Yin og yang

Lífið er hverfult.

Ákveðinn atburður minnti mig á þetta. Í einni svipan getur fótunum hreinlega verið kippt undan og hlutirnir breyst. Ákveðnar minningar fylgja oft hlutum, fólki, dýrum og öðru og skyndilega er einhverjum kafla í lífinu lokið. Skyndilega lokast kaflinn án þess að maður fái rönd við reist. Eitthvað tímabil sem maður hélt að yrði lengur en er svo lokið.

Þessir kaflar í bók lífsins eru svo sérstakir. Maður veit ekkert hversu langir þeir eru og hvenær þeirra tími er liðinn og kaflinn lokast. Næsti kafli tekur við, klukkan tifar og saga manns líður áfram.

Lífið er svo ófyrirsjáanlegt. Það getur verið ótrúlega pirrandi á sama tíma og það er nauðsynlegt og sjarmerandi á sinn hátt. Það er ekki hægt að gera áætlun um þetta blessaða líf. Söguna er ekki hægt að skrifa fyrirfram og því er áætlun um lífið aðeins óljós kaflaheiti, jafnvel skáldskapur.

Maður upplifir ákveðin andartök í lífinu sem á þeirri stundu gáfu fyrirheit um opnun inn í langan kafla jafnvel alla bókina en svo skyndilega er allt breytt, kaflinn lokast og sagan verður önnur en maður hafði skrifað með sjálfum sér í framtíðarsýn hugans. Þannig er lífið. Það lætur ekki að sér hæða og stundum finnst manni eins og örlaganornir sitji upp á greinum sínum og skelli upp úr yfir prakkarastrikunum og gildrunum sem þær leggja fyrir mann sér til skemmtunar eða manni sjálfum til þroska. Þær glotta yfir óförum þess sem hélt sig geta skrifað söguna fyrirfram. Allt samkvæmt áætlun er ekki til í raunveruleikanum.

Í síðustu færslu var ég að pæla í sáttinni. Einhver gæti hafa misskilið aðeins þann pistil (enda ekkert endilega mjög skýr pistill og hver túlkar slík skrif með sínu nefi). Vissulega er oft margt í umhverfi okkar sem við erum virkilega ósátt við og ég á ekki við að maður eigi að sitja bara brosandi happy go lucky "í núinu" yfir hverju sem á manni dynur. Ef ég ætti mann sem lúberði mig þá myndi ég ekki sitja bara sátt í andartakinu-núinu og ákveða að vera bara sátt við það!

Yin-Yang-for-WebÍ okkar macro umhverfi eru hlutir sem fyllsta ástæða er til að vera virkilega ósáttur við eins og allt það bull sem farið hefur fram í okkar fjármála- og stjórnkerfi síðustu ár en að vera bara reiður yfir því skilar okkur ekkert endilega langt áfram... Í amstri hversdagsins eru ótal atriði sem við höfum enga stjórn á og það getur verið virkilega hjálplegt að finna jafnvægi og sína eigin sátt í þeim aðstæðum. Sætta sig t.d. við það sem maður getur ekki breytt. Vera sáttur við að vera ósáttur. Ef erfiðar tilfinningar kvikna (sem er fullkomlega eðlilegt eins og reiði) að vera þá í þeim tilfinningum, leyfa þeim að fljóta hjá eins og ský á himni sem fara að lokum og horfa á tilfinninguna utan frá eins og hlutlaus áhorfandi án þess að bregðast við, dæma eða hugsa um hana. Lífið er yin og yang.

"Sorgin og gleðin ferðast saman að húsi þínu, og þegar önnur situr við borð þitt, sefur hin í rúmi þínu" (Kahlil Gibran, Spámaðurinn bls. 38). Því dýpri sem sorgin er því meiri var gleðin. Eina stundina virðist allt brosa við manni en hina hefur syrt í álinn og ekkert virðist ganga upp. Ótalmargt í sögubók lífsins skrifast á blaðsíðurnar án þess að maður geti haft nokkur áhrif þar á, öðru getur maður stjórnað með frelsi sínu og vali.

Ég held að lykillinn að góðu lífi sé að hámarka hamingju sína með því að njóta gleðistundanna til hins ýtrasta og taka þær aldrei sem sjálfsagðar. Grípa þau andartök þar sem litirnir virðast allt í einu skýrari, maður léttari á sér og sólin bjartari. Til þess að vita hvenær sólin skín þarf maður líka að þekkja regndropana á andlitinu og svört skýin. Geta búið sig rétt, komið sér í skjól frá storminum og beðið af sér óveðrið. Þannig er lífið hverfult og fer sínu fram óháð öllu skipulagi með sorgina og gleðina sem förunauta sitt á hvað sem yin og yang.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Frábært frænka mín!

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 27.2.2010 kl. 23:51

2 identicon

vá hvað þetta er frábært blogg og eitthvað sem maður á hiklaust að tileikna sér
kv Jóhanna

jóhanna dóttir Sillu (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 00:06

3 identicon

Þú ert svo mikill snilli!

Helga Margrét (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 01:34

4 identicon

Allt satt og rétt.

Þórey (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 22:38

5 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Flott frænka.

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 3.3.2010 kl. 23:05

6 identicon

Góð grein hjá þér vinkona......þessa hugsun ættu allir að tileinka sér:)

Berta María (IP-tala skráð) 4.3.2010 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband