Fólk með fólki

Þetta sumarið er ég búsett í Danmörku þar sem ég stunda nám og ákvað ég að sækja um vinnu hér úti í stað þess að fara heim að vinna. Fyrir því voru nokkrar ástæður og meðal annars sú að til þess að læra dönsku þá þarf maður að henda sér út í dönsku laugina. Maður lærir nefnilega meira þegar maður þarf að nota tungumálið hér og nú en af því að sitja í fyrirlestrum og geta kinkað kolli án þess að þurfa að vinna upplýsingarnar nokkuð frekar. Hins vegar þá er mjög óhagstætt fyrir íslenska námsmenn að fara heim að vinna þar sem hrikalegt gengi étur upp það sem maður myndi afla.

Það er alveg með ólíkindum að aðeins á þessu eina ári sem ég hef búið í Danmörku þá hefur gengið farið frá 11 krónum upp í 17.3 og það er skelfilegt fyrir íslenska námsmenn þar sem námið okkar verður fyrir vikið miklu dýrara og erfitt að lifa þegar húsaleigan og hver einasti brauðhleifur sem maður kaupir hefur snarhækkað vegna gengisfallsins.

En fólk með fólki var það sem ég ætlaði að ræða hér.

Ég hef unnið við það að styðja fatlað fólk sem býr á sambýli í 8 ár á ýmsa vegu. Bæði sem starfsmaður og stjórnandi. Núna ákvað ég svo að starfa að aðhlynningu fyrir aldrað fólk og kynnast þeim vettvangi hér úti.

Það getur tekið talsvert á að starfa með öldruðu fólki en er engu að síður ákaflega gefandi og lærdómsríkt. Það sem mér þykir þó merkilegt bæði hér og ég veit að ekki er ástandið neitt betra heima hvernig búið er að öldruðu fólki. Þegar maður verður gamall þá allt í einu missir maður vald yfir sínu lífi á vissan máta. Maður verður háður öðrum um sjálfsögðustu hluti. Lífið gengur út á matmálstíma. Ég upplifi á vissan hátt að hálfpartinn sé fólk oft bara að bíða eftir dauðanum. Það er afskaplega lítið lagt upp úr því að fólk eyði ævikvöldinu með reisn, virðingu og í takt við eðlilegt líf heldur snýst þjónustan um að fullnægja grunnþörfum og komast í gegnum daginn. Ekki er gert ráð fyrir starfsfólki nema að mjög takmörkuðu leyti til annars.

Allt í einu þarf fólk sem búið hefur á sínu heimili að troða eigum sínum í litlar vistarverur (jafnvel vera með öðrum í herbergi sem er nú sem betur fer að leggjast af) og fólk þarf að deila rými með fólki sem það hefur aldrei þekkt fyrr en nú sem getur tekið talsvert á. Þar sem lág laun eru í þessum umönnunarstörfum þá er mikil hreyfing á starfsfólki, það er oft ungt, af erlendum uppruna (eins og ég sjálf hér úti) og sumir hafa ekki mikinn áhuga á starfinu og koma fram við fólkið eins og hluti.

Það merkilega við þetta er að oft virðist fólk geta horft framhjá því að fatlað fólk búi við óásættanlegar aðstæður því það er ólíklegt að maður sjálfur verði í þeim sporum en hitt er merkilegt að flest stefnum við að því að verða gömul en horfum samt upp á þær aðstæður sem fólkið sem lagði grunninn að lífi okkar býr við.

Það þarf að endurskoða rækilega stöðu umönnunarstétta í samfélagi okkar og hvernig við viljum búa að hvoru öðru. Það er alltaf nægt fjármagn en það þarf að forgangsraða á annan hátt. Það þarf að styrkja þessar stéttir og laða að fagfólk. Það er óásættanlegt að til dæmis fólk sem farið er að missa minnið skuli auk þess þurfa að búa við það að hlutirnir séu gerðir á mismunandi hátt þar sem alltaf er nýtt og nýtt starfsfólk þegar vel væri hægt að gera góða áætlun sem vel þjálfað starfsfólk færi eftir af alúð. Ég vona að framtíðin muni bera með sér betri aðstæður þar sem fólk býr á eigin heimili sem lengst en þegar kemur að því að það þurfi umönnun þá annist það hæft starfsfólk sem leggur sig allt fram, þekkir það, vinnur eftir góðu skipulagi og mikið sé lagt upp úr að dagurinn gangi út á að eiga gott ævikvöld í stað þess að bíða eftir því að verða sóttur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnbogi Rúnar Andersen

Ég er sammála þér Kidda, það er til skammar blátáfarm hvernig komið er fram við þá sem sköpuðu grunnin að því sem við byggjum á í dag og síðan hitt að kannski ættu þeir sem ráða þessu öllu að hugsa til þess að þeir eiga vonandi líka eftir að verða gamlir .Kær kveðja.Finnbogi Rúnar

Finnbogi Rúnar Andersen, 30.6.2008 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband