Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gefðu þér algerlega lausan tauminn!

 

Ég er að lesa þessa dagana framhald bókar sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og fjallar um munkinn sem seldi sportbílinn sinn. Höfundur þessara bóka er Robin S. Shauna.

Mig langar að deila með ykkur tveimur perlum en þessar bækur eru uppfullar af þeim.

Þessi perla er brot úr texta sem Mary Cholmondeley skrifaði fyrir löngu.

Með hverju árinu sem líður verð ég sannfærðari um að sóun lífsins felist í ástinni sem við höfum ekki veitt, kröftunum sem við höfum ekki virkjað, hinni ofurvarfærnu sjálfshyggju sem vill ekki leggja neitt í sölurnar til þess að komast hjá sársauka og nýtur því engrar hamingju heldur. Enginn hefur nokkurn tíma tapað á því, þegar til lengri tíma er litið, að gefa sér algerlega lausan tauminn. (Uppgötvaðu köllun þína með hjálp munksins sem seldi sportbílinn sinn, bls. 63).

Mér finnst þessi tilvitnun alveg frábær. Hún hvetur mann áfram til þess að gefa sér lausan tauminn, horfast í augu við það sem við óttumst, fara út fyrir þægindahringinn og láta vaða. Þannig verður líf okkar stórfenglegt og engu líkt.

Allt of oft erum við sjálfu okkur fjötur um fót. Við teljum okkur í sífellu trú um að þetta eða hitt sé ekki fyrir okkur eða við getum ekki eitt eða annað. Án þess að reyna, án þess að gefa okkur lausan tauminn og lifa lífinu til hins ýtrasta. Stundum erum við föst í okkar eigin kassalaga boxi. Fangar í okkar eigin þægindahring.

Afleiðing þess er sú að við förumst á mis við að komast að raun um hver við erum og hvað við getum. Við missum af gullnum augnablikum í lífinu af því við tókum ekki skrefið til fulls. Við missum af tækifærum til þess að glæða líf okkar innri eldi og fylla loftið umhverfis okkur af hamingju.

Ég held að við eigum að láta vaða. Gera meira af því sem við erum ekki 90-100% viss um að takist! Vissulega munum við stundum verða fyrir sársauka og stundum eru hlutirnir erfiðari en við héldum. En reynslan er oft sú að það er ekki nálægt þeim fórnarkostnaði sem við höfðum gert ráð fyrir í upphafi. Og þrátt fyrir að detta stundum fram fyrir okkur þá er hægt að græða sárin og læra af þeim. Þá getum við amk. verið ánægð með að hafa gert okkar besta, látið vaða, reynt. Það munum við þakka sjálfum okkur fyrir þegar við förum yfir lífshlaup okkar því það sem margir iðrast mest þegar styttist í annan endann á dvölinni hér á jörð er einmitt það sem fólk gerði aldrei.

Ekki sóa lífinu, veittu alla þá óendanlegu ást sem þú átt (þrátt fyrir að vera ekki með tryggingu fyrir að hún verði endurgoldin), virkjaðu alla þína krafta, leggðu allt í sölurnar (þó það kosti stundum sársauka), njóttu hamingjunnar sem þú uppskerð fyrir dirfskuna og gefðu þér algerlega lausan tauminn með því að stökkva langt út fyrir þægindahringinn!

Þrátt fyrir að stundum sé erfitt þá er gott að muna hina perluna sem er ættuð úr Spámanninum eftir Kahlil Gibran:

"Innst inni í iðrum hvers vetrar bíður titrandi vor. Og handan við myrka blæju næturinnar bíður brosandi dögun." (Uppgötvaðu köllun þína með hjálp munksins sem seldi sportbílinn sinn, bls. 138).


Velferð á tímum efnahagsþrenginga

Á morgun ætla ég að vera viðstödd ráðstefnu sem haldin er á Hótel Sögu og fjallar um þetta efni.

Efnið á sérstakt erindi við alla þá sem vilja taka virkan þátt í því að standa vörð um og efla velferðarþjónustu okkar á þeim þrengingartímum sem við nú lifum.

Í kreppu felst á sama tíma gríðarleg ógn við stöðuguleika velferðarkerfisins en um leið tækifæri til þess að stokka hlutina upp og þróa þá til mun betri vegar.

Viðbrögð okkar og störf í velferðarkerfinu hér hafa gríðarlega mikil áhrif á hvernig staða okkar verður innan fárra ára. Sé ekki vandlega staðið að sparnaði og viðbrögðum er mikil hætta á því að þörf fyrir úrræði margfaldist. Það er ákaflega varasamt og gerist of oft að krónunni sé kastað fyrir aurinn á þessu sviði. Eitthvað á að spara en veldur í raun gríðarlegum auka útgjöldum og uppsöfnuðum verkefnum í staðinn.

Ráðamenn þurfa að leggja áherslu á þróun og nýsköpun í velferðarkerfinu. Þeir þurfa einnig að gæta þess að tillögur að sparnaði komi fram frá því starfsfólki sem vinnur á viðkomandi sviði því bottom-up leiðin er mun farsælli en top-down þar sem stjórnendur sveifla hnífnum án þess að gera sér grein fyrir hvar mikilvægar taugar og æðar liggja og hvar fituagnir sé að finna sem megi skera af ef svo má að orði komast!

Finna má upplýsingar um ráðstefnuna og skrá sig á www.lydheilsustod.is


Óskiljanlegt

Mér er alveg óskiljanlegt hvernig Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin geta leyft sér að slá aðra lánamöguleika út af borðinu sem gætu gagnast okkur mun betur en það lánafyrirkomulag AGS sem nú er kynnt með þeirri kúgun og höftum sem fylgir. Það hefur margsinnis verið sagt t.d. að Icesave og lán AGS tengist ekki en annað er klárlega komið fram. Það hefur einnig verið sagt að þessi mál séu ótengd ESB en ekki ber á öðru en þarna hangi þetta allt í sömu snörunni sem á að hengja þjóðina í.

Og til ABC Nyheter skriver statsminister Sigurdadottir rett ut at Island slett ikke trenger noe slikt lån:

- Javisst hadde det vært verdifullt å ha tilgang til ett lån i størrelsesorden 100 milliarder norske kroner, spesielt om det ikke var knyttet til Icesave og IMF. Men ingenting tyder på at vi trenger noen større lånepakke enn den som allerede er avtalt, skriver hun til oss.

Mér finnst það alvarlegt að Jóhanna skuli slá þennan möguleika út af borðinu án þess að fullreynt sé og biðja forsætisráðherrann beinlínis um að slá þetta af eins og meðfylgjandi tölvupóst skeyti ber vitni um.

Den islandske statsministeren ber Jens Stoltenberg om å avkrefte at Norge vil gi Island et lån landet deseperat trenger. Les eposten hennes til Jens.  

Her er eposten:

Og dette skriver statsminister Jóhanna Sigurdadottir til Jens Stoltenberg i en epost 5. oktober:

Kære Jens,

Jeg vil igen sige hjerteligt til lykke med resultatet i valget, her i Island har regeringen desværre mange svære saker at handle med.

Jeg beklager at tage op en sag som har fået relativt stor opmærksomhed i Island, d.v.s. Per Olav Lundteigens erklæring til en Althingsmand fra det islandske Fremskridtsparti, Senterpartiets søsterparti, om at Norge er villig til at låne Island 100 milliarder norske kroner. Vi ved godt at Lundteigen taler for egen regning og kender godt den norske regerings holdning men det gælder ikke for alle her i landet og Fremskridtspartiet i Island beskylder regeringen for ikke at følge op på deres initiativ.

Til at undgå fortsat tvivl, vil jeg gerne spørge om den norske regerings holdning kan blive videre klargjort i svar til Lundteigens udspil? Er hans udspil realistiskt?

Jeg ville gerne få svar fra dig så tidligt som muligt.

Jeg glæder mig til det nordiske møde i Stockholm i slutning af denne måned.

Med venlig hilsen,

Jóhanna. (Tekið af http://www.abcnyheter.no/node/97373 í dag).

Mér er það einnig óskiljanlegt þegar við stöndum frammi fyrir þeim vanda sem raun ber vitni að frumkvæði fólks til þess að taka höndum saman og gera eitthvað í málunum sé einungis gert tortryggilegt og barið niður í stað þess að skoða af alvöru hvern einasta möguleika sama hver á í hlut. Við þurfum á dugnaði og kröftum allra þingmanna að halda til þess að sannreyna og leita margra ólíkra leiða. Er það ekki það sem stanslaust er búið að hamra á? Svo þegar einhver fer af stað og kemur með eitthvað þá er það púað niður. Þetta er sama viðmót og við Framsóknarfólk mættum með 20% almenna leiðréttingu lána. Það var púað niður og gert tortryggilegt. Það merkilega er að nú er það sú leið sem flestir virðast samtóna og sú leið sem Samfylking kemur fram með í aðeins breyttri mynd. Merkilegt.

Láta svo fjölmiðla taka þátt í sjónarspilinu með því að matreiða fréttir eftir pólitískum hentugleik. Hvers vegna er það gert að sérstöku fréttaefni að þeir sérfræðingar sem farið hafi með Sigmundi og Höskuldi skuli einhvern tíma hafa komið nálægt Landsbankanum en aldrei minnst á þá fjölmörgu ráðgjafa sem starfa og starfað hafa í ráðuneytum og verið nánustu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar sem sama máli gegnir um? Er einhver sérfræðingur eftir sem ekki er hægt að tengja á einhvern mögulegan hátt við tortryggilega sjóði ætli fréttamenn sér það?

Í fyrsta lagi hafa stjórnvöld ekki einu sinni haft fyrir því að biðja um lán og kanna möguleika okkar á láni án tengingar við AGS eða Icesave. Í öðru lagi þá er slíkur möguleiki drepinn niður með því að fullyrða að við höfum enga þörf á öðrum lánapakka en þeim sem við nú þegar hefur verið samið um.

Þetta tel ég ekki vera að bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti og er mér alveg óskiljanlegt. Ég held að þetta snúist meira en annað um að séum við Íslendingar ekki nógu þæg og lútum ofurvaldi AGS og kúgunar vegna Icesave þá eigum við ekki möguleika á inngöngu í ESB og því sé betra að fórna þessu til en kanna í alvöru lán/lánalínu frá Norðmönnum, lán sem gæti reynst þeim ágætis fjárfestingarkostur fyrir olíuauð sinn og þar með fengju þeir bandamenn með sér utan ESB. Svo ættum við að láta dómstóla kveða úr um Icesave í stað þess að sökkva framtíð okkar og börnum í skuldafen sem ekki sér fyrir endann á. Taka svo einungis þau lán sem við komumst af með samanber það sem Seðlabankastjóri hefur einnig rætt um.

Vissulega er erfitt að draga ályktanir þar sem ekkert okkar hefur allar staðreyndir málsins. Það er ljóst að ekki liggja öll pússl í þessu flókna pússluspili á borðinu og ekki er hægt að treysta á fjölmiðla í þessum efnum þar sem umfjöllun þeirra er því miður alltof lituð af pólitískum línum. En mörg útspil hennar Jóhönnu undanfarið eru alveg óskiljanleg og ekki í samræmi við hennar gjörðir hingað til sem hafa flestar verið til heilla fyrir íslenska þjóð.


mbl.is Ekki þörf á norsku láni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag er 10. október - Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

 

Ég var svolítið hissa því ég var að renna yfir vefmiðlana áðan og sé ekkert á þeim um þennan merkisdag. Gæti vel hafa farið fram hjá mér þó.

Þessi dagur má ekki gleymast því hann er mjög mikilvægur.

Dagur til þess að minna okkur á mikilvægi þess að hafa geðheilsuna í lagi og styðja við bakið á þeim fjölmörgu sem vinna að þessum málefnum alla daga og sýna þeim stuðning sem hafa misst geðheilsu.

Almenn geðheilsa er línudans. Hún er ekki sjálfsögð og allir fá einhvern tímann "geðkvef" eða "geðlungnabólgu". Það er að segja hjá öllum koma tímar, dagar eða lengri tímabil þar sem okkur líður bara ekki vel. Við sjáum kannski ekkert framundan í þessu blessaða lífi, missum vonina og lífsneistann.

Kannski upplifum við hömlur í okkar daglega lífi vegna atriða eins og kvíða eða fælni. Þorum ekki að fara í Kringluna af því við óttumst að gera okkur að fífli eða að athyglin beinist að okkur á einn eða annan hátt. Það er ekki sjálfgefið að geta notið allra lystisemda lífsins. Á tímum getum við átt á hættu að sitja föst innan í okkar eigin múrvegg. Vegg sem getur reynst þrautinni þyngra að brjóta niður og enginn getur nema við sjálf.

Við höfum öll hrasað á lífsleiðinni eða fengið á okkur smá áverka sem veita okkur ör til framtíðar. Það góða við slíkt er að það er það sem gerir okkur að okkur sjálfum. Því betur sem okkur tekst að kynnast okkur sjálfum því betur sjáum við skrámurnar, örin og sárin sem við berum og eigum auðveldara með að láta slíkt efla okkur en hamla. Svo erum við misbrothætt eftir því hvaða umhverfi við erum í hverju sinni. Stundum er sjórinn spegilsléttur og þá reynir ekkert á brestina en stundum er hafið úfið og tilbúið að tæta okkur í sundur ef við förum ekki gætilega.

Ég óska þér sem lest þennnan litla pistil góðs dags, góðrar helgar og góðs tíma. Farðu vel með þig. Elskaðu sjálfan þig eins og enginn sé morgundagurinn því þú ert kraftaverk eins og allir hinir. Enginn er eins og þú og enginn verður nokkru sinni eins og þú. Farðu vel yfir hvað skiptir þig máli í þessu lífi m.a. með því að spyrja þig hvað þú myndir gera þinn síðasta dag hér á jörð og hvaða minningar eru þér dýrmætastar. Gerðu miklu meira af einmitt því sem þú fannst út. Gerðu minna af því sem þú sérð að skiptir kannski ekki öllu máli. Njóttu þess að gefa og þiggja. Bæði gagnvart sjálfum þér en ekki síður gagnvart þeim sem þú elskar. Mundu að hvert augnablik kemur aldrei aftur, ætíð bíður þín nýtt tækifæri ef þú horfir vel eftir því. Morgundagurinn er nýr dagur og fyrsti dagur þess sem þú átt ólifað. Það er þitt að ráðstafa þessu tækifæri sem við köllum lífið á þann máta sem þú ert sáttur við :).


Guð blessi Ísland

Hvernig gat þetta gerst á Íslandi?

Þessi spurning endurómaði í kollinum á mér á meðan ég sá þessa mynd og sveiflaðist á milli margra ólíkra tilfinninga.

þetta er nýr veruleiki. Samfélagið og fólkið upplifði hér átök sem maður hefði aldrei trúað að ættu sér stað á Íslandi. Við erum svo fá. Maður hefur ætíð haft þá ímynd að okkur takist að leysa úr okkar málum, takist að sigla saman. Þarna finnst manni í fyrsta skipti að maður sjái hlið á þjóðinni sem ekki hefur áður sést. Klofna þjóð í ólíkum fylkingum.

Það sorglega er að einhvern veginn erum við öll bara manneskjur að reyna að skilja veruleikann og gera okkar besta til að bregðast við honum óháð því hvaða hlutverk við spilum í fléttunni. Sumir að berjast fyrir betri heimi, aðrir að fá útrás fyrir reiði, sumir að reyna að verja grunnstofnanir okkar og aðrir að reyna að stýra skútunni. Svolítið svona panic ástand eins og maður sá á Titanic þegar ljóst var að skipið myndi sökkva. Hið mannlega eðli á sér margar ólíkar myndir þegar ógn steðjar að.

Ég fann til með Geir sem greinilega er að reyna sitt besta án árangurs til þess að halda í stýrið á stjórnlausri skútu sem berst um í storminum. Álíka stormi og var hér í gær. Slíkt verkefni getur ekki einn maður leyst. Kostnaður þess jafnvel að stórskaða eigin heilsu um hríð og ekki fyrsti leiðtoginn okkar sem lendir í slíku. 

Það erfiða við þennan storm sem við lentum í og þær rústir sem við sitjum uppi með í dag er að svo stór hluti hans er af mannavöldum. Ef hér hefði skollið á stormur sem hefði valdið gríðarlegu tjóni af náttúruvöldum þá hefði þjóðin samhent verið búin að reisa allt upp á ný. Það er sú hlið á þjóðarsálinni sem við erum vön að sjá. Við erum ekki vön að fara nánast í stríð hvert við annað þegar erfiðleikar steðja að.

Ég held samt að flest séum við sammála um það að hér hafi hlutirnir farið langt fram úr því sem eðlilegt getur talist. Ákveðnir aðilar fóru algjöru offari hér á landi sem erlendis. Kunningjasamfélagið, spilling, ónýtt regluverk og lítið sem ekkert eftirlit bætti svo olíu á eldinn sem logaði glatt og skildi eftir sig brunarústir og sviðna jörð. Þessir aðilar eru manneskjur eins og við hin. Eiga skilið virðingu sem slíkar og saklausir uns sekt er sönnuð. En... þeir eru hins vegar ábyrgir fyrir eigin gjörðum og þurfa að axla hana séu þeir dæmdir sekir sem enginn vafi leikur á að verði í einhverjum tilfella.

Það er skelfilegt til þess að hugsa ef við erum fallin í sama hjólfarið eða ef við komumst aldrei upp úr því. Sama fólkið að skera sér feitar sneiðar af hræunum sem eftir liggja og sama spillingin í sama jarðvegi. Hér verður að verða raunveruleg breyting. Breyting með nýju regluverki, eftirliti, góðu fólki og síðast en ekki síst siðgæðisvitund að leiðarljósi.

Ég held að við þurfum að hverfa aftur til gamalla og góðra dyggða. Efla náungakærleik, samvinnu, samstöðu, siðgæði og byggja upp gott samfélag þar sem við höfum ávinning af því að bera saman þau samfélagslegu verkefni sem þarf að vinna án þess að drepa niður framtakssemi okkar og kraft. Standa saman vörð um auðlindirnar okkar og nýta arð af þeim til samfélagsins. Hverfa til fjölskyldugildanna og meðal til smærri eininga til dæmis varðandi fyrirtækjarekstur. Efla litlu fjölskyldubúin, smærri útgerðir og sprotafyrirtækin okkar. Við þurfum að fara að hugsa á sama hátt og forfeður okkar sem vissu að fyrir hlutunum þurfti að hafa og peningar vaxa hvorki á trjám né verða til úr loftinu einu saman. Það er hörmung að sameiginlegur auður og vald safnist á örfáar hendur og hinn vinnandi maður eigi að taka skellinn eftir uppskerubrest vegna mannlegra mistaka herragarðseigandans án þess að hafa einu sinni verið boðið hlutur af uppskerunni eða þess að njóta ávaxtanna.


Framsókn og froskurinn

Mér þykir áhugavert að fylgast með umræðunni þessa dagana varðandi frumkvæði okkar Framsóknarmanna um viðræður við Norðmenn um hugsanlegt lán.

Ekki vantar úrtöluraddir þegar menn troða nýja slóð eða fara út fyrir rammann.

Þá er ágætt að minna á söguna um froskinn.

Froskur þessi tók þátt í hlaupi upp á fjall. Allt í kring hrópuðu aðrir froskar hástöfum að hlaupurunum: "Þið náið þessu aldrei", "Þið náið aldrei í mark", "Þið náið aldrei upp á topp". Einn af öðrum lögðu froskarnir upp laupana og hættu. Nema einn, hann hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist þar til hann að lokum náði toppnum. Hinir spurðu hann forviða hvernig hann hefði farið að þessu? Hann svaraði ekki, hann var heyrnarlaus.

Boðskapur sögunnar er: Ekki láta úrtöluraddir draga úr þér kjarkinn. Hlustaðu á þína innri rödd því hún veit best hvað þú getur.

Á þeim tímum sem við Íslendingar lifum núna þá þurfum við að setja tappa í eyrun gagnvart þeim sem festast í neikvæðni og úrtölum. Við þurfum að beita öllum leiðum hefðbundnum sem óhefðbundnum til þess að ná árangri og byggja betra Ísland. Við þurfum að hrósa hvert öðru og fagna hverju framtaki sem einstaklingar eða samtök koma fram með án þess að slá nokkuð út af borðinu fyrirfram. Það versta sem gerist er að málin ganga ekki upp en þá hafa þau að minnsta kosti verið reynd.

Það er einmitt okkar styrkur að hugsa út fyrir rammann og skapa jarðveg fyrir óhefðbundnar leiðir og nýjar hugmyndir bæði til þess að takast á við aðsteðjandi vanda sem og byggja brú til framtíðar.

Mörgum þótti til dæmis leið okkar um almenna skuldaleiðréttingu ófær en nú er að koma á daginn að það er sú leið sem sennilega verður farin í aðeins breyttri mynd.


mbl.is Mikill velvilji í garð Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upp úr hjólförunum

Ég tek ofan af fyrir fólki sem hefur þann kjark að biðja afsökunar. Það skiptir þó máli hvernig það er gert en þetta er vissulega spor í rétta átt hjá Jóhönnu.

Ég hef aðeins verið að fylgjast með umræðum á Alþingi í dag.

Ég verð að segja það að ég bara skil ekki hvernig sumir þingmenn Alþingis virðast bara ekki geta komist upp úr gömlum hjólförum og troðið ný. Alltaf virðast þeir falla ofan í gamla farið og spóla sig dýpra og dýpra.

Það er óþolandi fyrir fólk sem situr heima í miklum erfiðleikum sem eru að stórum hluta afrakstur afglapa og raða mistaka yfir langan tíma horfa upp á þingmenn eyða dýrmætum ræðutíma sínum í leikræn tilþrif, söguskýringar og langar ræður sem fjalla um fortíðina og ekki um neitt. Allt sem fólk hefur heyrt áður, allt of oft.

Nú eiga Alþingismenn að bjóða upp á eitthvað nýtt. Nýja strauma, nýjar ferskar umræður um lausnir og samstöðu.

Það er sorglegt að horfa á hvernig sumir Alþingismenn virðast enn fastir í því að eyða öllu sínu púðri í að kasta rýrð á næsta flokk eða næsta þingmann. Hver græðir eiginlega á því? Þetta minnir mann stundum á leikskóla þar sem hver deildin er upp á móti annarri og allt púður fer í rifrildi um sjálfan leikskólann og fyrir utan hann er enginn heimur til.

Svona vinnubrögð og umræður eru ekki boðleg þjóð sem situr í sárum og þarf röklega umræðu, uppbyggingu, framkvæmdir og framtíðarsýn.


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risavaxið verkefni þarf að vinna í samvinnu

Nú er mál að linni.

Nú er komið að því að stjórnmálamenn hér á landi þurfa að hugsa út fyrir hinn hefðbundna ramma stjórnmálanna. Það hefur sýnt sig að það að ætla að leysa þessi gríðarvöxnu verkefni eftir hinni hefðbundnu leið stjórnmálanna virkar ekki. Það virðist leiða til þess að sterkar og öflugar persónur missa heilsu og brotna við það að standa undir þeim mikla bagga sem á þjóðinni liggur. Þar má vísa í Ingibjörgu, Geir og jafnvel Jóhönnu sem virðist eðlilega farin að þreytast við að draga þjóðarskútuna hripleka áfram. Það virðist leiða til endalausrar óreiðu með stjórnarslitum, kosningum og afsögnum. Slíkt skapar óvissu og tefur framgang þeirra mikilvægu mála sem bíða úrlausnar.

Ég tel að nú þurfi stjórnvöld að einhenda sér í algjör samvinnustjórnmál. Menn þurfa að skilgreina vandann, forgangsraða, taka ákvarðanir varðandi lausnir, bretta upp ermar og leggja af stað - í sameiningu með þjóðina að baki sér.

Sem dæmi um hvernig þetta hefur ekki verið gert þá er Samfylking fyrst núna farin á mjög óljósan hátt að kynna tillögur í anda þess sem við í Framsókn komum með fram í febrúar varðandi skuldavanda heimilanna og fyrirtækja. Ef sest hefði verið niður strax og ALLAR mögulegar lausnir skoðaðar af skynsemi óháð því hvaðan þær koma og smíðað úr ólíkum lausnum bestun á þeim öllum þá værum við sennilega ekki eins djúpt sokkin í okkar eigin súpu og raun ber vitni.

Vonandi er ekki enn einn fjölmiðlasirkúsinn farinn í gang þar sem íslenskir stjórnmálamenn leika aðalhlutverk án þess að nokkur verði uppskeran fyrir þjóð í sárum. Vonandi verður þessi dagur til þess að ári eftir hrunið séum við vitrari og búin að átta okkur á því að það verkefni sem við stöndum frammi fyrir leysir engin ein manneskja eða einn flokkur.

Það gerum við öll með því að vinna saman!


mbl.is Enginn bilbugur á stjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsikerrueigandi á ekki í stöðumæli

Í gær sat ég á einu af mínu uppáhalds kaffihúsum Café París og fékk mér kaffibolla.

Þar sem ég fylgdist með mannlífinu út um gluggann varð ég vitni að atviki sem vakti mig til umhugsunar. Auðvitað gæti þetta bara hafa verið tilviljun en ég ákvað að líta á þetta sem dæmi um ýmislegt sem gerst hefur í okkar samfélagi. Vel klæddur maður kom að BMW stífbónaðri glæsikerru sinni (eflaust amk. 10 milljóna virði) og fussaði yfir stöðumælasekt sem komin var á bílinn við stöðumælavörðinn. Hann tók ekki sektina einu sinni af glugganum heldur settist inn í bílinn og þeystist af stað á fleygiferð á svæði þar sem gríðarlega mikið er af gangandi vegfarendum í bræði sinni.

Átti maðurinn ekki í stöðumæli? Var hann svona óheppinn?

Það skiptir í rauninni ekki máli. Það sem skipti mig máli var það að þetta fannst mér vera ágætis myndlíking af því sem gerst hefur í okkar litla samfélagi.

Ákveðin auðmannastétt hefur orðið hér til á undanförnum árum þar sem sumir í þeim hópi telja sig hafna yfir þann samfélagssáttmála sem við búum öll í. Fólk sem keyrir um á glæsikerrum en telur sér leyfilegt að sleppa því að borga í stöðumæli og leggur upp á gangstéttir til þess að þurfa ekki að ganga of langt. Þetta er aðeins lítil mynd þess sem birtist í stærri mynd þar sem auðmenn telja eðlilegt að þeirra skuldir séu afskrifaðar á meðan almenningur á að greiða sitt upp í topp með þykku aukalagi sem skapast vegna þess efnahagsklúðurs sem þessir sömu auðmenn bera ábyrgð á. Að sama skapi hverfa milljónir og milljarðar úr bönkunum án þess að tekið sé eftir á sama tíma og fólk sem vinnur í opinbera geiranum t.d. sem forstöðumenn á sambýlum (umhverfi sem ég þekki) þarf að standa skil á hverri krónu í sínu bókhaldi.


Hver situr í lífsrútunni þinni?

Í morgun sat ég tíma á HAM námskeiði (námskeið í hugrænni atferlismeðferð) sem er eitt af þeim verkefnum sem mér eru lögð fyrir í verknáminu mínu.

Fyrir það fyrsta þá er ég í miklum HAM yfir þeirri frábæru HAM vinnu sem ég er að kynnast og tel sálfræðingana á Lsp. vera að vinna mjög gott starf. Það væri að mínu mati mikið heillaspor að geta kynnt og boðið upp á þessi námskeið fyrir mun fleiri en eiga möguleika á þeim í dag. Það væri gott að geta haft meira af þeim inni á heilsugæslum, á vinnustöðum og jafnvel framhaldsskólum og háskólum því þarna er um svo góða sjálfsvinnu að ræða að hver sem er getur nýtt sér hana og haft mikið gagn af. Slíkt gæti haft mikið forvarnargildi og bætt geðheilbrigði landans.

busy_39Það sem stóð upp úr í tímanum í dag var kynning á hugtaki sem sálfræðingarnir uppi á Landspítala kalla Lífsrútuna. Lífsrútan er rútan okkar sem við keyrum á í gegnum lífið. Allt lífið erum við að taka einstaklinga upp í rútuna oft án þess að gera okkur grein fyrir því og hleypa öðrum út.

Tökum dæmi: 10 ára barni er strítt af skólafélaga sínum fyrir það að vera með ljótar tær. 35 ára áttar viðkomandi aðili sig á því þegar hann fer að skoða sín mál að allt sitt líf hafi hann/hún gengið í sokkum og passað að láta helst engan sjá tærnar á sér. Þannig áttar þessi manneskja sig á því á fullorðinsaldri að þessi skólafélagi hefur setið í rútunni í 25 ár og stjórnað því að manneskjan gangi alltaf í sokkum.

Í lífi hverrar manneskju eru margir sem sitja í rútunni sem rífa í stýrið hjá okkur og vilja stjórna rútunni okkar. Erum við sjálf við stýrið? Hver stjórnar förinni í okkar lífi? Er kannski upplagt að stoppa rútuna og hleypa nokkrum aðilum úr rútunni á næstu stoppistöð? Í dæminu hefði til dæmis verið gráupplagt að hleypa þessum skólafélaga bara út og fara svo að bera tærnar sínar við hvert tilefni :). Svo er hægt að hugsa þessa hugmynd á alla kanta eins og hentar hverjum og einum. Kannski er einhver með tengivagn á rútunni sinni þar sem svo margir eru um borð og maður vill kannski hafa einhverja sem maður vill ekki að komist nálægt stýrinu en maður þarf samt sem áður að fylgja í gegnum lífið. Einhver stakk upp á því að setja svona geymslubox á toppinn til þess að stinga tengdamömmu í!

Mig langaði að deila þessu með ykkur þar sem ég var sjálf alveg upprifin yfir þessari hugmynd. Mér finnst hún kenna manni svo margt um það hvernig maður vinnur með líf sitt, fortíð, nútíð og framtíð. Ég vona að sem flestir hlúi að sjálfum sér daglega og muni eftir geðræktinni sem og líkamsræktinni. Það er svo hvers og eins að velja úr þeim ótal leiðum sem færar eru til þess að stunda sjálfsræktina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband