Þriðjudagur, 28. september 2010
Mikilvægasta verk Alþingis og ríkisstjórnar
Sögulegur dagur var á Alþingi í dag. Ég fylgdist grannt með af pöllunum.
Þingmenn voru ekki öfundsverðir af hlutskipti sínu. En verkefni þeirra í dag er hluti af þeirra starfi sem þeir hafa gengist undir að sinna samkvæmt gildandi stjórnarskrá.
Menn geta haft skiptar skoðanir um það hvort Landsdómur eigi rétt á sér en svona er sú stjórnarskrá sem við störfum eftir og Lög um ráðherraábyrgð. Því gríðarlega valdi sem ráðherrar báru fylgir óhemjumikil ábyrgð. Séu menn ekki sáttir við lögin hefðu þeir átt að vera búnir að ráðast í þá vinnu að breyta þeim. Það er undarlegur málflutningur að samþykkja það ferli sem fór í gang með þingmannanefndinni án þess að slíkar athugasemdir komi fram fyrr en núna.
Ég skil ekki hvers vegna Sjálfstæðismenn gerðu það ekki strax í vor fyrst þeir meta þessi lög úrelt og ónothæf. Finnst þeim allt í lagi að hafa hér lög í gildi sem þeir telja svo ónothæf þegar til kastanna kemur? Sú röksemd sem notuð hefur verið að ekki sé hægt að varpa ábyrgðinni einungis á þessa tilteknu ráðherra þar sem gjörðir annarra séu fyrndar tel ég heldur ekki halda. Enn og aftur þá eru lögin svona og menn hefðu þá átt að vera búnir að lengja fyrningarfrest ráðherraábyrgðarinnar.
Þrátt fyrir það er ekkert því til fyrirstöðu að rannsaka betur athafnir annarra fyrrverandi ráðherra og lýsa yfir vanþóknun á þeim eins og fulltrúar Framsóknar í þingmannanefndinni gerðu varðandi einkavæðingu bankanna. Það mál fór ekki hátt í fjölmiðlum þrátt fyrir að um mjög merkileg tíðindi væri að ræða þar sem þau gengu lengst með bókun sinni. Fjölmiðlar voru of uppteknir af þeirri túlkun sinni að Framsókn vildi ekki láta rannsaka einkavæðingu bankanna sem nú hefur verið lagt fram af formanni flokksins að gera.
Ég er ekki alls kostar sátt við niðurstöðuna því ég tel að mál allra fjögurra ráðherranna hefðu átt að fara fyrir Landsdóm. Ég get skilið það að þingmenn komist ekki allir að sömu niðurstöðu því hver og einn þarf að meta málið eftir sinni rökhugsun og menn meta málið mismunandi. Ég virði það að fólk komist að mismunandi niðurstöðu um hvort eigi að vísa málinu í Landsdóm eða ekki. Hitt skil ég ekki sem er niðurstaða þeirra Samfylkingarþingmanna sem aðeins greiddu atkvæði með því að ákæra Geir H. Haarde en ekki aðra ráðherra. Ætli þetta hefði farið öðruvísi ef kosningin hefði verið leynileg en afstaða þingmanna gefin upp eftirá og kosið um alla í einu?
Nú fer þetta mál hins vegar í ákveðinn farveg og nýtt þing verður sett á föstudaginn.
Mikilvægasta verk Alþingis er ekki atkvæðagreiðslan í dag heldur það sem er framundan. Þau sár sem almenningur situr uppi með stækka einungis eftir því sem tímanum líður, meira blæðir úr þeim og plástrar þeir sem settir hafa verið halda ekki heldur gera jafnvel illt verra. Þessi sár verður að sauma. Hér bíður heilt samfélag í öskustónni eftir því að raunveruleg endurreisn hefjist. Hér bíður heil örvinluð þjóð í sárum sem þarf að sjá ljós í myrkrinu, fá bót meina sinna og trú á betri framtíð. Alþingismenn og ríkisstjórn þurfa að gerast raunverulegir leiðtogar okkar í því að finna lausnir, ná sátt, samvinnu, samstöðu og koma þjóð sinni á lappirnar á ný.
Alþingi getur ekki horft upp á fleiri nauðungaruppboð, gjaldþrot, fjárnám, sjálfsvíg, hrun, fólk í biðröðum eftir mataraðstoð, atvinnuleysi, brottflutning af landi og aðrar skelfilegar afleiðingar hrunsins án þess að grípa til róttækra aðgerða.
Það verður að ráðast í það án tafar að leiðrétta skuldir heimilanna og fyrirtækja. Verði það ekki gert stækkar einungis snjóflóðið og tekur fleiri og fleiri með sér. Því megum við ekki við.
Þungbær og erfið niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.