Sunnudagur, 7. september 2008
Héraðshátíð framsóknarmanna í Skagafirði
Ekki var ég svikin af ferðinni í Skagafjörðinn og var mikil stemming á mínum flokksfélögum eins og von og vísa er þegar framsóknarfólk kemur saman. Það var þétt setinn bekkurinn í skemmtiatriðunum og fullt hús sem hlustaði á Álftagerðisbræður taka lagið þannig að undir tók í norðlensku fjöllunum og náttúrunni á Króknum. Það gerist vart skagfirskara en þetta! Þeir eru þvílíkir listamenn að það er unun að hlusta á þá, þetta er svona tónlist sem kallar fram ýmsar hugsanir, tilfinningar og maður svífur með söngnum um óravíddir hugarheimsins. Það er gæðastimpill á tónlist að mínu mati þegar maður gleymir sér algjörlega í henni.
Þegar líða tók á kvöldið tók Geirmundur Valtýsson yfir sviðið og ekki var það nú síðra. Allir hópuðust út á dansgólfið, kornungir sem fjörgamlir framsóknarmenn og tjúttuðu við hvert lagið á fætur öðru. Það var ekki möguleiki að gefa dansskónum stundarhvíld þetta kvöldið og svitinn rann af dansglöðu fólkinu langt inn í nóttina. Guðni tók vel valin spor ásamt frú sinni í með okkur SUF-urum sem vorum nokkuð nálægt því að fara að dansa uppi á borðum...
Skagfirðingar eiga heiður skilinn fyrir að endurvekja góða hátíð og er þessi viðburður lýsandi fyrir þann kraft og endurvakningu sem ríkir í röðum okkar þessa dagana. Ég er alltaf að kynnast nýju og nýju frábæru framsóknarfólki og sá brunnur er ótæmandi því ætíð bætist gott fólk í hópinn og maður kynnist líka sífellt nýju fólki. Algjör veisla fyrir svona mannblendna konu eins og mig!
Þessa fallegu mynd sem prýðir færsluna tók ég á leið minni inn í Fljót sem er meðal fegurstu ökuleiða á landinu að mínu mati.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.9.2008 kl. 00:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.