Ályktun frá Landssambandi framsóknarkvenna

Alvarleg skilaboð almennings og skuldavandi íslenskra heimila  

Landssamband framsóknarkvenna lýsir yfir vanþóknun sinni á þeim gríðarlega háu afskriftum sem fram hafa farið í bönkunum á lánum ákveðinna fyrirtækja á sama tíma og harkalega er gengið nærri almenningi sem glímir við gríðarlegan skuldavanda. Skuldavanda sem er að miklu leyti tilkominn vegna glæfralegrar starfsemi bankanna. Landssamband framsóknarkvenna telur það einnig mjög ámælisvert að sum þessara fyrirtækja hafa greitt sér himinháan arð á sama tíma og þau hafa safnað gríðarháum skuldum. Koma þarf í veg fyrir að slíkt sé hægt með lagasetningu. Landssamband framsóknarkvenna ítrekar mikilvægi þess að allir fái sömu meðferð í bönkunum til þess að takast á við skuldavanda sinn hvort sem um stór, meðalstór, lítil fyrirtæki eða heimilin sé  að ræða og ferlið sé opið og gagnsætt.

Landssamband framsóknarkvenna telur það ekki forsvaranlegt að nýju bankarnir skuli krefja almenning um fulla endurgreiðslu lána sem voru keypt af gömlu bönkunum með 45% afslætti sem leiðir meðal annars til þess að þeir skila hagnaði á sama tíma og fjölskyldur eru bornar út. Landssamband framsóknarkvenna krefst þess að tafarlaust verði farið í það að leiðrétta stökkbreytt lán almennings með 20% leiðréttingarleiðinni með 10 milljón króna þaki. Stöðva verður þá eignaupptöku sem á sér stað og koma í veg fyrir það að almenningur festist í skuldafangelsi. Landssamband framsóknarkvenna hvetur þingmenn til þess að veita lyklafrumvarpi Lilju Mósesdóttur brautargengi ásamt því að ráðast í það að setja þak á verðtryggingu og afnema hana í þrepum.

Landssamband framsóknarkvenna hvetur ríkisstjórn Íslands og þingheim allan til þess að hlusta á þau alvarlegu skilaboð sem almenningur er að senda um raunverulegar breytingar í stjórnmálum á Íslandi þannig að sátt geti náðst í samfélaginu. Landssamband framsóknarkvenna leggur til að skipuð verði þjóðstjórn til þess að ráðast í neyðaraðgerðir, fara í þær lýðræðislegu breytingar sem þarf að ljúka og  síðan verði boðað til kosninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband