Við skulum vona að skattfé almennings fari ekki í slíkar reddingar!

Einhvern tímann heyrði ég því fleygt að það væri hagstæðara fyrir menn á einkaþotum að lenda á Reykjavíkurflugvelli heldur en að taka strætó þar sem þeir þyrftu ekkert að greiða fyrir það svona meira í gríni en í alvöru...

Það væri samt áhugavert að vita hvað þotuliðið leggur raunverulega til samfélagsins og hvað fer úr vösum almennings. T.d. varðandi aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli fyrir einkaþotur. Það er að mínu mati eitthvað sem viðeigandi aðilar eiga að greiða að fullu úr eigin vasa og ég vona að það sé svo! Ætli það sé sannleikskorn í því að þeir sem beri mestmegnis uppi samfélagið sé fólk á miðlungs tekjum? Fólk á læstu tekjunum leggur þó sitt til en ég gæti vel trúað að einhverjir þeirra hæst launuðustu væru ansi duglegir við að koma sínum framlögum undan með aðstoð fróðra manna. Það er til dæmis alltaf jafn undarlegt að sjá listann yfir tekjuhæstu Íslendingana og sjá fólk sem flokkast sem "þotulið" á lágmarkstekjum sem almenningur myndi ekki ná að draga lífið fram á en í stað þess ná þessir aðilar að spila svo vel úr kaupinu sínu að þeir geta m.a. verið að hafa áhyggjur af einkaþotunum sínum... Ég tek það fram að ég er ekki að tala um neinn ákveðinn aðila í þessu samhengi. Þetta er bara afar áhugavert og enn áhugaverðara hvað skattayfirvöld virðast einhvern veginn ekki ná að taka á þessum endalausu undanskotum til skatts sem eru vægast sagt þreytandi fyrir hinn almenna borgara.

Fréttablaðið, 22. maí. 2008 05:00

Kveðst á hrakhólum með einkaþotu sína

mynd Róbert Wessmann eigandi Salt Investments.

Róbert Wessmann, forstjóri Actavis, vill fá að byggja tvö þúsund fermetra flugskýli á Reykjavíkurflugvelli. Segist hann þurfa aðstöðu fyrir tvær einkaþotur fjárfestingarfélags síns, Salt Investments. Bæði flugmálayfirvöldum og borgaryfirvöldum hefur borist formleg beiðni um flugskýlið frá Salt Investments. Einnig hafa fulltrúar félagsins rætt málið við embættismenn.

„Eins og kom fram á fundi með flugvallarstjóra hefur Salt Investments haft Hawker-einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í talsverðan tíma en er nú að undirbúa komu annarrar einkaþotu til viðbótar," segir Róbert Wessmann í bréfi til Flugstoða ohf. þar sem óskin um flugskýlið er sett fram og óskað eftir skjótri afgreiðslu.

Þá hefur Salt Investments einnig sent skipulagsyfirvöldum í Reykjavík erindi. „Við hjá Salt Investments höfum verið á hrakhólum með að koma flugvél okkar í skjól seinustu árin og höfum verið í sambandi við flugvallaryfirvöld um lausn okkar mála," segir í bréfi sem Matthías Friðriksson skrifar undir fyrir hönd Salt Investments.

Í samtali við Fréttablaðið segir Matthías að í raun eigi Salt Investments enga flugvél. Hins vegar leigi félagið stundum vélar sem hópur manna, sem tengdir séu félaginu viðskiptaböndum, hafi aðgang að. Matthías segir að þessar vélar þurfi að þjónusta og til þess þurfi aðstöðu. Í því skyni hafi verið stofnað félagið Salt Aviation sem annist þessa þjónustu fyrir ýmsa aðila. Hann segir marga fleiri á hrakhólum með flugvélar sínar á Reykjavíkurflugvelli.

Á fundi sem Jón Baldvin Pálsson flugvallarstjóri átti með fulltrúum Salt Investments benti hann að þeirra sögn á að í skipulagi Reykjavíkurflugvallar er gert ráð fyrir þremur nýjum flugskýlum við sunnanverðan völlinn, austan íbúabyggðarinnar í Skerjafirði. Í umsögn embættis skipulagsfulltrúans í Reykjavík um umsókn félagsins segir að ekki sé tekin afstaða til hvaða fyrirtæki fái úthlutað byggingarrétti á flugvallarsvæðinu.

gar@frettabladid.is

Tekið af www.visir.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband