Kolrangt verðmætamat starfa

Það er sorglegt að við skulum sífellt þurfa að taka sömu umræðuna en ekkert breytist...

Þær starfsstéttir í okkar samfélagi sem vinna með dýrmætasta verkefnið, dýrmætasta auðinn og oft við erfiðustu aðstæðurnar fá smánarlega lægstu launin.

Þær starfsstéttir sem jafnvel vinna við ákveðna spákaupmennsku, leik að tölum sem jafnvel á sér enga hliðstæðu í hinum raunverulega heimi þiggja hins vegar ofurlaunin, að minnsta kosti talsvert hærri taxta.

Þetta er ekki eðlilegt og lýsir kolröngu verðmætamati í samfélaginu.

Þessu verður að breyta. 

Manneskjan sjálf er og mun ávallt verða það dýrmætasta í okkar samfélagi alveg sama hvernig við snúum einni eða annarri vísitölu. Ekkert í okkar samfélagi þrífst án hinnar mannlegu víddar og undir manneskjunni er öll okkar hagsæld og velferð komin.

Er ekki tími til kominn að endurskoða raunverulegt verðmætamat starfa?

Er ekki tímabært að fara að greiða t.d. lögreglumönnum mannsæmandi laun? Það er ágætt fyrir fólk að hafa í huga þá miklu ábyrgð sem hvílir á herðum lögreglumanna, (slökkviliðsmanna og sjúkraflutningamanna) í sínum daglegu störfum. Sem sálfræðingur tel ég mikilvægt að það sé tekið með í reikninginn að verkefni lögreglumanna snúast meðal annars um það að koma að aðstæðum sem fæst okkar vilja koma að og upplifa og bregðast við með fagmannlegum og fumlausum hætti. Það er hluti af þeirra starfi. Slíkt tekur á fólk því öll erum við manneskjur sama hvaða starfi við gegnum. Í þeirri skyldu er falinn ákveðinn mannlegur kostnaður sem aldrei verður hægt að meta til fjár.

Síðustu ár hafa heldur betur kennt okkur það að mörg þau störf sem hafa verið stórlega ofmetin í okkar samfélagi sem snúast um fjármagn og fjármagnseigendur eru algjörlega verðlaus ef ekki hreinlega okkur til skaða.

Nýtt verðmætamat starfa takk.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband