Ein stór fjölskylda...

Það var mín upplifun af því að fara á Arnarhól núna í kvöld.

Þvílík skemmtun og þvílík stemning. Það var svo gaman að fylgjast með "strákunum okkar" koma sigri hrósandi með medalíurnar sínar heim í faðm íslensku fjölskyldu sinnar. Það er hvers manns draumur að gera fjölskyldu sína stolta og hvað þá þegar maður kemur heim að lokinni slíkri frægðarför til þess að gera heila þjóð stolta.

Það ríkti svo yndisleg stemning þarna, Páll Óskar kom öllum í banastuð í fánalitunum og meira að segja Bjarni Fel. hinn eini sanni mætti á svæðið við mikinn fögnuð! Og svo var sungið Öxar við ána og þjóðsöngurinn leikinn.

Mér þótti það svo góður punktur sem hann Ólafur Stefánsson sagði að það væru forréttindi að vera Íslendingur og aðeins rúmlega 300 þúsund manns deila þessari gjöf í dag. Ég er virkilega ánægð með þann liðsanda og andlega uppvakningu sem strákarnir hafa komið af stað með einstakri liðsheild sinni. Það veitir ekki af slíku fyrir okkur Íslendinga að muna að brosa aðeins meira til náungans og taka utan um hvort annað. Við erum stundum svolítið stíf á því sviði.

Stoltið skein af strákunum yfir því að vera Íslendingar og ég tek svo algjörlega undir með þeim. Í hvert skipti sem ég hef flogið hingað heim síðastliðið ár þá hef ég alltaf fyllst ákveðinni ákefð og upplifað mikla hlýju við það að sjá föðurlandið. Föðurlandsástin vex með hverjum deginum sem ég hef eytt á erlendri grund og ég finn meir og meir hvernig hver taug í mér er rammíslensk.

Til hamingju með þjóðhátíðardaginn kæru Íslendingar. Njótum þess að halda hátíð, flagga fánum og vera stolt af strákunum okkar, stolt af árangri okkar allra í lífinu og fyrst og fremst stolt af því að tilheyra þessari mögnuðu þjóð sem hefur slíkan kyngikraft að engu öðru nær og undir tekur í fagurri náttúru okkar.


mbl.is Orðuveiting á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Alveg sammála þér Kidda!

Mér hefur runnið það til rifja að fólk á blogginu hefur verið að gera mál úr atriðum eins og finnast þetta yfirdrifnar móttökur. Mér fannst þær svo vel við hæfi. Ef þetta er ekki eitthvað til að samfagna yfir, þá veit ég ekki hvað það ætti að vera annað.

Magnús Helgi Björgvinsson, 28.8.2008 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband