eða þor er í leiðtogum þeim sem leiða ættu þjóð sína til betri framtíðar.

Þess í stað stendur þessi ríkisstjórn ekki í lappirnar, sýnir aumingjaskap og kjarkleysi og beygir sig undir ógnarvald okkur stærri þjóða sem kæmi manni ekki á óvart að hefðu flaggað flýtiferð inn í bandalag Evrópu fyrir verknaðinn og góðum afslætti á þessum skuldum þegar allt verður í óefni komið og sannfæra þarf þjóðina um að láta af sjálfstæði sínu, ganga í Evrópuklúbbinn og selja auðlindir sínar fyrir slikk.

Ég skammast mín fyrir leiðtoga þessa lands. Hvar er íslenski kjarkurinn sem forverar okkar höfðu þegar þeir börðust við Breta í þorskastríðunum, börðust fyrir landhelgi Íslands og börðust fyrir sjálfstæði þjóðar sinnar. Þann kjark er ekki að finna í núverandi stjórn þessa lands sem veitir ekki einu sinni möguleika á því að fara með slíkt ósanngirnis, óréttlætis og einhliða mál fyrir dómstóla. Nei, málið er samþykkt án dóms og laga og þjóðin hneppt í skuldafangelsi!

Skömm sé ríkisstjórn Íslands og þeim þingmönnum sem greiddu þessum óskapnaði atkvæði sitt og lögðu um leið ókleyfar byrðar á saklausa þjóð. Skömm sé þeim sem bera munu ábyrgð á því að almenningur þarf að greiða 100 milljónir í vexti á dag um ómælda tíð og sitja uppi með skuldir sem eru 320% af vergri landsframleiðslu sem er 80% umfram það sem álitið er sem þjóðargjaldþrot.

Ég treysti á samvisku Vinstri grænna sem brugðust því miður.

Hvernig samfélag verður hér að finna eftir slíka aðför að almenningi? Það er margt sem maður óttast verulega og eitt af því er að ekki munu bara auðmenn þessa lands flýja land sem margir hafa þegar gert það heldur margir aðrir sem einhvern möguleika eiga á betra lífi í öðrum löndum.

Nú er forsetinn síðasta hálmstráið.


mbl.is Alþingi samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Vér mótmælum öll"

Kæru Íslendingar,

mótmælum því að verið sé að hneppa okkur í skuldaþrældóm!

Við eigum að borga fyrir skuldir óreiðumanna, skuldir sem við berum enga ábyrgð á. Skuldir sem eru afsprengi sjúklegrar græðgi, vita vonlauss regluverks runnið undan rifjum EES samningsins og ESB. Skuldir sem eru tilkomnar vegna handónýts eftirlits.

Verðum við látin greiða þetta þá munum við þurfa að borga 100 milljónir í vexti af þessum óskapnaði á hverjum einasta degi um ókomin ár. Við vitum ekki einu sinni hversu lengi og hversu mikið við komum til með að borga á endanum. Á sama tíma er verið að klípa af öllu sem mögulegt er og verið að tína krónur og aura úr götóttum vösum almennings. Fólks sem búið er að sníða þrengsta mögulega stakk eftir vexti. Það er ekki nóg. Það er bara klippt af vestinu. Nýleg skerðing á fæðingarorlofi foreldra ófæddra barna okkar er svínslegt dæmi um það. Hvernig samfélag mun þetta skilja eftir sig?

Við eigum að fara með mál okkar fyrir alþjóða dómstóla og leita réttar okkar. Við eigum að auki að tryggja það að gerð verði upp þau hörmulegu mál sem átt hafa sér stað og menn dregnir til ábyrgðar. Við eigum að byggja upp nýtt regluverk og læra af mistökum fortíðar og við eigum að tryggja að hér verði eftirlit með því sem fram fer hjá stjórnvöldum og í viðskiptalífinu.

Við eigum ekki að halda áfram og gera samninga við menn sem liggja undir grun fyrir stórfelld brot og við eigum ekki að ráða til ábyrgðarstarfa fólk sem ber klárlega mikla ábyrgð á því hvernig fór. Á þeirri slæmu vegferð er ríkisstjórn Íslands. Sama stjórn og leynir upplýsingum og stendur hvorki við samráð það eða gagnsæi sem þeim var svo tamt að tala um þegar kaupa átti hylli kjósenda s.l. vor.

Með breyttu háttalagi eigum við von til þess að reisa hér nýtt og betra samfélag og öðlast traust hvers annars og alþjóðasamfélagsins á ný.

Það er sorglegt að við skulum ekki taka höndum saman sem þjóð og berjast gegn því ægivaldi sem nú vofir yfir okkur. Það er sorglegt að þessir annars ágætu flokkar Samfylking og Vinstri grænir skuli ekki hafa kjark til þess að berjast fyrir heill þjóðar sinnar. Það er sorglegt að íslenska þjóðin skuli ekki geta treyst leiðtogum sínum til þess að berjast fyrir hag alþjóðar en þess í stað beygja sig undir kúgun, óheiðarleika og ofbeldi stórvelda og gerast meðvirk í þessu sjúklega ferli. Ég held að þessu ágæta fólki geti ekki verið sjálfrátt. Hver gerir þjóð sinni þetta?

Ég mótmæli þessum óskapnaði harðlega. Ég mótmæli þessum hörmulegu vinnubrögðum og ég mótmæli óhæfri ríkisstjórn.


mbl.is Icesave-umræðu lýkur í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólagjöf ríkisstjórnarinnar til verðandi foreldra

Þessi lög voru samþykkt þann 18.12.09 s.l. og fóru ekki mikinn í fjölmiðlum.

Þetta er jólagjöf ríkisstjórnarinnar til verðandi foreldra. Ekki þarf að kynna þann vandræðagang sem verið hefur um þetta mál þar sem m.a. tillögur um að fresta mánuði af fæðingarorlofinu í 3 ár fóru í umræðuna. Tillögur sem eru að mínu mati alveg út úr kortinu. En þetta var sem sagt lendingin og er það nú svo að fólk á leið í fæðingarorlof mun þurfa að horfa upp á að búið er að höggva í þetta góða kerfi í þriðja sinn. Kerfi sem skipt hefur sköpum í jafnréttisbaráttu kynjanna og er að mestu leyti tilkomið vegna góðra verka okkar Framsóknarfólks. Benda má á það í þessu samhengi að með þessu sparast klink samanborið við þá vexti sem við munum bera verði Icesave samþykkt sem eru um 100 milljónir á dag!!! Það fjármagn á m.a. að sækja í vasa verðandi foreldra þessa lands.

Breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof

Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og gildir breytingin fyrir foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2010 og síðar. Annars vegar lækkar hámark greiðslna úr 350.000 kr. á mánuði í 300.000 kr. á mánuði. Hins vegar lækkar útgreiðsluprósenta af meðaltali heildarlauna umfram 200.000 kr. úr 80% í 75%. Meðaltal heildarlauna að 200.000 kr. er því áfram með útgreiðsluprósentuna 80% en fjárhæð meðaltals heildarlauna sem umfram er verður þá með útgreiðsluprósentuna 75%. Frekari upplýsingar um þetta (www.faedingarorlof.is) og á http://www.althingi.is/altext/138/s/0496.html


Hið nýja Ísland Samfylkingarinnar

Þorbjörn Þórðarson skrifar:

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, hefur tilnefnt sjálfan sig í stjórn Íslandsbanka. Jón Sigurðsson hefur verið tilnefndur sem formaður í stjórn bankans. Jón var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins á síðasta ári þegar skilanefnd Glitnis var skipuð, en Árni Tómasson var einmitt skipaður af FME.

Skilanefnd Glitnis bíður nú eftir samþykki FME á þeim 6 stjórnarmönnum sem skilanefndin hefur tilnefnt í bankaráð Íslandsbanka. á meðal þeirra sem eru tilnefndir er Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, en Jón var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins fram að hruni, en hann var skipaður formaður þess í ársbyrjun 2008.

Jón Sigurðsson hefur rík tengsl við Samfylkinguna og var skipaður stjórnaformaður FME af Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra. FME skipaði síðan skilanefnd Glitnis, sem stofnaði ISB Holding ehf. sem tilnefndi Jón Sem stjórnarformann Íslandsbanka og fimm aðra stjórnarmenn.

Glitnir er þrotabú og getur lögum samkvæmt ekki átt banka. Þess vegna var farin sú að leið að stofna ISB Holding ehf. sem sótti síðan um leyfi hjá FME til að eiga 95 prósent hlut í Íslandsbanka. Í stjórn þess félags eru Marta Eiríksdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í Íslandsbanka. Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og María Björg Ágústsdóttir, starfsmaður skilanefndar Glitnis.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafði ISB Holding ekkert með tilnefningu Jóns og Árna að gera, heldur hafði tilnefning hans verið ákveðin áður. Ákvörðun um tilnefningu var tekin af skilanefnd Glitnis.

Á glærukynningu sem sýnd var lokuðum hópi kröfuhafa, svokölluðum ICC-kröfuhafahópi, var Árni sjálfur nefndur sem stjórnarmaður ásamt Jóni. Í stuttu máli er það því Árni Tómasson sem skipar Árna Tómasson, í stjórn bankaráðs Íslandsbanka. (tekið af www.visir.is í dag).

Áhugaverð lýsing á þessum sama Jóni tekin af vef Egils Helgasonar http://silfuregils.eyjan.is/:

...Skiptir þá engu að Jón var annar helsti valdamaðurinn í þeirri stofnun sem átti að hafa eftirlit með íslenska bankakerfinu á tímanum þegar það hrundi.

Þrátt fyrir það telur Herðubreið að hann njóti mikillar virðingar erlendis.

Rifjast þá upp að forstjóri FME hélt hundrað fundi á síðustu misserum bankakerfisins þar sem hann lýsti því hvað það væri frábært. Og að í ágúst 2008 stóðust íslensku bankarnir álagspróf FME með glans, það var innan við tveimur mánuðum fyrir hrun.

Og að sjálfur stjórnarformaðurinn kom fram í auglýsingapésa frá Landsbankanum þegar Icesave reikningarnir voru opnaðir í Hollandi – fyrripart árs 2008. Bæklingurinn bar yfirskriftina Icesave launched in the Netherlands en fyrirsögn viðtals við Jón Sigurðsson sem þar birtist var Finances of the Icelandic banks are basically sound...

Er þetta það sem Samfylkingin ætlar að bjóða fólki upp á? Er þetta hið nýja Ísland þessa flokks? Glæsileg byrjun! Þetta fer að minna óhugnanlega á Fagra Ísland sama flokks sem aldrei varð pappírsins virði.

Flokkurinn sem gagnrýnt hefur harðlega fyrri ríkisstjórnir keppist nú við það eins og enginn sé morgundagurinn að raða sínu fólki á jöturnar til þess að japla á þeim feitu bitum sem eftir eru og urðu ekki brunanum að bráð. Þar að auki virða þeir að vettugi sjálfsagðar óskir skuldaþræla þessa lands eins og þær að breyta vinnubrögðum til hins betra eins og að auka gagnsæi. Sjálfsagt þykir þeim að auki að semja við einn mesta geranda hrunsins um það að taka þátt í uppbyggingunni.

Sami flokkur og keppist nú við í samstarfi við flesta Vinstri græna að sökkva landsmönnum og komandi kynslóðum í skuldafen skulda sem þessir nýju skuldaþrælar bera enga ábyrgð á. Þessum flokki finnst greinilega ekki borga sig að taka neina áhættu á því að fara með slíkt vafamál fyrir dómstóla til þess að reyna á hvort við eigum að greiða þessa vægast sagt vafasömu skuld sem er m.a. tilkomin vegna gallaðs regluverks Evrópu.

Sennilega vegna þess að með því að setja niður fæturnar og standa í lappirnar gætum við mögulega styggt einhvern og átt erfiðara með að komast inn í Evrópusambandið sem þessum flokki er svo afar umhugað um að komast í, sama hvað það kostar. Eitt af fáum kosningaloforðum sem þeir ætla sér að efna. Þó það kosti það að þjóðin sé skuldsett 320% af vergri landsframleiðslu og þó búið sé að nefna það af málsmetandi aðilum að við 240% sé komið yfir markið sem þjóðin geti ráðið við. Þrátt fyrir að færustu sérfræðingar og greiningar mæli gegn því að takast þessa skuld á hendur.

Nei, skuldirnar skulum við borga sama hvað tautar og raular. Við skulum ekki veita neina mótspyrnu heldur beygja okkur undir kúgun þessara stórvelda sem okkur langar svo mikið að komast í klúbbinn með. Sama þó það kosti það að lífskjör hér verði með versta móti, miðstéttinni verði útrýmt og fólk flýji land. Við skulum hækka skatta upp úr öllu valdi og við skulum setja á auðlindagjald þannig að þeir sem eiga fjármagn hér (stolið eða óstolið) keppist við það að flytja ríkisföng sín til annarra landa svo þeir geti greitt skattana sína til annarra þjóða eins og góðvina okkar Breta sem ætla að auki að rukka okkur um 3 milljarða vegna óskilgreinds kostnaðar. Ofan á hinar litlu 45 milljarða sem við ætlum að greiða þeim í vexti af Icesave á ári.

Okkur þvengmjóu mjólkurkýrnar (þær sem mjólka rjómann er fluttar) sem enn eru eftir hér á landi munar nú ekkert um það að mjólka ofan í þá 100 milljónir á dag í vexti af Icesave, er það nokkuð? Við klípum líka bara meira af eldri borgurum, barnafólki og þeim sem minna mega sín og tökum kaffi af öllum kaffistofum landsins þá hlýtur þetta að hafast.

Og þegar við höfum gert þetta í nógu langan tíma, selt slatta af auðlindum okkar upp í skuldir þá hljótum við að fara að verða gjaldgeng í samfélag þjóðanna á ný. En verður það spennandi samfélag sem verður á að líta hér?

Glæsileg framtíðarsýn. Þvílíkt hugrekki, þor og dirfska sem býr í ríkisstjórn þessa lands. Minnir mann bara á þorskastríðin. Maður fyllist bara stolti, já eða þannig.


mbl.is Lokaumræða um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samvinnuhugsjón flugeldasölunnar

flugeldar
 

Samvinna er nokkuð sem við Íslendingar höfum notað frá fyrstu tíð til þess að komast af í þessu harðbýla landi. Menn hjálpast að, allir leggja eitthvað af hendi og saman kemst heildin lengra án þess að einn aðili sé að reyna að græða sérstaklega á öðrum.

Segja má að flugeldasala björgunarsveitanna sé byggð að einhverju leyti á samvinnuhugsjóninni. Björgunarsveitirnar eru lífæð okkar þegar við þurfum mest á hjálp að halda. Menn þeirra eru til staðar fyrir okkur hverja einustu klukkustund, alla daga ársins, hvernig sem viðrar eða hvernig sem færð er. Það sem við getum lagt á móti er að styðja rækilega við bakið á þessum mikilvæga velferðarher okkar.

Ég hvet þig því kæri lesandi til þess að versla vel af flugeldum í ár og beina viðskiptum þínum eingöngu til björgunarsveitanna. Einkaaðilar sem eru að selja flugelda eru ekki til taks þegar þú eða þínir þurfa mest á þeim að halda. Þeir eru bara að reyna að græða pening!

Byggjum því á samvinnuhugsjóninni. Styðjum glæsilega við bakið á björgunarsveitum okkar og í staðinn njótum við góðs liðsafla til þess að koma okkur og ástvinum okkar til hjálpar þegar mest á reynir!

 


mbl.is Björgunarsveitir bjartsýnar á flugeldasöluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólahefðir - jólaandi

image001[1]
 

Í þessum rituðu orðum eru landsmenn flestir að fagna hátíð ljóss og friðar. Ég óska þess að allir nái að njóta jólahátíðarinnar eins og best verður á kosið.

Ég hef verið að hugsa um jólahefðir. Hversu mikilvægar þær eru. Það er eitthvað við jólin hjá hverjum og einum sem er alveg heilagt. Eitthvað sem maður heldur í á hverju ári. Eitthvað sem segir manni að nú sé komið að þessari stund enn á ný.

Af hverju ætli jólin skipti okkur flest svona miklu máli? Ég hef verið að velta þessu fyrir mér. Ég held að það sem skipti máli sé það að á þessum dögum þá kemst maður nærri sjálfum sér og öðrum en vanalega. Tilfinningar manns eru óvenju lifandi þessa dagana og maður hugsar meira um sjálfan sig, þá sem maður elskar og náungann. Hið hefðbundna dægurþras við sjálfan sig og aðra fær að víkja.

Eitt af því sem er mér alveg heilagt á jólum er að fara í kirkjugarðana og sjá öll fallegu ljósin og þann bjarma sem lýsir allt upp þar. Hvert einasta ljós er tákn um lífshlaup. Hvert einasta ljós er tákn um að einhver skuli minnast og virða þessa manneskju sem nú er fallin frá. Minningin lifir er sagt og það á virkilega vel við um jólin þegar minningar lifa og lýsa upp kirkjugarðana. Þær lýsa líka upp hjörtu okkar því manni verður mun meira hugsað til annars fólks. Maður fer yfir fyrri ár, og árið sem er að renna sitt skeið í huganum og skoðar minningar. Það verður fátt dýrmætara í þessu lífi en góðar minningar. Svo kveikir maður ljós á leiði látinna ættingja til að heiðra þessa minningu, sendir þeim sem eru manni kærir jólakveðju og gefur einnig gjafir til að gleðja þá sem standa manni næst.

Á jólum er þetta það sem ég tel vera mikilvægast. Ekki hver fær stærstu og dýrustu gjöfina eða hver gaf stærstu eða dýrustu gjöfina. Það er augnablikið og það er fólkið sem skiptir máli. Þessi ólýsanlega orka sem myndast þegar fólk nær að hleypa fram þeim kærleika sem við öll eigum óhindrað í gleði hátíðarinnar. Það eru sjálf jólin. Toppurinn er svo gleði barnanna sem ná að sýna hana í leik og gleði. Ég held að þegar fólk eignist börn þá endurheimti það á einhvern hátt sín eigin barnajól á  ný með því að lifa jólin með börnum sínum. Þannig eru jólin mismunandi eftir því á hvaða lífsskeiði maður er en þau eru alltaf þessi dýrmæti pendúll sem kemur enn á ný, ár eftir ár og mikið má maður vera þakklátur fyrir að hafa fengið að njóta þeirra enn á ný.

Gleðilega hátíð kæru vinir, megið þið öll njóta ljóss og friðar á nýju ári og upplifa hinn sanna jólaanda :).


Jólakveðja

234 

Kæru vinir!

Óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar, ljóss og friðar á nýju ári.

Kær jólakveðja,

Kidda.


Viðsnúningur kl. 17:47 - bjartari tímar framundan?

Í dag er lengsti dagur ársins. Sennilega finnur hver einasti Íslendingur fyrir þunga skammdegisins hvernig hann liggur á herðunum á okkur og hefur verið að leggjast æ þéttar á okkur undanfarnar vikur. Það sem heldur okkur gangandi eru fallegu jólaljósin, einfaldleiki lífsins og vonin sem við sjáum í augunum á hverju öðru.

Kl. 17:47 mun þetta allt breytast til batnaðar. Þá fer í bókstaflegri merkingu stjörnufræðanna að birta hjá okkur á ný og daginn að lengja sem ná mun hámarki í júní. Þá verður þessi erfiði vetur að baki og nýtt sumar með sól og fögrum fyrirheitum tekið við. Sama hversu erfitt árar þá bræðir sólin alltaf ísinn að lokum og nýtt líf kviknar með vorinu og söng fuglanna.

En það eru hins vegar váleg tíðindi í kortunum fyrir okkur íslenska þjóð. Við erum að berjast við ægivald annarra þjóða og sitjum undir kúgun og fantabrögðum. Við sitjum í súpu sem við flest áttum lítinn þátt í að hræra í. Og það kaldhæðnislega í þessu er það að þeir sem lögðu mest til hráefni í þessa súpu eru snyrtilega komnir með póstfang í Bretlandi. Já, hluti þeirra sem sökktu okkur í þetta skuldafen vegna græðgi og óhófs kýs það að borga Gordon Brown og Alistair Darling frekar skattana sína heldur en taka þátt í endurreisn sinnar eigin þjóðar. Þrátt fyrir að hafa keyrt þetta litla samfélag á heljarþröm. Þeir vilja frekar styrkja þjóð þá er setti hryðjuverkalög á Ísland vegna þeirra eigin gjörða en sýna ábyrgð og moka upp eftir sig hér á landi. Og það sem enn merkilegra er að upphaf þess fjármagns sem þeir hafa spilað með eins og pókerpeninga í útlöndum má meðal annars rekja allt ofan í sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Er það furða að þjóðin sé reið og vonlaus og með ögn af svartsýni?

Ríkisstjórninni hefur nefnilega stórlega mistekist enn sem komið er að ráða eitt við neitt og með nýjasta útspilinu, auðlindagjaldinu þá hafa þeir hvatt til þess að hluti "þeirra ríku" (hvaðan svo sem auður þeirra er nú kominn) kjósa frekar að borga Gordon Brown en leggja til samfélagsins hér. Þetta leiðir til þess að dugleg íslensk millistétt sem eytt hefur stórfé í að mennta sig eða afla sér reynslu mun þurfa að borga fyrir sukk súpuna sem mun svo aftur auka verulega hættuna á því að sá hópur flýji land bjóðist grænna gras annars staðar. Þetta er ekki í lagi og það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af þessu. Á meðan efnamenn flýja í hrönnum til Bretlands eða aflandseyja hér og þar sitjum við hin eftir og greiðum fáránlega háa skatta, jafnvel hátekjuskatt af okkar lágu tekjum. Á sama tíma er öll þjónusta skert svo verulega að hætta skapast af því að stór bakreikningur myndist víðs vegar í kerfinu t.d. velferðarkerfinu.

Ég er því svartsýn eins og stjórnarandstaðan og deili ekki bjartsýni hæstvirts fjármálaráðherra sem virðist ekki sjá afleiðingar hinnar ógurlegu vinstri leiðar að skattleggja hér og þar og alls staðar svo allir hafi það nú jafn skítt og hver maður sem getur forði sér undan ef mögulegt er.

Ég er þó bjartsýn kona að eðlisfari og ætla að fagna bjartari tímum á landi hér og síhækkandi sól á lofti. Ég hef fulla trú á íslensku þjóðinni, krafti hennar, þor, þekkingu og dirfsku. Íslenska þjóðin mun alltaf bjarga sér. Hitt er annað mál að það skiptir máli hér að um raunverulegt réttlæti verði að ræða. Það skiptir máli að það náist í skottið á þeim sem bera ábyrgð og það skiptir máli að endurheimt verði það fé sem stolið hefur verið af þjóðinni. Það skiptir einnig máli að raunverulegur lærdómur verði uppskera þessara ömurlegu aðstæðna og breyting verði á regluverkinu, eftirlitinu og stöðu þeirra sem ábyrgð bera á öllu saman. Öll getum við lært eitthvað af þessu, mismikið eftir því hversu djúpt við sukkum í súpuna.

Við megum ekki verða meðvirk í þessu sjúklega ástandi og þakka bönkunum bara kurteist og pent fyrir að lengja í lánunum okkar með öllum sínu fínu vel auglýstu leiðum. Sömu bönkunum og vildu ólmir lána okkur allar heimsins fjárhæðir fyrir öllu og engu. Þeir græða svo hressilega á sínum eigin mistökum þar sem flest þessara úrræða eru þannig að reikningurinn verður hærri fyrir skuldarann. Búið að tryggja fjármagnseigendur og afskrifa hjá þeim sjúklega gráðugu en íslenskur almenningur skal bara greiða sín kexrugluðu lán með bros á vör og þakka fyrir góða þjónustu við þessi frábæru úrræði sem eiga að taka á þeim vanda sem bankarnir og stjórnendur þeirra bera stóra ábyrgð á. Merkilegur heimur sem við búum í. Á sama tíma má fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu blæða út og ekki hugnast stjórnendum þessa lands að koma til móts við skuldaþrælana sína með afskrift eða nokkurs konar leiðréttingu.

Og ofan á allt þá keppast stjórnvöld við að klípa af beinagrindum í stað þess að skera fituna af feitustu skrokkunum með fáránlegum hugmyndum eins og því að fresta mánuði af töku fæðingarorlofs um heil þrjú ár eins og það sé svo auðvelt að skutla sér úr vinnunni þremur árum seinna, taka barnið af leikskóla og skapa þá ónýtt pláss þar svona til að kóróna ruglið. Hver er ráðgefandi fyrir þessa ríkisstjórn? Á það fólk ekki börn eða hvað? Svona vanhugsaðar hugmyndir eiga ekki einu sinni að geta litið dagsins ljós, hvað þá að fara í umræðuna! Skera í kerfi sem búið er að höggva tvisvar sinnum í og verðandi foreldrar með barn á leiðinni geta ekki staðið sín fjárhagsplön þar sem breytingar á kerfinu sveiflast eins hratt og gengi krónunnar.

Það er því full ástæða fyrir okkur öll til þess að vera vel á verði og veita blessuðum stjórnvöldum okkar öflugt aðhald því vanhugsaðar ákvarðanir þeirra geta haft mun meiri áhrif á daglegt líf hvers og eins okkar en okkur geðjast að og við viljum horfast í augu við.


mbl.is Fjármálaráðherra segir bjartari horfur framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ert þú búin/nn að greiða atkvæði um Icesave?

Íslendingaval ný leið til rafrænnar atkvæðagreiðslu stendur fyrir atkvæðagreiðslu um Icesave samninginn inni á vefnum Eyjunni www.eyjan.is

Til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslunni þarft þú að fara inn í heimabankann þinn og nálgast lykilorð þar.

Hvet þig til þess að taka þátt því rödd þjóðarinnar verður að heyrast og hafa áhrif á hvernig Alþingi afgreiðir eitt mikilvægasta mál samtímans.


Ríkisstjórn sem er ekki sammála þjóð sinni

Hvernig stendur á því að ríkisstjórn sú sem vill kenna sig við félagshyggju og virkt samráð skuli gera sig svona hróplega seka um það að dengja hrikalegum skuldum á saklausa íbúa þessa lands án þess svo mikið sem að reyna að standa í lappirnar og skoða þær leiðir sem mögulegt er að skoða áður en skuldasúpan er kokgleypt?

70% þjóðarinnar vill að forsetinn staðfesti ekki Icesave.

33 þúsund manns hafa skrifað undir á lista Indefence (www.indefence.is) um að hann skrifi ekki undir. Hvet þig til að skrifa undir ef þú ert ekki þegar búin/nn.

Fólk vill fá að taka sjálft ákvörðun um þetta stóra mál. Eigum við sem almenningur ekki rétt á þjóðaratkvæðagreiðslu um jafn umdeilt og afgerandi áhrifamikið mál sem mun snerta hag okkar allra um langa ókomna tíð?

Það eru bara alls ekki allir sammála þeirri meðhöndlun sem þetta mál hefur fengið í þinginu og margir telja að ekki hafi verið fullreynt að leita réttar okkar á því að takast á hendur skuldbindingar sem leggjast á okkur með mjög vafasömum lagalegum hætti og snúa að ábyrgð fleiri landa en okkar. Það er bara ekki réttlætanlegt að leggja slíkar skuldir einkaaðila sem fengu að spila með óútfylltan tékka án eftirlits eða regluverks á almenna borgara. Hvorki eftirlit né regluverk var í lagi hér á landi eða erlendis og almenningur á Íslandi látinn gjalda fyrir það.

Þetta mál á skilið réttláta dómsmeðferð í alþjóðasamfélaginu og íslensk stjórnvöld eru aumingjar að beygja sig undir slíkt ofbeldi án þess að steyta hnefann og kokgleypa þetta yfir þjóð sína.

Vinnubrögðin hafa einkennst af því að reyna að keyra þetta óséð í gegnum þingið, þekkingarleysi á flóknum lagalegum atriðum og hótunum í upphrópunarstíl. Þar að auki bregðast afbragðs þingmenn á undarlegasta hátt við eins og Atli Gíslason sá ágæti maður sem er of upptekinn að sinna skyldum á lögfræðiskrifstofu sinni til þess að taka þátt í einni mikilvægustu atkvæðagreiðslu sem nokkur þingmaður þarf að taka þátt í. Trúverðugt?

Er það vegna þess að ef við greiðum ekki þennan tékka þá fáum við ekki að vera með í ESB klúbbnum? Á svo að nota það sem agn til að lokka þjóðina inn í ESB að við gætum fengið eitthvað af þessu fellt tilbaka. Það er ljótur leikur sem ég vona svo sannarlega að sé ekki í gangi.

Tek undir með Páli Óskari í Kastljósinu áðan! Ég er ein þeirra sem vil fá að greiða atkvæði um þetta. Að auki vil ég ríkisstjórn sem getur staðið í lappirnar fyrir mína hönd og lætur ekki ginnast af gylliboðum og hótunum ESB og handbendla þeirra.

Ég vil ríkisstjórn sem stendur með þjóð sinni!


mbl.is Icesave mun ekki hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband