Haustvindar í íslenskri pólitík

Haustið er farið að banka upp á, veðurguðinn veit ekki alveg hvort hann eigi að skarta sól eða rigningu  í dag. Lendingin fyrir kvöldið er rok og rigning. Það er orðið dimmt á kvöldin. Ekki er ég nú aðdáandi myrkursins en elska þó að stinga mér til sunds í upplýstri blárri sundlauginni í bakgarðinum, slaka á í pottunum og gufunni á eftir og kveikja á kertum. Já, það er sennilega farið að halla sumri. Við Weber, vinur minn á svölunum, sem hefur nú verið frekar afskiptur greyið verðum víst að fara að sætta okkur við það þó við séum ekki alveg tilbúin í haustið með öllu tilheyrandi.

Enn eitt haustið er sem sagt að gera boð á undan sér. Þetta er líka enn eitt haustið í pólitík. Stundum botna ég nú ekki alveg í þeirri tík. Stundum langar mig að koma aldrei nokkurn tímann nálægt þessari blessuðu pólitík aftur. Ég átta mig til dæmis ekki á sumum sem starfa í pólitík. Ástæðan er sú að ég hef trú á því að langflestir sem leiðast út í pólitík og fá þessa bakteríu séu þar vegna óslökkvandi áhuga á því að bæta samfélagið sitt. Hvers vegna eyðir fólk þá svona mikilli orku í pólitíkina sjálfa í stað þess að nota hana í að láta hugsjónir sínar verða að veruleika? Það spanderar gríðarlegu magni í annað fólk í pólitík eða valdabrölt en málefnin verða einsleit sérhagsmunamálefni eða hreinlega aukaatriði.

Við verðum nú aldrei alveg sammála um hvaða leiðir séu bestar. Það er í rauninni bara gott því ef við værum öll sammála þá yrði ekki mikil þróun. Hóflegur ágreiningur er góður jarðvegur fyrir vöxt og þróun. En þá verða menn líka að geta bitið í þann ávöxt sem kemur upp úr sáttamoldinni mitt á milli öfganna og borið virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Hvers vegna eru sumir svo fastir í því að allir verði að vera á sinni skoðun? Er yfirhöfuð til ein rétt skoðun? Er ekki margbreytileikinn líka jarðvegur ríkulegrar uppskeru? Hjarðhegðun í halarófu á eftir einni fyrirfram línu er úrelt.

Stundum sér maður jafnvel menn spretta fram á sviðið sem muna mega fífil sinn fegurri og voru örugglega einhvern tímann með miklar hugsjónir en hafa glatað þeim á leiðinni og skemmst vegna valdagræðgi og ryðjast fram í yfirgangsemi og mannvonsku. Til hvers?

Framtíð okkar er nátengd því hvernig hægt er að bæta hina pólitísku menningu hér. Með pólitík sem einbeitir sér að því að leysa viðfangsefni nútíðar og framtíðar með lausnir og almannahag að leiðarljósi þar sem málefnaleg rökræða er ávallt tekin en jafnframt er borin virðing fyrir hverri manneskju. Pólitík þar sem hver einstaklingur nýtir hugsjónabrunna sína til fulls og eyðir orku sinni í því að veita ríkulega úr þeim í stað þess að festast í meinsemd þeirri að eyða orkunni í pólitíkina sjálfa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Góðar pælingar. Það væri ljúft að sjá fleiri skrifa af þeirri auðmýkt og þú gerir í þessum pistli.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 20.9.2011 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband