Hamingjan fæst ekki keypt

030807_happyness_large
 

Þetta er eitthvað sem ég held að flestir viti innst inni þó oft horfum við framhjá þessu og reynum að kaupa okkur hamingju eða kaupa hamingju fyrir aðra.

Hver er sinnar gæfu smiður og með hamingjuna þá liggur hún í lófa hvers manns. Við þurfum að hafa fyrir hamingjunni. Það er vinna að vera hamingjusamur. Suma daga er maður svo hreint ekki hamingjusamur en hins vegar má líta á það þannig að það sé gott því þá viti maður hversu góðir hinir dagarnir eru og þá er maður hamingjusamur.

Ég tel hamingjuna snúast um það að finna sjálfan sig, stýra sínu lífi og hafa gott fólk í kringum sig. Þegar upp er staðið erum það við sjálf og ekki síður fólkið okkar sem skiptir máli. Hver hefði til dæmis gaman að því að vera milljónamæringur ef hann hefði ekki gott fólk til að deila lystisemdum lífsins með? Einnig held ég að þegar fólk verður moldríkt þá verði allt það sem hugurinn girnist bara hversdagslegt brauð. Þetta er nefnilega allt svo afstætt.

Þetta hugsaði ég einu sinni þegar ég var að vinna mikið og hafði ákveðið að dekra við mig með því að kaupa mér kort í baðstofunni í Laugum. Ég elska gufuböð og það eru algjör lífsgæði fyrir mér. Hins vegar eftir nokkur skipti þá hætti þetta að vera nokkuð merkilegt. Kröftuga sturtan sem ég stóð undir var orðin bara venjuleg sturta. Ekki sama magnaða vatnsfall og hún var í fyrsta skipti sem ég fór undir hana. Af þessari reynslu dró ég þá ályktun að ef ég byggi í höll þá yrði það afar fljótt hversdagslegt og ómerkilegt og myndi á engan hátt gera mig hamingjusama. Á hinn bóginn má segja það að það eykur ekki hamingju að þurfa að hafa áhyggjur um hver mánaðarmót um hvort endar nái saman. Það er hinn endinn. Þess vegna held ég að oft sé fólk hamingjusamt ef það lifir eftir hinum gullna meðalveg. Hefur nóg en ekki of mikið.

Þegar harðnar á dalnum þá held ég að fólk hægi aðeins á sér í lífsgæðakapphlaupinu. Þá fer fólk að meta einföldu hlutina. Það getur verið stórkostlegt og skapað mikla hamingju að horfa á börn að leik í garði, að gefa öndunum brauð, horfa á náttúruna og margt annað sem ekki kostar peninga. Það getur verið mun dýrmætara að sitja á fallegum stað og horfa á náttúruna og njóta hennar í stað þess að sitja á dýrasta veitingahúsi bæjarins og hafa keyrt þangað á rándýra jeppanum sínum.

Það kemur mér ekki á óvart að Danir séu hamingjusamastir. Þeir eru svo vingjarnlegir og kunna svo vel að "hygge sig". Kunna að njóta hvers dags og eru ekkert að stressa sig of mikið á hlutunum. Þeir eru fáir í kapphlaupi um að eiga allt það flottasta og besta eins og Íslendingar. Danir leggja líka talsvert mikið upp úr meðalmennskunni (stundum fullmikið þó). Hér er líka mjög mikil áhersla á fjölskylduna og það held ég að sé ágætis uppskrift að hamingju. Að geta farið heim úr vinnunni með góðri samvisku klukkan fjögur og jafnvel fyrr á föstudögum og átt tíma með börnunum sínum og fjölskyldu. Á Íslandi flokkast það nánast undir leti.

Ég óska öllum lesendum þessarar færslu hamingju og munið að hamingjan er í litlu hlutunum, ekki þeim stóru og liggur nær manni en mann grunar.


mbl.is Vaxandi hamingja í heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband