Að fjárfesta í fólki

Stundum hefur mér þótt starfsmannastefna hins opinbera hér á landi ákaflega merkileg.

Manni hefur jafnvel flogið í hug að orð eins og mannauður sé þar með öllu óþekkt.

Þær aðferðir sem einkafyrirtækin hafa keppst við að nota hafa oft ekki verið við lýði í hinum opinbera geira, að minnsta kosti ekki þeim hluta sem snýr að þjónustu við fólk.

Að veita öðru fólki þjónustu, vera jafnvel bókstaflega hendur þess, er ákaflega mikilvægt starf (sem ég kynntist vel í sumar) og ég er nokkuð viss um að öll myndum við kjósa sem hæfast og best menntað fólk til þess að aðstoða okkur sjálf þegar árin eru orðin mörg og líkaminn farinn að gefa sig.

Því vekur það undrun hversu lítið virðist vera fjárfest í þeim mannauði sem vinnur þessi mikilvægu störf. Það er sparnaður að hafa vel menntað og hæft fólk í öllum störfum. Það leiðir af sér faglegra starf, meira framlag á að fást á minni tíma, fólk hefur menntað sig og er komið til að vera og því dregur það úr starfsmannaveltu sem er gríðarlega dýr og þreytu á vana góða starfsfólkið við það að vera að þjálfa sífellt upp nýtt fólk. Svo ég tali nú ekki um þreytu þeirra sem njóta þjónustunnar við að þurfa sífellt að sjá ný andlit í sínu persónurými og innstu athöfnum.

Ég vona að á næstu árum verði bylting á þessu sviði. Að aukin áhersla verði lögð á það að fjárfesta í því fólki sem hefur metnað til þess að vinna hvert starf. Þannig má auka arðsemi þjónustunnar með því að fjárfesta í þessum dýrmæta mannauði, hafa launin betri og nota sömu aðferðir og einkafyrirtækin til þess að umbuna starfsfólki. Það er undarlegt að á mörgum sviðum í hinum opinbera geira þá þykir það nógu gott að senda starfsfólki jólakort í tölvupósti á meðan einkafyrirtækin keppast við glæsilegar jólagjafir, greiða jafnvel árshátíðir niður að fullu sem haldnar eru á erlendri grund og fleira til. Ekki þykir mér líklegt að forvígismenn einkafyrirtækjanna séu svona gjafmildir og hafi ekkert betra við aurinn að gera! Nei, þeir hafa bara áttað sig á mætti vinnusálfræðinnar og kunna að fjárfesta í mikilvægasta hluta starfseminnar, starfsfólkinu. Fólkinu sem kemur verkefninu frá upphafsreit til enda. Þetta þarf hið opinbera að fara að átta sig á.

Það er mun dýrara að vera alltaf að kasta krónunni fyrir aurinn. Óánægður starfsmaður getur dregið niður starfsanda heils hóps og lamað afköstin. Á móti hefur ánægður starfsmaður margfeldiáhrif á vinnugleðina.


mbl.is Fá ekki að vinna sem sjúkraliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Því meira sem fólk leggur á sig í námi, því meira þarf að borga því. Eldri borgarar eru ekki hátt skrifaður hópur og þó eru þetta foreldrar einhvers sem hafa lagt á sig ómælda vinnu við að koma upp þessum sama barnahóp og ræður kannski ferðinni þegarað mannaráðningum kemur.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 29.8.2008 kl. 11:31

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

góður pistill

Hólmdís Hjartardóttir, 29.8.2008 kl. 11:49

3 identicon

Sæl og þakka bloggvináttuna

Mér hefur alltaf verið í nöp við orðið "mannauður"  - mér finnst alltaf verið að tala um eitthvað ópersónulegt, lagervöru eða peningainneign. Starfsmannastjórar eru allt íeinu orðnir "Mannauðsstjórar" eins og fjármálastjórar. Ef til vill er þetta bara íhaldssemi í mér en ég er viðskiptafræðingur og lít ekki á starfsfólk sem ópersónulegan auð fyrirtækja. 

kv

Björn

Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband