Skref í rétta átt

Hún Jóhanna hefur verið að gera góða hluti. Það er alveg á hreinu og ég hef fulla trú á því að hún sé að leggja sig alla fram til þess að ná fram eins miklu og hægt er.

Ég vona að í sömu andrá sé unnið að allri þeirri endurskoðun sem fara þarf fram á tryggingarkerfinu eins og það leggur sig. Það þarf að skera það rækilega upp.

Það er nú eitthvað byrjað en þarf að leggja áherslu á það varðandi örorkulífeyri hvað fólk getur í stað þess að skoða hvað það getur ekki þegar litið er til almannatrygginga.

Það þarf að vinna að því að efla endurhæfingarúrræði og styðja vel við bakið á þeim sem eru að vinna flott starf hvað þetta varðar eins og til dæmis Hugarafl sem hefur mörg spennandi verkefni á takteinum.

Markmið okkar hlýtur að vera að sem flestir hafi aðgang að vinnumarkaðnum. Fólk sé hins vegar tryggt fyrir því að það eigi sínar tekjur frá Tryggingastofnun öruggar ef eitthvað bregður út af. Það vilja flestallir hafa ákveðið hlutverk í lífinu. Stór þáttur í því er að hafa hlutverk vinnandi manns. Hins vegar hentar alls ekki það sama öllum og sumir geta skilað 2 klst. í vinnu á viku á meðan aðrir geta skilað 40 klst.

Að mínu mati hefur atvinnumarkaðurinn ekki verið nægilega meðvitaður um þessa staðreynd. Að auki hefur kerfið verið þannig uppbyggt að fljótlega hefur fólk misst niður framfærslu frá TR á móti hverri krónu sem það hefur í launatekjur og átt það á hættu að falla alveg út úr kerfinu og verða launalaust í vissan tíma. Það er ekki hvetjandi fyrir atvinnuþáttöku. Það þarf að finna leiðir til þess að kerfið hvetji fólk til að reyna á mörkin. Ég man eftir því í samtali við einn meðlima Hugarafls að hún lagði mikla áherslu á það að kerfið hvetti fólk ekki til að reyna á mörkin. Það er að segja að ef fólk léti reyna á það hvort það gæti farið aftur út á vinnumarkaðinn þá ætti það á hættu að missa niður framfærslu sína sem tæki langan tíma að ná upp aftur ef t.d. það veiktist aftur.

Ég teldi það mjög heillavænlegt að fyrirtæki í landinu bæði í opinberum geira og einkageira fengju sérstakan gæðastimpil frá stjórnvöldum (jafnvel skattaívilnun) fyrir það að bjóða upp á fjölbreytt atvinnutækifæri sem væru mjög ólík og sveigjanleg. Þannig að þau byðu markvisst starfskrafta velkomna sem hafa skerta starfsorku og hefðu verið í vandræðum hingað til með að hasla sér völl á almennum markaði.

Mér þykja það einnig vera döpur skilaboð til fólks sem hefur tekjur sínar frá Tryggingastofnun að það greiði ekki í lífeyrissjóð eins og aðrir. Hvaða skilaboð er verið að senda þar? Á meðan flaggað er fyrir fólki á vinnumarkaði hvað það muni nú hafa það gott á efri árum þegar það siglir um karabíska hafið fyrir lífeyrinn sinn og viðbótarlífeyrinn þá eigi þeir sem hafa tekjur frá TR að búa bara áfram við sama skarða hlutinn.

Svo má aldrei gleyma því að ekki er eðlilegt að miða tekjur frá TR við lágmarkslaun þar sem um ævikjör margra er að ræða. Það ætti heldur að miða þær við meðaltalslaun. Er það sjálfgefið að þú eigir að vera með lágmarkslaun í tekjur ef þú getur ekki unnið á almennum vinnumarkaði sökum skerðingar þinnar?

Á þessu er talsverður munur hér í Danmörku. Þar skilst mér að fólk haldi sínum tekjum sem það hafði áður ef það t.d. lendir í slysi. Það er því ekki hneppt í fátækragildru og þarf að umbylta lífi sínu og skuldbindingum.

Ég tel það líka mikilvægt að þegar fólk fær ellilífeyrir sinn þá sé sá hluti hans sem eru vaxtatekjur ekki skattlagður með tekjuskatti heldur með fjármagnstekjuskatti. Þetta var mikið í umræðunni meðal annars hjá okkur framsóknarmönnum fyrir síðustu kosningar en mér er ekki kunnugt um að búið sé að leiðrétta það.

Það kemur einnig spánskt fyrir sjónir að fólki sé í raun refsað fyrir það að skrapa saman sparnaði til efri áranna með því að skerða lífeyrir á móti því. Þetta hlýtur að breytast þar sem frekar ætti að hvetja landsmenn almennt til sparnaðar í þeim ólgusjó efnahagsmála sem raunin er í dag með skattaívilnun fyrir slíkt og fylla þannig bankana af sparifé landsmanna.

En eins og ég segi. Þetta er skref í rétta átt en hér er mikið verk að vinna og gott mál hjá Jóhönnu að vera lögð af stað í þá vegferð.

 


mbl.is Lífeyrir almannatrygginga hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skref í rétta átt? Það fer nú eftir því hvernig á það er litið.

Það kemur sannast sagna mjög á óvart að hækkunin á bótum almannatrygginga nú sé lægri en hækkanirnar sem verið var að semja um á hinum almenna vinnumarkaði.

Ég reikna með að ASÍ, samtök eldri borgara og ÖBÍ muni gagnrýna þessa ákvörðun en ekki fagna henni - og þetta er ekki í samræmi við það sem rætt var um í kringum kjarasamningagerðina. 

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 23:02

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Kidda eins og margir aðrir hef ég ofurtrú á Jóhönnu og svona til að sýna að hún er að standa sig þá tók ég eftirfarandi af vef www.tr.is

1. apríl 2008

  • Skerðing bóta vegna tekna maka verður afnumin.
  • 90.000 kr. frítekjumark á fjármagnstekjur á ári gildir frá 1. janúar 2007. Leiðrétting vegna ársins 2007 verður gerð við endurreikning þess árs.  Þann 1. apríl kemur til greiðslu leiðrétting vegna 2008 til þeirra er þessi breyting varðar.
  • Skerðingarhlutfall vegna tekjutenginga ellilífeyris lækkar úr 30% í 25%.
  • Vasapeningar hækka í 38.225 kr. á mánuði og frítekjumark verður afnumið.

1. júlí 2008

  •   Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 67-70 ára hækkar í 100.000 kr. á mánuði.        
  • Aldurstengd örorkuuppbót hækkar.
  • Frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna örorkulífeyrisþega verður 25.000 kr. á mánuði.

Bendi á að þarna í Júlí er verið að opna á að örorkulífeyrisþegar hafi einhverjar tekjur án þessi að bætur skerðist. Mér finnst þetta skref í rétta átt.

Jóhanna aðeins verið í 3 mánuði með málefni almannatrygginga og búin að vinna heilmikla vinnu á þeim tíma.

Magnús Helgi Björgvinsson, 28.3.2008 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband